Undiralda í logninu

Kristín Marja Baldursdóttir
Svartalogn
JPV, 2016
Þorpið, dreifbýli Íslands, er aðalsögusvið nýrrar skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur. Kona fagnar sextugsafmæli í góðum félagsskap á góðviðrisdegi í þorpi „fyrir vestan“ og blíðan ræður titli skáldsögunnar Svartalogn. En lognið og endurvarp fjallahringsins á haffleti fjarðarins er óvenjulegt, einstakt náttúrufyrirbæri og undantekning frá hinu hversdagslega, því lengst af ræður umrót ríkjum – jafnt náttúruaflanna sem sálarlífsins. Aðalpersóna sögunnar, Flóra, leitar svara við því hvaða leiðir standa til boða miðaldra, glæsilegri, heilsuhraustri konu með langa starfsreynslu í íslensku samfélagi.

Flóra er fráskilin móðir uppkominna barna. Henni hefur nýverið verið sagt upp störfum því yngja þurfti upp í starfsliði skrifstofunnar og áhugi fyrir starfskröftum miðaldra konu blasir ekki endilega við. Börn hennar tvö eru flutt að heiman, dóttirin býr í Ástralíu og sonurinn á hraðferð upp metorðastigann. Ömmubörnin tvö eru þó ekki langt undan þegar þörf fyrir snertingu og tilgang knýr dyra.

Svartalogn segir frá tímamótaári í lífi Flóru og lesandinn kynnist aðstæðum hennar, umhverfi og samfélaginu sem hún hrærist í
Svartalogn segir frá tímamótaári í lífi Flóru og lesandinn kynnist aðstæðum hennar, umhverfi og samfélaginu sem hún hrærist í – fyrst í Reykjavík og því næst í þorpi fyrir vestan. Verðmætamat og viðhorf samferðafólksins endurspeglar tíðaranda samtímans og við lesendum blasa staðalmyndir um ljúfa verkstjórann og erlenda fiskverkafólkið, uppskafninga borgarsamfélagsins og atvinnurekendur landsbyggðarinnar, ímyndir ungra manna á uppleið og sveimhuga listafólks, þótt best kynnist lesendur Flóru og konunum sem hún kynnist fyrir vestan. Veröldin blasir við frá hennar sjónarhorni og ýmsar myndir mismununar og óréttlætis eru áberandi. Tækifærissinnaðir samstarfsmenn komast áfram á þekkingu og reynslu annarra, getulaus karlmaður beitir unga erlenda konu heimilisofbeldi, önnur er lögð í einelti og enginn kemur henni til varnar, einstæða móðirin og tónlistarsnillingurinn Petra fær ekki tækifæri – nema á erlendri grundu, hæfileikar og menntun eru ekki metin að verðleikum nema viðkomandi sé „innundir“. Tengslanet og klíkuskapur eru alls ráðandi. Samnefnari sögunnar verður hópur hæfileikaríkra kvenna af ólíkum uppruna sem njóta engrar fyrirgreiðslu en sameina krafta sína og brjótast til frama á tónlistarsviðinu. Þær taka góðlynda verkstjórann með í för og þeim til halds og traust er velvilji – og fjárhagsstuðningur – útgerðarstjóra, konu, úr næsta þorpi.

Marglaga framsetning „okkar“ og „hinna“ birtist í verki Kristínar. Þar ber mest á höfuðborg og landsbyggð, konum og körlum, heimamönnum og aðfluttum
Marglaga framsetning „okkar“ og „hinna“ birtist í verki Kristínar. Þar ber mest á höfuðborg og landsbyggð, konum og körlum, heimamönnum og aðfluttum, en aðalpersóna verksins, Flóra, sker öll umrædd hnit. Hún flytur úr borg í þorp, verður aðkomukona í samfélagi þar sem hún þekkir ekkert til, snoðklippir sig, hendir snyrtidótinu, leggur háu hælana á hilluna og tekur til við að mála hús. Lesandinn sér heiminn frá gestsauga hennar sjálfrar. Marglaga filmur ígrundaðrar íhugunar birta lesandanum veruleika sem er langt frá því að vera fullkominn, jafnvel ógnandi. Og … þrátt fyrir að allt fari vel að lokum og Flóra öðlist nægilegt sjálfstraust til að stefna á vit ævintýra og kasta af sér hlekkjum almenningsálits og viðjum vanans þá er sálarangist hennar óræð, persónusköpun hennar einhvernveginn ófrágengin – alla vega lesanda sem legið hefur yfir kvennabókmenntum áratugum saman. Vonbrigði hennar beinast að mörgum, jafnvel gagnvart þeim sem síst skildi. Hún er uppstökk og erfið viðeignar án þess að lesandanum séu gefnar nægar upplýsingar til að átta sig á af hverju. Á tímum kraumar í henni reiðin og réttlætiskennd hennar er misboðið en svo gufar hvort tveggja upp án þess að skiljanlegar skýringar blasi við.

Svartalogn varpar ljósi á samtíma og samfélag í mótun. Vonbrigði Flóru ráðast ekki hvað síst af brostnum vonum. Allt sitt líf hefur hún lifað samkvæmt því sem ætlast var til, gert það sem konur áttu að gera, hegðað sér og hagað samkvæmt stöðlum sem tryggja áttu viðurkenningu og velferð en … þegar öllu er á botninn hvolft reynist leikur einn að jaðarsetja reynsluheim hennar og þekkingu. Og þrátt fyrir fálmkennt upphaf safnar hún styrk og tekur málin í sínar hendur: „Hvert er för þinni heitið? spurðu mig fuglarnir í fjörunni. En ég gat ekki svarað þeim, ég sat bara á steini, sat sem hver önnur kría á steini, lét hafið og sólina um að særa burt reimleika í höfði mér“ (343).

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila