Vísindi, sannleikur og aðferðafræði er þema nýjasta Ritsins sem kom út í lok desember. Fjallað er um vísindalega aðferðafræði, orðræðu og sögu, og kröfur um hlutlægni, áreiðanleika og ábyrgð í akademísku umhverfi sem hefur sífellt orðið meðvitaðra um takmarkanir og hlutdrægni hefðbundinna vísindalegra aðferða – og jafnvel afstæði hlutlægs sannleika.
Kafli úr bókinni Objectivity & Diversity. Another Logic of Scientific Research (2015) birtist hér í íslenskri þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur. Þar segir femíníski vísindaheimspekingurinn Sandra Harding að mismunun og hlutdrægni hafi mótað lykilþætti vísindarannsókna. Í greininni „Hlutdrægni í vísindum. Vanákvörðun, tilleiðsluáhætta og tilurð vísindakenninga“ beinir Finnur Dellsén sjónum að einum þessara þátta, tilurð vísindakenninga, og kemst að þeirri niðurstöðu að hlutdrægni og fordómar geti haft áhrif á niðurstöður vísindastarfs eftir þremur leiðum: á rökstuðning vísindakenninga, á samþykkt þeirra og/eða miðlun þeirra til almennings og á uppgötvun þeirra og þróun.
Nýlega kom út þýðing Kristjáns Guðmundar Arngrímssonar á verkinu Vísindabyltingar eftir Thomas Kuhn frá 1962 og í greininni „Viðtök og viðmið“ fjallar Stefán Snævarr heimspekingur um „vísindahugtakið í speki Kuhns“ og gagnrýni hans á vísindasöguna. Í þriðju þemagrein heftisins, „Í ljósi sögu og heimspeki. Tvær tegundir rannsókna á manninum“, setur heimspekingurinn Eiríkur Smári Sigurðarson svo fram sögulega greiningu á því hvernig fræðigreinarnar sagnfræði og heimspeki hafi, allt frá upphafi sínu á Vesturlöndum á 5. og 4. öld fyrir okkar tímatal, „mótast hvor af annarri, bæði í andstöðu hvor við aðra en líka í tilraunum til að gera heimspekina sögulegri og söguna heimspekilegri“.
Segja má að tvær aðrar greinar myndi nokkurs konar aukaþema Ritsins að þessu sinni; menningarminniSegja má að tvær aðrar greinar myndi nokkurs konar aukaþema Ritsins að þessu sinni; menningarminni er viðfangsefni Veru Knútsdóttur bókmenntafræðings og Irmu Erlingsdóttur, dósents í frönskum samtímabókmenntum. Vera fjallar um bók Steinars Braga, Reimleikar í Reykjavík frá 2013, út frá hugmyndum um menningarlegt minni og borgarrými, en Irma tekur fyrir franskt leikrit Hélène Cixous um Sihanouk, konung Kambódíu, frá 1985, undir yfirskriftinni „Stjórnmál minninga“ og telur að líkja megi sagnfræðilegri og skáldlegri skráningu Cixous við það sem sagnfræðingurinn Susan Crane kallar „upplifun“ og gegnir ákveðnu sáttahlutverki milli sögu annars vegar og sameiginlegra minninga hins vegar.
Þriðja greinin utan þema er greining Guðrúnar Steinþórsdóttur, doktorsnema í íslenskum bókmenntum, á skrifum Málfríðar Einarsdóttur um veikindi sín í bókinni Úr sálarkyrnunni (1978), og fjallar að miklu leyti um það hvernig sálarkvalir Málfríðar birtast í verkum hennar. Guðrún leitar í smiðju hugrænna fræða og les það út úr textanum að Málfríður hafi notað aðferðir sem minna á hugræna atferlisfræði nútímans til að kljást við veikindi sín.
[fblike]
Deila