Inngangur Maríu Helgu Guðmundsdóttur að þýðingu greinarinnar „Hvað kenna hinsegin fræði okkur um x?“ eftir Lauren Berlant og Michael Warner sem birt er í Ritinu:2/2017.
„Við höfum verið beðin að festa hinseginfræðahalann á asnann.“ Þannig lýsa Lauren Berlant og Michael Warner pöntun hins virta bandaríska hugvísindatímarits Publications of the Modern Language Association of America (PMLA) á grein um hinsegin fræði – eða öllu heldur skilgreiningu á fræðigreininni. Svarið við þeirri beiðni, „Hvað kenna hinsegin fræði okkur um x?“, birtist í PMLA árið 1995 og lítur nú dagsins ljós í íslenskri þýðingu.¹ Höfundarnir eru enskuprófessorar við virta háskóla í Bandaríkjunum: Berlant hefur kennt
við Háskólann í Chicago allar götur síðan 1984 og Warner hefur starfað við Northwestern-, Rutgers- og nú síðast Yale-háskóla. Bæði eru mikils metin sem frumkvöðlar á sviði hinsegin fræða. En árið 1995 voru „hinsegin fræði“ svo ung grein að höfundarnir töldu sig knúna til að „[nema] staðar og [glápa] hálfforviða á ástand vesalings asnans“ sem allir vildu ólmir skilgreina og njörva niður. Eins og höfundarnir benda sjálfir á er PMLA „ekki hinsegin rými á nokkurn hátt“ heldur hefðbundið, íhaldssamt rit sem trónir ofarlega í goggunarröð hinnar bandarísku akademíu. Beiðni PMLA um skilgreiningu á hinsegin fræðum var til marks um það sem Berlant og Warner benda á í greininni: „Hinsegin er í tísku.“
Hinsegin var í tísku, já – komið á kortið hjá fræðasamfélaginu og byrjað að losna úr viðjum þöggunar og ósýnileika í opinberri umræðu. Til dæmis hafði ný alríkislöggjöf um skráningu hatursglæpa tekið gildi árið 1990 og brotið blað í sögunni; þetta var í fyrsta sinn sem bandarískur lagabókstafur viðurkenndi félagslega tilvist sam- og tvíkynhneigðra. En tískubylgjan sem fleytti hinseginhugtakinu inn á borð PMLA varð til í skugga útskúfunar og dauða. Annað hvert ríki Bandaríkjanna bannaði enn samkynja kynlíf á fyrri hluta 10. áratugarins; í Idaho lá dauðarefsing við glæpnum allt fram til 2003.
Og dauðinn var ekki bara refsirammi á blaði. Síðan 1980 hafði HIV-veiran herjað grimmt á karlmenn sem sváfu hjá körlum og kostað þúsundir og síðan tugi þúsunda manna lífið ár hvert. Útgáfuár greinarinnar, 1995, markaði hápunkt alnæmisfaraldursins vestanhafs: tæplega 42 þúsund Bandaríkjamenn dóu úr sjúkdómnum það ár. Meðan faraldurinn stráfelldi ungt hinsegin fólk drógu yfirvöld lappirnar og níddust opinberlega á fórnarlömbunum. Á upptökum af fjölmiðlafundum Hvíta hússins frá árunum 1982–4 má heyra talsmann Reagans forseta hæðast að hommum og HIV-jákvæðum og uppskera hláturrokur viðstaddra.² Á þeim rúma áratug sem liðinn var síðan drepsóttarinnar varð fyrst vart hafði hún knúið fram miklar breytingar á hinsegintengdum umræðum, ekki síst af sökum sem Berlant og Warner ávarpa með beinum hætti í grein sinni:
Alnæmið sýndi okkur sem tókumst á við það að orðræða gat verið upp á líf og dauða; það gerði okkur ljóst að svo margt sem skipti máli, tengt reiði, sorg og þrá, var hvorki hægt að orða á opinberum né óopinberum vettvangi.
Hin nýja fræðilega umfjöllun um hinsegin málefni var hluti af þessari breyttu orðræðu og því nátengd lífsnauðsynlegum aktívisma frá upphafi.
En fræði og grasrótarbarátta þjóna oft ólíkum tilgangi og Berlant og Warner eru sjálf staðsett á gráu svæði milli þessara póla. Þau eru vitanlega fræðimenn en samsama sig um leið hinsegin samfélaginu sem þau fjalla um, samfélagi sem á tilvist sína undir þessari orðræðu komna.³ Beiðni PMLA um skilgreiningu á hinsegin fræðum svara þau með því að setja spurningarmerki við hugtakið sjálft:
Hættan sem fylgir stimplinum hinsegin fræði er að hann fær lesendur, bæði hinsegin og þessegin (e. non-queer), til að gleyma þessum mismun og ímynda sér samhengi (fræði) þar sem hinsegin hefur fasta skírskotun og hagnýtan áhrifamátt.
Í framsetningu Berlant og Warners eru áhöldin um meintan „fræðileika“ þess sem þau kalla hinsegin róttæka gagnrýni (e. queer criticism) viss birtingarmynd víðtækari togstreitu innan hinsegin samfélagsins, togstreitu milli samlögunar að ríkjandi gildum og ræktunar menningarlegra sérkenna sem oft stuða og grafa undan stöðugleika meginstraumsins. (Sígilt dæmi um þessa togstreitu eru langvarandi átök um samkynja hjónabönd sem helsta baráttumál homma og lesbía. Margt annað mætti nefna, svo sem deilur um aðild eða útilokun tvíkynhneigðra, trans fólks og annarra úr starfsemi hinsegin félaga.) Með ádeilu sinni á hugtakið „hinsegin fræði“ og skilgreiningar með „fasta skírskotun“ gera Berlant og Warner í raun tilraun til að grafa undan hinum fræðilega meginstraumi og skilgreiningarvaldi hans. En á sama tíma og þau hafna fræðahugtakinu er grein þeirra að mörgu leyti afgerandi partur af meginstraumnum sem hún gagnrýnir: yfirþyrmandi fræðileg, allt að því tyrfin og birt í riti sem nær nánast eingöngu til annarra fræðimanna. Greinin er því að mörgu leyti fullkominn fulltrúi „hinsegin róttæku gagnrýninnar“ sem Berlant og Warner veigra sér við að kalla hinsegin fræði: fræðigrein með aktívismaundirtónum, aktívismi í fræðilegum búningi, hvorki fugl né fiskur – en hugsanlega asni, með eða án halans.
- Lauren Berlant og Michael Warner, „What Does Queer Theory Teach Us about X?“, gestapistill [guest column], PMLA 110: 3/1995, bls. 343–349.
- Scott Calonico (leikstj.), When AIDS Was Funny, heimildastuttmynd, AD&D Productions, 2015. Myndina má nálgast á vefsíðunni Vanity Fair Videos, sótt 10. ágúst 2017 af
http://video.vanityfair.com/watch/the-regan-administration-s-chilling-response-to-the-aids-crisis - Sbr. t.d. notkun þeirra á persónufornöfnunum við/okkur í tilvitnuninni í lok síðustu efnisgreinar.
[fblike]
Deila