Inngangur ritstjóra Ritsins:2/2017. Ásta Kristín Benediktsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir.

„Að okkar mati er ekki hjálplegt að líta á hinsegin fræði sem fyrirbæri,“ segja Lauren Berlant og Michael Warner í gestapistli um hinsegin fræði sem þau voru beðin að skrifa í bandaríska tímaritið PMLA árið 1995. „[H]insegin fræði eru ekki fræði um neitt sérstakt og þeim tilheyrir engin tiltekin ritaskrá“, bæta þau síðan við.[1] Þetta ekki-fyrirbæri sem þau fjalla um og rífa niður í sömu andrá var nýtt, ferskt, spennandi og í hraðri mótun á ritunartíma pistilsins en það útskýrir ekki mótþróa höfundanna gegn því að skilgreina það. Í þessari ögrandi mótsögn má hins vegar segja að felist kjarni og virkni hinsegin fræða allt frá upphafi tíunda áratugarins til dagsins í dag: að afbyggja og gagnrýna orðræður og skilgreiningakerfi, jafnvel þótt það hafi í för með sér afbyggingu á eigin skrifum. Í þessu samhengi skiptir einnig máli að hinsegin fræði, eða „hinsegin umfjöllun“ eins og Berlant og Warner kjósa að nefna ekki-fyrirbærið, eru ekki bara akademísk heldur spruttu upp úr aktívisma og hafa alla tíð þróast og þrifist á báðum sviðum – kannski ekki síst í samspili þar á milli. Höfundarnir benda þannig á að orðið „fræði“ (e. theory) sé of bundið við háskólaumhverfið:

Orðræðan um „hinsegin fræði“ gefur sér að viðfangið sé akademískt en hinsegin umfjöllun á sér lifandi fordæmi og snertifleti í fagurfræðilegum greinum og blaðamennsku. Það er ekki hægt að fella hana inn í eina orðræðu, hvað þá eitt fullyrðingakerfi.[2]

Að sama skapi er flókið að festa hendur á hugtakinu hinsegin (e. queer). Hin róttæka og afbyggjandi merking þess – sú sem Berlant og Warner byggja á – felur í sér andstæðu sína og allt það sem það er ekki; hinsegin er það sem er ekki talið venjulegt, eðlilegt eða hefðbundið, sér í lagi hvað varðar kyn og kynverund, í því samhengi sem um er að ræða hverju sinni.[3] Þannig er hinsegin greinandi hugtak, eins og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir rekur í nýlegri grein um hinsegin sagnfræði, því það beinir sjónum að samfélagi og menningu, valdaformgerðum og normum – því sem gerir það að verkum að sumt er talið venjulegt og annað afbrigðilegt.[4] Hinsegin er hins vegar líka notað sem sjálfsmyndarhugtak, oft sem yfirhugtak eða regnhlíf yfir ýmsa hópa fólks, svo sem tvíkynhneigða, lesbíur, trans fólk, homma, pankynhneigða, intersex fólk og svo framvegis. Slíkri notkun hafna Berlant og Warner, enda var hin róttæka notkun á hugtakinu frá upphafi beinlínis andsvar við sjálfsmyndarpólitík; því fylgdi krafa um að horft yrði gagnrýnum augum á norm og valdaafstöður í tengslum við til dæmis kynlíf og kynhlutverk án þess að afmarka hagsmuni baráttunnar við sjálfsmyndir og hópa á borð við homma eða lesbíur.[5] Notkun hinsegin sem sjálfsmyndar- og regnhlífarhugtaks er engu að síður víða algeng, til dæmis á Íslandi, sem gerir að verkum að oft er erfitt að greina hvað nákvæmlega er átt við þegar talað er um að eitthvað eða einhver sé hinsegin.[6]

