Spaug og sprell í Lundablokkinni

Salka Guðmundsdóttir
Extravaganza
Leikstjóri: Ragnheiður Skúladóttir
Borgarleikhúsið 2016
Við áhorfendum á Litla sviði Borgarleikhússins blasir hótelgangur með sex hurðum þar sem kjánalegu söluborði með lundum og boxum með lífsstílsvörum hefur verið komið fyrir. Þar ræður ríkjum Lydia, móttökukona, fyrrum íbúi í blokkinni sem nú er orðin hótel. Leikmyndina gerir Brynja Björnsdóttir. Verkið hefst á innkomu og kabarettsöng fjögurra leikara sýningarinnar og tónninn er sleginn fyrir gleðileik.

Lydia er að reyna að selja lífsstílsvörurnar í umboði vinkonu sinnar Solveigar til að fjármagna ferðalag beggja á Super Life Extravaganza messuna í Düsseldorf. En hugtakið „extravaganza“ var líka notað yfir stórar og íburðarmiklar sýningar með söng og dansi og alþýðlegum búrleskum og háði og skopi og skralli á 19. öld.

extravaganza2Gleðileikur Sölku Guðmundsdóttur fellur að þessari lýsingu en í smækkuðu formi því að persónur í leikriti hennar eru hvorki glæsilegar né sérlega skrípalegar heldur hver á sinn hátt tapari í því snarvitlausa neyslusamfélagi sem þær búa í. Lydia og Júlíus vinna fyrir Porcellus (grísina), hóteleigendur sem eiga sér þann eina draum að græða á ferðamönnum sem þeir fyrirlíta næstum eins mikið og starfsfólk sitt.

Allar persónurnar umbreytast í verkinu því að þær búa yfir hinu og þessu. María Heba Þorkelsdóttir býr til fyndna og verulega fallega persónu úr hinni einmana Lydiu sem hristir af sér húsbóndahollustuna í leikslok. Sveinn Ólafur leikur Guðbrand Núma, einhverfan og/eða fóbískan sagnfræðing og revíusmið. Aðalbjörg Árnadóttir er gríðarlega ofvirk í hlutverki Solveigar sem er eina vinkona Lydiu og úlfur í sauðargæru. Hannes Óli Ágústsson breytist úr handbendi Porcellusherranna í pönkara. Saman setur þetta fereyki upp revíu sem G.Númi hefur skrifað og þeim tekst að flytja hana rétt áður en blokkin hrynur.

extravaganza

Í leikriti Sölku er blandað saman hnyttnum og glettilega vel gerðum revíutextum, orðaleikjum, bröndurum, pólitískri satíru, ljóðrænum og fallegum lýsingum á borginni og mörgu fleira.
Í leikriti Sölku er blandað saman hnyttnum og glettilega vel gerðum revíutextum, orðaleikjum, bröndurum, pólitískri satíru, ljóðrænum og fallegum lýsingum á borginni og mörgu fleira. Söguþráðurinn er súrrealískur á köflum en samt talar verkið um samstöðu og væntumþykju fólksins sem er að reyna að gera fyrirlitningu auðmannanna á þeim, sem neðar standa í brekkunni, ekki að sinni. Það hefði leikstjóri/leikhópur mátt skýra betur, taka ýkjurnar í verkinu alla leið, alvöruna líka, sögnin í verkinu var ekki nógu skýr. Sýningin var hæggeng fyrir hlé en náði sér upp eftir hlé og fékk þá meiri slagkraft.
[line]

Höfundur: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjórn: Ragnheiður Skúladóttir
Leikmynd: Brynja Björnsdóttir
Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónlist og hljóðmynd: Ólafur Björn ÓlafssonLeikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, María Heba Þorkelsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson

Ljósmyndir: Hörður Sveinsson

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila