Komdu út! er ný íslensk barnabók sem kennir börnum að njóta íslenskrar náttúru og útiveru en þar er áhersla lögð á náttúruuppgötvanir í gegnum leik. Á baksíðu bókarinnar segir: „Komdu út! geymir fjölda skemmtilegra hugmynda að því sem hægt er að gera úti í náttúrunni, hvort sem þú ert niðri í fjöru, uppi á fjalli eða bara úti í garði“. Höfundar bókarinnar, þær Brynhildur Björnsdóttir og Kristín Eva Þórhallsdóttir hafa langa reynslu af gerð vinsæls barnaefnis og halda úti vefsíðu sem er í nánum tengslum við bókina eða ferdafelaginn.is. Bókin fékk styrk frá Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og Seðlabanka Íslands/Jóhannesar Nordals. Út í gegnum bókina má finna svokallað ff merki sem gefur til kynna að hægt sé að finna ítarefni á vefsíðunni. Bókin hefur slegið í gegn hjá lesendum en hún er í þriðja sæti yfir vinsælustu barnabækurnar á metsölulista Eymundsson í lok maí mánaðar.

Það fyrsta sem vekur athygli lesandans er klippimyndastíll bókarinnar en krúttleg íslensk dýr skreyta forsíðuna og flennistór fyrirsögn hvetur lesandann til að koma út. Bókareglubrjóturinn svokallaði á fyrstu síðu er einnig athyglisverður en þar segir að það megi beygla bókina, teikna í hana, klippa gat á hana, setja sand á hana, lesa hana á hvolfi, hafa hana undir koddanum, byrja að lesa í miðjunni, líma myndir í hana og setja blóm. Þarna er tónninn gefinn fyrir ferðalagið sem verður greinilega óhefðbundið og skemmtilegt og jafnvel svolítið skítugt. Bókin hefst á kveðju frá höfundum bókarinnar þar sem þeir bjóða ferðafélaganum/lesendum í ævintýraferð „Út í móa, niður í fjöru, upp á fjall” með það að markmiði að fræðast í gegnum leik.

Bókin er ríkulega skreytt myndum, bæði ljósmyndum og teiknuðum myndum frá Shutterstock. Þar sem bókin fjallar um íslenska náttúru er ákveðinn söknuður eftir myndum af íslensku landslagi en í bókinni má aðallega finna teikningar með ljósmyndum í klippimyndastíl. Kannski er hugmyndin sú að lesandinn eigi ekki að upplifa landslagið á mynd heldur í eigin persónu? Myndmál og texti flæðir í allar áttir og örvar ímyndunarafl lesenda sem og hvetur yngri börn til lesturs. Fjöldamarga leiki er að finna út í gegnum bókina og ljóst er að fjölskyldusumrinu verður varið í útiveru hérlendis ef lesendur bókarinnar fá að ráða. Bókin fjallar um séríslensk fyrirbæri á hnitmiðaðan hátt á góðri íslensku. Þarna læra lesendur orð og heiti yfir íslensk náttúrufyrirbrigði, blóm og dýr og gamlar íslenskar venjur og orðtök. Einnig er að finna góðar ráðleggingar um hvernig best sé að ganga um náttúruna svo að hún beri ekki skaða af. Bókin þekkir lesendahóp sinn vel sem eru á barnsaldri en þarna er að finna ýmislegt sem fellur vel í kramið hjá börnum eins og brandara, spurningar og svör. Aftast í bókinni er svo að finna ráðleggingar um það hvernig eigi að draga svokallaða innipúka út og svör við afsökunum þeirra fyrir að fara ekki út. Einnig eru upplýsingar um það hvernig skrifa á dagbók og pláss á öftustu opnunni til þess að teikna og líma inn þurrkaðar jurtir og myndir.

Bókin er í mjög stóru broti eða A4 stærð og hentar því vel til ferðalaga. Ljóst er að hér er ekki um að ræða viðkvæma bók sem á að vanda sig við að lesa varlega eða geyma samviskusamlega uppi í hillu. Þessi bók gegnir ákveðnu hlutverki, hún á að opna heim íslenskrar náttúru fyrir þeim sem erfa landið, vera með í för á öllum ferðalögunum og jafnvel hvetja til þeirra. Með því að örva ímyndunarafl lesendanna er verið að viðhalda gömlum og góðum íslenskum venjum sem mikil þörf er á nú á dögum þar sem tungumálið á undir högg að sækja sem og ferðavenjur hafa breyst. Ævintýraleg ferð um íslenska náttúru er sannarlega skemmtileg hugmynd sem á erindi við alla lesendur, jafnt börn sem fullorðna en bókin mælir með því að „fullorðnir noti bókina ekki nema í fylgd barna”. Með augum barnsins má sjá ótrúlegustu hluti, þessi bók útvíkkar því sjóndeildarhring allrar fjölskyldunnar og á því erindi við alla.

Um höfundinn

Eyrún Lóa Eiríksdóttir

Meistaranemi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[fblike]

Deila