Hinsegin fræði eru upp runnin í Bandaríkjunum og náðu fyrst útbreiðslu í hinum enskumælandi heimi. Í akademísku samhengi eru þau nátengd femínisma og kynjafræðum, eftirlendufræðum, fötlunarfræðum og fleiri sviðum sem rannsaka jaðarsetningu, valdatengsl og málefni minnihlutahópa. Þau eru hvort tveggja í senn skilgetið afkvæmi homma- og lesbíurannsókna (e. gay and lesbian studies) og gagnrýni á þær en þær síðarnefndu miða að því, eins og Geir Svansson rekur í ítarlegri grein um hinsegin fræði, „Ósegjanleg ást“, frá árinu 1999,

að finna og móta (stöðuga) samkynhneigða sjálfsmynd til mótvægis þeirri gagnkynhneigðu. Hinsegin fræði hafa aftur á móti að markmiði að grafa undan sjálfsmyndarhugtakinu og kyngervum með því að benda á innri óstöðugleika hugtakanna. Fyrsta skrefið í þá átt er að afhjúpa þá gagnkynhneigðu hugmyndafræði sem gegnsýrir öll svið menningar og fellir allt að sínu normi en útilokar það sem er öðruvísi.[7]

Virkni hugtaksins hinsegin í slíkum rannsóknum og greiningu er afbyggjandi og á ensku er það oft notað sem sagnorð: to queer eða queering. Geir stingur upp á að á íslensku megi tala um að skjöna, eða jafnvel hin(n)segja:[8]

Skjönun, eða afbygging, á gagnkynhneigðu forræði felst í því að gagnrýna á róttækan hátt forsendur þessa forræðis og forréttinda sem undirskipa og útiloka aðra, þá sem eru hinsegin, í nafni hins heilbrigða, hins eðlilega, náttúrulegs skipulags eða almáttugs guðs.[9]

Skjönun á menningartextum, til dæmis bókmenntum, felur þannig í sér að greina merkingu út frá sjónarhóli jaðarsins, eins og Dagný Kristjánsdóttir bendir á í greininni „Skápur, skápur, herm þú mér …“. „Það er […] engan veginn meiningin að nú eigi allir að snúa sér að því að afhjúpa laumuhomma og lesbíur í bókmenntasögunni, draga þau út úr skápum sínum, þó að það sé vafalaust hægt – og gæti verið skemmtilegt,“ segir hún – það er fremur markmið homma- og lesbíurannsókna.[10] Hinsegin lestur rýnir aftur á móti í valdaafstöður og andstæðukerfi, skoðar táknmál og tjáningu, fljótandi mörk milli kynja og kynverunda og það sem ekki fellur ljúflega inn í gagnkynhneigt, normatívt regluverk og þekkingarramma.

Grein Berlant og Warners birtist í íslenskri þýðingu í þessu hefti, rúmum tveimur áratugum eftir að hún var skrifuð. Á þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar í Bandaríkjunum, Vestur-Evrópu og víðar og hinsegin fræði, eða það sem kalla má hinsegin nálgun eða hugmyndafræði ef við viljum forðast að tjóðra ekki-fyrirbærið við akademíuna, hefur víða haft mikil áhrif á rannsóknir, aktívisma og hugmyndir fólks um kyn og kynverund. Á Íslandi voru hinsegin fræði kynnt til sögunnar í akademísku samhengi laust fyrir síðustu aldamót þegar fyrrnefndar greinar Geirs og Dagnýjar birtust á prenti. Í þeim, og fleiri greinum sem höfundarnir sendu frá sér í kjölfarið, er fjallað um ýmsar helstu kenningar hinsegin fræða, þær settar í samhengi við íslenskar bókmenntir og bókmenntaumræðu og gerðar mikilvægar atlögur að því að ræða og greina hinsegin bókmenntir á Íslandi. Dagný og Geir rekja þræði aftur til miðalda en staldra þó fyrst og fremst við síðari hluta tuttugustu aldar, hómófóbísk skrif eftir gagnkynhneigða karlmenn jafnt sem merkar skáldsögur um hinsegin ástir og tilveru eftir höfunda á borð við Kristínu Ómarsdóttur, Vigdísi Grímsdóttur og Guðberg Bergsson.[11] Um svipað leyti sendi Ármann Jakobsson enn fremur frá sér grein um hinsegin lestur á Njálu og því er ljóst að árdagar hinsegin fræða á Íslandi voru samtvinnaðir bókmenntarannsóknum.[12] Skömmu síðar voru hinsegin fræði tekin inn í kennslu í kynjafræði í Háskóla Íslands og áhugaverð skrif hafa litið dagsins ljós í félags- og menntavísindum á undanförnum áratug. Á sama tíma hefur ekki mikið farið fyrir hinsegin fræðum innan hugvísinda á Íslandi en ýmis verkefni eru nýbirt eða í vinnslu og vonir standa til að framundan séu spennandi tímar í hinsegin hugvísindarannsóknum.[13]

Hinsegin hugmyndafræði hefur haft sívaxandi áhrif á aktívisma og hinsegin félagsstarf á Íslandi á undanförnum 10–15 árum. Barátta og starfsemi samtaka eins og Samtakanna ’78 og Q – félags hinsegin stúdenta snýst ekki bara um lagaleg og samfélagsleg réttindi og málefni homma og lesbía – þótt vitanlega sé sú vinna enn í gangi samhliða öðrum verkefnum. Hún hefur þróast í þá átt að gagnrýna gagnkynhneigð viðmið samfélagsins og skapa rými fyrir fólk þar sem það getur verið til á eigin forsendum án þess að falla inn í niðurnjörvuð mót sem gera aðeins ráð fyrir tveimur kynjum, fastmótuðum kynhlutverkum, gagnkynja ástum og „siðsamlegu“ kynlífi bak við luktar dyr heimilisins. Hugtakið hinsegin í þessu samhengi er sjálfsmyndarhugtak – regnhlíf sem er látin ná yfir sífellt fleiri hópa – en hin róttæka merking þess er einnig virk og oft er illmögulegt að greina þar á milli. Stækkun regnhlífarinnar sést einna greinilegast á nafnbreytingum félagasamtaka. Stúdentafélagið hét til dæmis Félag samkynhneigðra stúdenta (FSS) þegar það var stofnað árið 1999, nafninu var breytt í Félag sam- og tvíkynhneigðra stúdenta nokkrum árum síðar, því næst var „transgender“ tekið inn í nafnið og að lokum varð félagið Q – félag hinsegin stúdenta árið 2008. Í pistli frá þáverandi formanni félagsins, Brynjari Smára Hermannssyni, er síðasta nafnbreytingin sögð fela í sér mikilvæga pólitíska afstöðu þar sem

gömlu stimplarnir, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og trans, eru lagðir til hliðar á þessum vettvangi og í staðinn er einblínt á það sem sameinar okkur öll í einum málstað, þ.e. að eitthvað í fari okkar er í andstöðu við það sem samfélagið ætlast til, á skjön við hið gagnkynhneigða forræði […].[14]

Þessi aðgerð var með öðrum orðum gerð með róttæka hinsegin pólitík að leiðarljósi. Í reynd hafa þó sjálfsmyndarhugtökin – „stimplarnir“ – ekki verið lögð algjörlega til hliðar, hvorki hjá Q-félaginu né Samtökunum ’78, enda eru þeir í augum margra mikilvægur þáttur í réttindabaráttu jafnt sem daglegu lífi. Róttæknin sem felst í því að víkka umtalsvert út regnhlífarhugtakið hinsegin í félagsstarfi og baráttu, þannig að margir (ekki bara nokkrir útvaldir) hópar rúmist þar undir, er engu að síður ótvíræð og felur í sér viðurkenningu á því að samfélagsleg kynja- og kynverundarnorm eru ekki bara kúgandi fyrir samkynhneigða heldur alla þá hópa sem eru á skjön við þau – og að þessir hópar eigi samleið. Slík nálgun er alls ekki óumdeild og um hana stóðu til dæmis deilur sem náðu hápunkti í kringum aðalfund Samtakanna ’78 árið 2016. Helsta ágreiningsefnið var hvort félagið BDSM á Íslandi ætti að fá hagsmunaaðild að Samtökunum ’78 en í því fólst um leið ágreiningur um fyrir hvað samtökin stæðu, hvert hlutverk þeirra væri og hvað hugtakið hinsegin merkti, það er hvort fólk sem teldi BDSM-hneigð hluta af sinni kynferðislegu sjálfsmynd og tilveru væri hinsegin eða ekki og hvort þau ættu samleið með öðrum hópum, til dæmis hommum og lesbíum.[15]

