Morðið í Austurlandahraðlestinni (1934) er með þekktari skáldsögum glæpasagnahöfundarins Agöthu Christie. Samnefnd ný kvikmynd, í leikstjórn hins fjölhæfa Kenneth Branagh, er fjórða kvikmynda- / sjónvarpsaðlögunin sem byggð er á bókinni. Undanfararnir eru kvikmynd árið 1974, sjónvarpsmynd árið 2001 og svo að sjálfsögðu þáttur í sjónvarpsseríunni Agatha Christie’s Poirot árið 2010. Sagan fylgir hinum virta belgíska einkaspæjara Hercule Poirot, söguhetju fjölda Christie skáldsagna, sem að venju tekur að sér að leysa dularfullt morðmál sem á sér stað í Austurlandahraðlestinni á leiðinni frá Jerúsalem til London, árið 1934. Allt samferðarfólk hans á fyrsta farrými, þar sem morðið á sér stað, liggur undir grun og er það því undir Poirot komið að greiða úr því hverjir eru að segja sannleikann og hverjir ekki.
Myndin skartar einvala liði leikara sem allir koma hlutverkum sínum prýðilega til skila. Með hlutverk hinna grunuðu farþega fara ekki smærri nöfn en Judi Dench, Derek Jacobi, Willem Dafoe, Penélope Cruz, Michelle Pfeiffer, Daisy Ridley, Josh Gad og Johnny Depp, sem öll túlka persónur sínar af svo mikilli færni og dulúð að áhorfendur sveiflast stöðugt á milli þess að vera fullkomlega vissir um að „þessi gerði það“, og að vona innilega að „þessi hafi ekki gert það“.
En það er að sjálfsögðu leikstjórinn sjálfur, Kenneth Branagh, sem stelur senunni og vinnur um leið hugi og hjörtu áhorfenda í báðum hlutverkum sínum sem Hercule Poirot og dásamlega yfirvaraskeggið hans. Þó að hann hafi kannski ekki til að bera alveg nákvæmlega sömu krúttlegheit og Poirot-leika og fyrirrennari hans, David Suchet, sem hefur sinnt hlutverkinu í áraraðir í áðurnefndri sjónvarpsþáttaröð, Agatha Christie’s Poirot, þá vinnur Branagh með karakterinn á sinn eigin heillandi hátt, sem getur unnið jafnvel tortryggnustu áhorfendur á hans band frá upphafi.
Morðið í Austurlandahraðlestinni útskýrir náðargáfu Poirot sem afbrigði af áráttu-þráhyggjuröskun (OCD) sem veldur því að fyrir honum verður heimurinn að vera í jafnvægi, og ef að hann verður ójafnvægis var, finnur hann sig knúinn til að lagfæra það, eða eins og hann segir sjálfur í byrjun: „I can only see the world as it should be. It makes an imperfection stick out like the nose on your face.“ Þessi röskun er undirstrikuð í gegnum myndina ýmist með því að Poirot er sífellt að biðja menn um að rétta af bindin sín eða hafa áhyggjur af samsvarandi hlutfallsstærð morgunverðareggjanna sinna tveggja, en einnig í skondinni senu í byrjun þar sem hann stígur öðrum fætinum í hestaskít og neyðist þá til að stíga með hinum fætinum líka, svo að jafnvægi sé náð. Þessi náðargáfa hans eða árátta gagnast honum vel við lausn morðmála, en þetta tiltekna mál reynist torræðara en hann er vanur, Poirot finnur og veit að það er eitthvað sem hann kemur ekki auga á, og eftir því sem líður á myndina er áhugavert að fylgjast með því hvernig þessi merkingareyða leggst þungt á hann, þeim mun þyngra því lengur sem það dregst hjá honum að koma jafnvægi á heiminn.
Einnig er athyglisvert að skoða þann samanburð sem myndin setur fram á Poirot og eins konar guði. Sýnt er hvernig fólk lítur á náðargáfu Poirots sem yfirnáttúrulega, og lítur þar með á hann sjálfan að vissu leyti sem einhvers konar yfirnáttúrulega veru. Til að mynda tekst honum á undraverðan hátt að leysa harðar deilur milli þriggja trúarhópa í Jerúalem í upphafi myndarinnar – en borgarstaðsetningin er vissulega táknræn – þar sem hann stillir þremur trúarleiðtogum borgarinnar upp líkt og hann ætli sér að dæma þá. Þessi samanburður er aftur bersýnilega undirstrikaður í lok myndarinnar í atriðinu þegar hann hefur loksins leyst morðmálið og safnar öllum hinum grunuðu saman – líkt og klassískt er í verkum Agötu Christie – til að sýna fram á snilld sína og afhjúpa sannleikann, sem og að lýsa rökleiðsluferlinu sjálfu, og benda loks á hinn seka. Þar byrjar hann einræðu sína á því að bókstaflega setja sjálfan sig á sama stall og guð, með því að halda því fram að nú séu það þeir einir sem viti sannleikann og geti bent á þann seka. Í sömu andrá sést hvernig öllum hinum grunuðu hefur verið stillt upp til að spegla hið þekkta málverk Leonardo Da Vinci, síðustu kvöldmáltíðina, og Poirot er þá í hlutverki þess sem getur dæmt þann sem hefur komið ójafnvægi á heiminn.
Þar sem meginþorri myndarinnar á sér stað í lest hefur tökuteymi myndarinnar þurft að beita fremur óhefðbundnum myndatökuaðferðum sem eru um margt eftirtektarverðar. Hið ílanga og mjóa rými sem lestin býður upp á er einkar takmarkandi, en með mikilli kænsku og skipulagi er listilega unnið með það, til dæmis með notkun hávinkils-skota þar sem sjónarhornið vísar beint niður í lestarklefa og fylgst er með framvindu atriðisins ofan frá; en einnig eru notuð skot frá ýmsum óvenjulegum hliðum, svo sem lágvinkils-skot úr horni lestarklefa, sem og skot þar sem myndavélin vísar í gegnum glerrúðu og inn í borðsalsvagninn, sem gerir það að verkum að glerið brýtur upp rammann líkt og horft væri í gegnum strending (e. prism). Þessir óhefðbundnu tökuvinklar gefa myndinni dulúðlegan blæ og virka eins og einhver ókunnug persóna standi óséð utan rammans og fylgist með framvidu mála, sem eykur þannig á þá óvissu sem sakamálið felur í sér.
Óhætt er að segja að aðdáendur Christie, Poirot og góðra sakamálasagna almennt fá hér óvænta gjöf í hendur. Jafnvel óinnvígðir og þeir sem skeptískir kunna að vera á sagnaheim Christie á hvíta tjaldinu (og skjánum), og telja þar fullnóg hafa verið gert nú þegar, kunna að skipta um skoðun, svo fumlaus og fim er myndin og frammistaða Branaghs í aðalhutverkinu og leikstjórastólnum. Um er að ræða spennandi nýja túlkun á hinum sérvitra einkaspæjara, og fyrir þá sem falla kylliflatir fyrir þessari mynd spillir það ekki fyrir að endalokin lofa framhaldsmynd byggðri á öðru ekki síður vel þekktu Poirot máli.
[fblike]
Deila