„Ljóðskáld á Norðurlöndum eru í auknum mæli að takast á við að fjalla um þann alvarlega umhverfisvanda sem við okkur blasir“, segir Adam Paulsen, lektor við Stofnun í menningarfræðum við Syddansk Universitet í Danmörku, en hann heldur fyrirlestur um heimsslit í danskri nútímaljóðlist í Stapa fimmtudaginn 27. október.
Paulsen mun fyrst og fremst styðjast við ljóð eftir Theis Ørntoft og Lars Skinnebach og setja þessa þróun í stærra samhengi evrópskrar hefðar náttúrulýsinga og ljóðrænnar meðvitundar um ástand jarðar. „Það er mjög löng hefð fyrir skrifum um náttúruna í til dæmis þýskum og enskum bókmenntum og þau skelfilegu vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna voru fyrirséð í skrifum margra skálda – en við gleymum fljótt og virðumst alltaf þurfa að byrja umræðuna frá grunni. Ég hef rannsakað evrópskar heimsslitabókmenntir um nokkurt skeið en ekki fyrr einbeitt mér að hinu norræna sviði. Mér sýnist umhverfisverndarsjónarmiðið koma nokkuð seint inn í danskar bókmenntir almennt. Ef til vill tengist það því að umhverfisverndarsjónarmið virðast almennt ekki hafa átt jafn mikið upp á pallborðið og í ýmsum nágrannalöndum, í það minnsta er hefðin fyrir umræðu um samband manns og náttúru ekki jafn sterk.
Mér finnst sérlega áhugavert að kanna hvernig ljóðskáldin takast á við þá áskorun að yrkja um svo pólitískt efni.Undanfarið höfum við vissulega fengið slíka umræðu og stundum umhverfisverndarboðskap í skáldsagnaformi – svokallað „cli-fi“ hefur til dæmis ratað til okkar sem þýddar og frumsamdar bókmenntir – en mér finnst sérlega áhugavert að kanna hvernig ljóðskáldin takast á við þá áskorun að yrkja um svo pólitískt efni. Skinnebach fer mjög greinilega í átt sem við þekkjum frá avant garde hreyfingunni og brýtur niður mörk listar og pólitíkur. Ørntoft er hefðbundnari lýríker en tekst þematískt á við samband sjálfs og umhverfis. Ljóð sem fjalla um umhverfisvandann vekja að sjálfsögðu upp spurningar um fagurfræðilegar afleiðingar þess að endurnýja á þennan hátt pólitískt hlutverk bókmennta og það mun ég einnig koma inn á í fyrirlestrinum á morgun.“
Fyrirlesturinn fer fram í stofu 216 í Stapa klukkan 13:20 og er öllum opinn. [line]Mynd ofan við grein: Hluti af kápu bókarinnar Digte 2014 eftir Theis Ørntoft.
[fblike]
Deila