Gagnvirk tengsl milli háskólasamfélagsins og hinsegin samfélagsins eru mikilvægur þáttur í sögu hinsegin fræða og við undirbúning þessa heftis var hugað sérstaklega að þeim samskiptum, meðal annars í tengslum við þær erlendu greinar sem hér birtast í íslenskri þýðingu Maríu Helgu Guðmundsdóttur, sem auk þess að starfa sem þýðandi er formaður Samtakanna ’78. Að eiga nothæfan og lýsandi orðaforða á íslensku er grundvallaratriði fyrir hinsegin fræðastarf en ekki síður fyrir hinsegin einstaklinga og hópa og snar þáttur í bæði háskóla- og félagsstarfi er að móta og prófa sig áfram með þýðingar á erlendum hugtökum. Réttindabarátta hinsegin fólks er óhjákvæmilega barátta fyrir rými innan tungumálsins, gegn þöggun og ósýnileika og um leið fyrir því að fá að velja hvaða orð eru notuð til að lýsa eigin tilveru, eins og glíma Samtakanna ’78 við bann útvarpsstjóra á notkun orðanna hommi og lesbía í auglýsingatíma Ríkisútvarpsins á fyrri hluta níunda áratugarins sýndi.[16] Sú barátta er enn í gangi og hinn sívaxandi fjölbreytileiki undir hinsegin regnhlífinni gerir ekki aðeins kröfu um að fleiri hugtök séu notuð yfir hinsegin veruleika heldur einnig um öfluga nýyrðasmíð. Árið 2015 efndu Samtökin ’78 því til nýyrðasamkeppni þar sem leitað var bæði að íslenskum þýðingum á enskum hugtökum og nýjum íslenskum orðum.[17] Í þýðingunum sem birtast í þessu hefti er meðal annars leitað í þann orðabanka en einnig í eldri skrif á íslensku, svo sem fyrrnefnda grein Geirs Svanssonar. Geir gerði þar mikilvægar tilraunir til að þýða ný hugtök tengd hinsegin fræðum og sum þeirra hafa fest rætur í málinu, bæði meðal háskólafólks og aktívista, svo sem kynusli og að skjöna eða hinsegja.[18]

Í þessu hefti eru birtist einnig myndaþáttur með völdum listaverkum sem sýnd hafa verið í Galleríi 78 sem starfar í húsakynnum Samtakanna ’78 á Suðurgötu 3. Eins og Magnús Gestsson rekur í inngangi að þættinum hafa níu sýningar verið settar upp í Galleríi 78 síðan það opnaði árið 2015 og það er uppbókað fram til ársins 2019, sem sýnir og staðfestir að gróskan í myndlist hinsegin listamanna er mikil en ekki síður að meðal þeirra er vilji til að sýna í sérstöku hinsegin galleríi; rými þar sem hinsegin reynsla og tilvera er ekki aukaatriði heldur fær það pláss og þá athygli sem hún krefst hverju sinni. Forsíðumynd Ritsins að þessu sinni er eitt þessara verka: „Kona. Innsetning með jute reipi“ eftir Margréti Nilsdóttur. Um er að ræða akrílmálverk sem sýnir nakinn kvenlíkama bundinn með reipi; umfjöllunarefni sem oft er sett í samband við ofbeldi og misnotkun. Í augum margra felur slík athöfn þó í sér kynferðislegan unað og jákvæða upplifun, eins og sjá má á svip konunnar, og verkið er þannig hvort tveggja í senn tjáning á reynslu sem oft er fordæmd og bein tilvísun til nýlegra deilna innan hinsegin samfélagsins um hvort BDSM-hneigð geti fallið undir hinsegin regnhlífina eða ekki. Reipið nær enn fremur út fyrir verkið, út í raunheiminn, og undirstrikar hin beinu tengsl listarinnar við umhverfi sitt, áhorfendur jafnt sem pólitík.

Þemagreinarnar að þessu sinni fjalla um ólíkar hliðar hinsegin fræða og rannsókna: teoríu, sögu og bókmenntir. Guðrún Elsa Bragadóttir ríður á vaðið með grein um sálgreiningu og hinsegin fræði en þar spyr hún hvort þetta tvennt geti farið saman. Svar hennar er já, sannarlega fara kenningar sálgreiningar og hinsegin fræði saman en þær rekast líka á. Í samspili þeirra á milli, svo sem í úrvinnslu Judith Butler á kenningum Sigmunds Freud og Jacques Lacans en ekki síður í nýlegri gagnrýni fræðimanna á borð við Tim Dean og Patriciu Gherovici á skrif Butler og þeirra eigin nálgun á grunnkenningar sálgreiningarinnar, hefur orðið til frjó umræða um kyn, kynverund og mótun sjálfsins. Þótt Freud og Lacan hafi verið gagnrýndir fyrir að vilja fella sjálfsveruna, kyn hennar og kynverund inn í gagnkynhneigð, karllæg kerfi er málið flóknara en svo; í skrifum þeirra, sem tóku breytingum og voru í sífelldri endurskoðun, koma fram ýmsar mótsagnir sem sýna að slíkar skilgreiningar eru alltaf óstöðugar og í raun ómögulegar. Guðrún Elsa rekur hvernig síðari tíma fræðimenn hafa gert ýmsar atlögur að því að afbyggja grunnkenningar sálgreiningarinnar með því að benda á innri mótsagnir þeirra en um leið byggt á þeim til að varpa ljósi á ýmsar ólíkar hliðar kynjaðs veruleika sjálfsverunnar.

Í grein Soffíu Auðar Birgisdóttur er viðfangsefnið einnig hið erfiða og oft ómögulega verkefni að ákvarða kyn og kynverund. Hún dregur fram sögu einstaklings frá 19. öld, Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, og frásagnir af henni sem gefa í skyn að Guðrún hafi þótt karlmannleg og ýja að því að kynferði hennar hafi verið rangt ákvarðað við fæðingu. Skortur á heimildum og persónulegum vitnisburði Guðrúnar sjálfrar um tilfinningar hennar og kynvitund gerir að verkum að ómögulegt er að segja til um kynferði hennar, kynverund eða sjálfsmynd. Sögusagnir samtímafólks Guðrúnar, og annarra sem síðar komu, sýna engu að síður að í augum annarra var hún á einhvern hátt hinsegin, það er á skjön við hefðir, venjur og hugmyndir samtímans um hvað væri „satt“ eða eðlilegt kyn. Í greininni nefnir Soffía nokkra möguleika til túlkunar á þessum frásögnum og gerir einum þeirra ítarleg skil, það er þeim möguleika að kynferði Guðrúnar hafi verið órætt og hún hafi fæðst með kynbreytileika sem samkvæmt nútímaorðfæri fellur undir regnhlífarhugtakið intersex.

Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um skáldsöguna Man eg þig löngum eftir Elías Mar og samkynja langanir sögupersónanna. Bókin var rituð undir lok fimmta áratugar síðustu aldar en þá var erfitt að ræða og skrifa hreinskilnislega um samkynja ástir; opinber orðræða um samkynhneigð var varla til á Íslandi og stutt í harkalega fordæmingu. Leiðin sem Elías fór, eins og svo margir aðrir rithöfundar hafa gert, var að skrifa undir rós. Persónurnar eru ekki samkynhneigðar að því leyti að þær gangist við slíkri sjálfsmynd eða komi ótvírætt fram sem samkynhneigðar heldur er um að ræða ýmiss konar tjáningu og vísbendingar sem gefa tilefni til þess að tilfinningar persónanna og kenndir séu túlkaðar sem samkynja langanir. Í greininni fjallar Ásta um slíka gjörninga út frá kenningum Eve Kosofsky Sedgwick um hinsegin gjörningshátt og beinir sérstaklega athyglinni að því hvernig hinsegin gjörningar persónanna tengjast skáldskap og þeim möguleikum sem hann býr yfir; í gegnum lestur og skapandi skrif hafa persónurnar möguleika á að tjá sig og losa um skömmina sem fylgir því að vera öðruvísi.

Þýðingarnar í þessu hefti eru tvær en auk pistils Berlant og Warners um hinsegin fræði birtist hér grein eftir Lillian Faderman, einnig frá árinu 1995, sem spyr aðkallandi spurningar: „Hvað eru lesbískar bókmenntir?“ Eftir hverju horfum við og að hverju erum við að leita? Þessar spurningar skipta meginmáli þegar kemur að því að greina menningartexta, hvort sem nálgunin er hinsegin, það er afbyggjandi, eða fremur miðuð því að koma auga á samkynhneigð eða aðrar sjálfsmyndir.

Tvær greinar utan þema birtast í heftinu. Í grein sinni „„eins og ævintýri“ eða „glansmynd af horror“?“ fjallar Guðrún Steinþórsdóttir um viðbrögð ólíkra lesenda við skáldsögunni Frá ljósi til ljóss eftir Vigdísi Grímsdóttur auk þess sem hún tekur til umfjöllunar bókadóma um verkið. Í rannsókn sinni beitir Guðrún bæði „hefðbundnum“ aðferðum bókmenntafræðinnar og eigindlegum rannsóknum, í formi hópviðtals, með það að markmiði að kanna tilfinningaviðbrögð og samlíðan þátttakenda. Upplifun lesendanna af sögunni reyndist mjög ólík og eins og titill greinarinnar ber með sér fannst sumum þeirra sagan falleg ástarsaga í ætt við ævintýri á meðan aðrir upplifðu hana sem hryllingssögu. Þessi ólíku viðbrögð ræðir Guðrún og útskýrir með hliðsjón af hugrænum fræðum og eins og hún segir í lokaorðum má með þessari nálgun komast nokkru nær því en áður hver áhrif og viðtökur bókmennta eru.

