Eyþór ÁrnasonEyþór Árnason hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar með sinni fyrstu ljóðabók Hundgá úr annarri sveit árið 2009 og hefur verið drjúgvirkur síðan því að nú er komin út hans fjórða ljóðabók. Titill bókarinnnar er eins og örljóð: Ég sef ekki í draumheldum náttfötum.
Ég sef ekki í draumheldum náttfötum
Veröld, 2016
Eyþór er sniðugur höfundur, ljóðin eru falleg og mörg hver býsna skemmtileg. Gráglettni er yfir bókinni í heild, víða er hægt að glotta út í annað og jafnvel skella upp úr. Það er eitthvað rammíslenskt við mörg ljóðin á fremur hversdagslegan hátt þar sem fortíð og nútíð fléttast jafnan saman. Rauður þráður í bókinni eru styttur bæjarins sem lifna við og öðlast nýja merkingu hvort sem það er Útlaginn við Hringbraut, óþekkti embættismaðurinn, Tómas Guðmundsson eða Maríustyttan við Landakot. Sérstaklega verður að nefna ljóð um nýlega styttu af Ingibjörgu H. Bjarnason við Alþingishúsið sem gefur styttunni merkingarauka:
Skyndilega er Ingibjörg mætt
Tekur vindinn í fangið
og kápan bylgjast
eins og hún sé að hefja sig til flugs
Það er falleg birta í svipnum
von um réttlæti
eða kannski jafnræði
Hún horfir ákveðið á móti Jóni
sem er einhvern veginn
ekki eins viss og hann var
heldur dauðahaldi
í stífpressaða boðungana
augnaráðið örlítið víkjandi
en hún hvikar ekki (51)
Ýmsar snjallar vísanir í menningarsöguna skjóta upp kolli hér og hvar sem gerir það að verkum að heimur bókarinnar stækkar og myndirnar skerpast. Höfundur stefnir saman nýjum og gömlum tíma svo úr verða broslegar aðstæður eins og Snorri Sturluson sem bíður eftir ritdómi eftir Gissur í Mogganum (24) eða þegar Skúli fógeti birtist með upprúllaðar teikningar af innréttingum úr IKEA (22). Í ljóðinu Í Herdísarvík birtist annar merkur maður og sá hefur eignast ipad:
Traustir höfuðstafir heilsa
þegar ég geng yfir
mosavaxna stuðlana
heim að skúrnum
Inni er dauf glóð
í arninum
Skáldið situr í gamla stólnum
Hann er nýbúinn að læra á iPadinn
sem Hlín kom með úr bænum
í fyrradag (44).
Mörg ljóðin kallast að einhverju leyti á við útlit bókarinnar því að þau eru látlaus og einföld.Fyrir um ári síðan sendi höfundur frá sér bókina Norður þar sem lesandi leggur upp í ferðalag frá Reykjavík til Skagafjarðar. Höfundur lýsti því sjálfur í viðtölum að hann sæi bókina fyrir sér sem rútuferð. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt að þeirri bók þó að nýja bókin lýsi ekki ferðalagi. Mörg ljóðanna gerast raunar í Reykjavík en finna má hlýlega lýsingu af útvöldum stöðum og mönnum úti á landi víða og Norðurlandið á þar greinilega sérstakan sess. Ljóðið BSÍ – Norðurleið kemur vekur ef til vill sérstaklega hugrenningartengsl við bókina frá í fyrra þar sem birtist rúta til fortíðar, sjálf rauða og hvíta norðurleiðarrútan.
Bók Eyþórs lætur lítið yfir sér, er rétt um 70 blaðsíður. Kápan er einföld í bláum og gráum litum, og nafn höfundar og titill eru í fremur hógværri stærð framan á kápu. Hún geymir þó alls 56 ljóð sem ef til vill hefði mátt fækka aðeins þannig að bókin yrði þéttari því að mörg ljóðin eru gullmolar sem kannski eiga það á hættu að týnast í fjöldanum. Mörg ljóðin kallast að einhverju leyti á við útlit bókarinnar því að þau eru látlaus og einföld. Flest eru ljóðin létt og kankvís en inn á milli leynast alvarlegri og lágstemmdari ljóð. Þetta tvennt fléttast síðan stundum saman eins og í vel heppnuðu minningarljóði um Hermann Gunnarsson, Fyrir Hermann – Einn dans við mig:
Kveikti á lampanum
Bræddi svellið á kuldapollinum
og lýsti upp óbærilegt myrkrið
Þurfti enga upphitun
kom alltaf funheitur inn á völlinn
Lék sjálfan sig og söng
ótalmarga sólardansa
fyrir okkur öll (55)
Tónn höfundar einkennist af hlýju og væntumþykju fyrir umhverfinu og hversdeginumTónn höfundar einkennist af hlýju og væntumþykju fyrir umhverfinu og hversdeginum; ekkert er of smávægilegt til þess að ekki megi yrkja um það. Athyglin beinist oft og tíðum að því sem við tökum sem sjálfsögðu. Að lestri loknum situr lesandinn eftir með þá tilfinningu í brjósti að heimurinn sé kannski ekki svo slæmur þegar allt kemur til alls.
[fblike]
Deila