Blákaldur raunveruleiki

Leikhópurinn Sómi þjóðar frumsýndi í Tjarnarbíói, þann 1. desember síðastliðinn, nýtt íslenskt verk sem ber heitið Sol. Leikritið er eftir Hilmi Jensson og Tryggva Gunnarsson, sem báðir eru leikarar, leikstjórar og leiðsögumenn.

Verkið byggir á sannri sögu og segir frá ungum manni sem er heltekinn af heimi tölvuleikja. Hann lifir og hrærist í sýndarveruleika og utan hans skiptir ekkert mál. Hann er einangraður frá umheiminum en á þó einn vin sem þrjóskast enn við að ná þessum forfallna tölvuleikjafíkli út í samfélagið eða hið daglega líf. Ungi maðurinn á einnig vinkonu, Sol, sem lifir og hrærist í sama sýndarveruleika og hann og með þeim takast ástir.

Verkið er ástarsaga en um leið raunsönn lýsing á heimi ungs fólks sem hefur orðið tölvuleikjafíkn að bráð. Það er tímabært að taka þessi má til umfjöllunar. Leikjafíkn er mikill skaðvaldur og getur haft varanleg áhrif á þá sem lenda í henni. Í þessu verki er brugðið upp mynd af hugarheimi slíks fólks. Ungi maðurinn, Davíð,  sem leikinn er af Hilmi Jenssyni, setur sér engin mörk, missir tímaskyn, er ekki í vinnu nema íhlaupaverkum, einangrast, afneitar vandamálinu, fer í vörn og líður hvergi betur en fyrir framan tölvuna. Allt eru þetta einkenni fíknarinnar.

Hilmir leikur Davíð af mikilli sannfæringu. Áhorfendur verða vitni að innri togstreitu og örvæntingu persónunnar. Hilmir gerir þetta mjög vel.

Kolbeinn Arnbjörnsson fer með hlutverk vinarins sem lifir „venjulegu” lífi. Hann er gaurinn sem fer út að djamma um helgar, nær í stelpur á stefnumótaforritinu Tinder, lifir í raunveruleikanum. Og þó að súrsætt næturlíf borgarinnar sé naumast innihaldsríkt eða þroskandi þá er það þó betra en sýndarveruleikinn, eða er það svo? Þessari spurningu er meðal annars varpað fram í verkinu. Kolbeinn fór með hlutverk sitt með sóma.

Sol er leikin af Salóme Rannveigu Gunnarsdóttur. Sol er mikill töffari, persóna sem spilarar á netinu líta upp til. Hún er snjall leikmaður, stýrir leikjum af hugvitsemi og snerpu og á sér fjölmarga aðdáendur. Salóme er sannfærandi í túlkun sinni.

Leikritið er fyndið en með dramatískum undirtóni. Leikarar bregða sér í hlutverk sinna „leikmanna” á netinu með tilheyrandi hreyfingum, hoppum, skoppum, bardagatækni og leikrænum tilþrifum. Þríeykið er sértaklega skemmtilegt í þessum senum og fær hreyfihönnuður sýningarinnar, Sigríður Soffía Níelsdóttir, hrós fyrir skemmtilega sviðsetningu.

Í stuttu máli þá gengur allt upp í þessari sýningu. Leikarar standa sig með prýði, leikstjórinn finnur skemmtilegar lausnir og leikmyndin er hugvitsamleg í þessu litla rými sem Tjarnarbíó er. Hljóð, ljós og myndvinnsla er stór hluti sýningarinnar og gefur innsýn inn í þennan óreiðukennda heim sem tölvuleikir eru hluti af. Heiðurinn af þeirri vinnu eiga þeir Tryggvi Gunnarsson, Hafliði Emil Barðason og Valdimar Jóhannsson.

Tölvuleikjafíkn er dauðans alvara og er vel til fundið að leikhúsið sem listform fjalli um hana. Það sem gerir þetta að spennandi leikverki er að sýndarveruleiki er settur á svið og verður blákaldur raunveruleiki.

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

[fblike]

Deila