Í síðari greininni sem hér birtist utan þema, „Dauðinn, réttlætið og guð hjá Forngrikkjum“, fjallar Svavar Hrafn Svavarsson um ólík viðhorf til þess hver örlög sála eru eftir dauðann. Í greininni er veitt yfirsýn yfir hugmyndir um handanlíf, um samhengi þessa lífs og næsta og fjallað um kenningar um réttlæti, hamingju og refsingu hjá Forngrikkjum fyrir tíma Platons. Á þeim tíma var algengt að sálin væri talin dauðleg en Platon hafði hins vegar áhuga á handanvist sálarinnar og trúði á guðlegt réttlæti eftir dauðann. Í greininni er varpað nýju ljósi á kenningu Platons sem tengir gjörðir manns í þessum heimi við örlög í næsta heimi í gegnum kenningu um sálina sem lifir dauða líkamans.

Ásta Kristín Benediktsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir, ritstjórar Ritsins:2/2017.

[1] Lauren Berlant og Michael Warner, „Hvað kenna hinsegin fræði okkur um X?“, þýð. María Helga Guðmundsdóttir, bls. 170 í þessu hefti. Í inngangi þýðanda er fjallað um samhengið sem greinin birtist í, m.a. um tímaritið PMLA.

[2] Sama rit, bls. 170.

[3] Fræg er skilgreining Davids M. Halperin: „Queer is by definition whatever is at odds with the normal, the legitimate, the dominant. There is nothing in particular to which it necessarily refers. It is an identity without an essence.“ Sjá David M. Halperin, Saint Foucault: Towards a Gay Hagiography, New York og Oxford: Oxford University Press, 1995, bls. 62.

[4] Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „Forsenda fyrir betra lífi“? Tilraun til skilgreiningar á hinsegin sögu“, Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi, ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Reykjavík: Sögufélag, 2017, bls. 21–58, hér bls. 31–34. Á íslensku hefur hinsegin fest í sessi sem þýðing á queer en eins og Hafdís bendir á (bls. 31, nmgr. 26) er ekki sjálfgefið að hægt sé að leggja hugtökin fullkomlega að jöfnu, m.a. sökum þess að hinsegin er í almennari notkun á Íslandi en queer er víðast hvar.

[5] Sjá Lauren Berlant og Michael Warner, „Hvað kenna hinsegin fræði okkur um X?“, bls. 171.

[6] Ágætt yfirlit yfir notkun og skilgreiningar á hugtakinu queer má t.d. sjá í Nikki Sullivan, A Critical Introduction to Queer Theory, Edinborg: Edinburgh University Press, 2003, bls. 37–56.

[7] Geir Svansson, „Ósegjanleg ást: Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“, Skírnir haust 1998, bls. 476–527, hér bls. 480.

[8] Sama rit, bls. 481.

[9] Sama rit, bls. 486.

[10] Dagný Kristjánsdóttir, „Skápur skápur, herm þú mér …“, Undirstraumar: Greinar og fyrirlestrar, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, bls. 290–296, hér bls. 294–95.

[11] Sjá einnig t.d. Geir Svansson, „Kynin tvö / Kynstrin öll: Um kynusla, kyngervisútlaga og efni(s)legar eftirmyndir“, Flögð og fögur skinn, ritstj. Jón Proppé, Reykjavík: Íslenska menningarsamsteypan, 1998, bls. 124–140; Dagný Kristjánsdóttir, „Hinsegin raddir: Um sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum“, Skírnir haust 2003, bls. 451–481; og „Tómið og tilveran: Um skáldsögur Kristínar Ómarsdóttur“, Ritið 3/2006, bls. 81–99.

[12] Ármann Jakobsson, „Ekki kosta munur: Kynjasaga frá 13. öld“, Skírnir vor 2000, bls. 21–48.

[13] Í grein Hafdísar Erlu Hafsteinsdóttur má sjá yfirlit yfir helstu rannsóknir á hinsegin sögu, menningu og samfélagi á Íslandi. Sjá „Forsenda fyrir betra lífi“?, bls. 45–51. Auk þeirra heimilda má geta nýútkomins greinasafns um hinsegin sögu og sagnfræði á Íslandi, Svo veistu að þú varst ekki hér, sem grein Hafdísar birtist einmitt í. Rétt er að taka fram að sökum þess hve merking orðsins hinsegin er fljótandi er hægt að líta svo á að það geti bæði vísað til aðferðafræði og viðfangsefnis – rannsókn á „hinsegin viðfangsefni“, til dæmis samkynhneigð, styðst ekki endilega við hinsegin fræðilega nálgun og eins má beita hinsegin nálgun á viðfangsefni sem tengist ekki hinsegin fólki, kyni eða kynverund. Dæmi um hið síðarnefnda er nýleg grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur þar sem hún notar kenningar hinsegin fræða til að ræða þá möguleika sem í boði eru varðandi loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Sú grein snertir ekki á kyni eða kynverund heldur styðst við hinsegin fræðileg skrif um andkapítalískar og andnormatívar aðgerðir, eða raunar aðgerðaleysi, þ.e. að sleppa því að leita að olíu og leyfa því verkefni að mistakast. Sjá „,Að kjósa að sleppa því‘: Olíuleit, aðgerðaleysi og hinsegin möguleikar“, Ritið 1/2016, bls. 9–34.

[14] Brynjar Smári Hermannsson, „Q-ið er hinsegin“, Samtökin ’78, sótt 7. september 2017 á https://samtokin78.is/greinasafn/samfelag-og-saga/139-q-ie-er-hinsegin (birtist upprunalega í fréttabréfi Samtakanna ’78 í apríl 2008).

[15] Um hagsmunaaðild BDSM á Íslandi var fyrst kosið á aðalfundi Samtakanna ’78 í mars 2016 en sá fundur var dæmdur ógildur og annar aðalfundur fór fram 11. september. Þar var aðildin samþykkt. Sjá „Ný stjórn kjörin“, Samtökin ’78, 12. september 2016, sótt 7. september 2017 af https://www.samtokin78.is/frettir/nyjar-frettir/6024-ny-stjorn-kjorin. Á milli þessara funda var margt skrifað og rætt um umsóknina og hlutverk og starfsemi Samtakanna ’78 sem ekki gefst rými til að rekja hér en auðvelt er að finna með leit á netinu.

[16] Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Þrjátíu ára stríðið“, 30: Afmælisrit Samtakanna ’78, Reykjavík: Samtökin ’78, 2008, bls. 22–44, hér bls. 28. Sjá einnig: Þóra Björk Hjartardóttir, „Baráttan um orðin: Orðanotkun tengd samkynhneigð“, Íslenskt mál 26, 2004, bls. 83–122.

[17] Sjá „Burið mitt er vífguma: hýryrði 2015“, Samtökin ’78, 17. nóvember 2015, sótt 7. september 2017 af https://www.samtokin78.is/frettir/nyjar-frettir/5908-buridh-mitt-er-vifguma-hyryrdhi-2015. Einnig ber að nefna vefinn Hinsegin frá Ö til A sem opnaði nýlega en þar eru fjölmörg hugtök tengd hinsegin veruleika skilgreind á íslensku og nýjar eða nýlegar þýðingar prófaðar. Sjá Hinsegin frá Ö til A, sótt 22. september 2017 af https://www.otila.is.

[18] Kynusli er í grein Geirs þýðing á titli bókar Judith Butler, Gender Trouble, en orðið hefur fest í sessi sem íslenskt heiti á því sem á ensku er kallað „gender bending“ eða „gender fuck“. Sögnin að skjöna nýtist vel, eins og áður segir, til að lýsa því þegar eitthvað er afbyggt eða greint út frá hinsegin hugmyndafræði en í því samhengi hefur einnig verið talað um að hinsegja. Sem dæmi má nefna málþingið „Nú skal hinsegja“ sem haldið var í tengslum við Hinsegin daga í Reykjavík árin 2015 og 2016. Sjá Facebook-síðu málþingsins: https://www.facebook.com/Hinsegja/.

 

[fblike]

Deila