Leikmynd Gretars Reynissonar að Sendingu, nýju leikriti Bjarna Jónssonar í Borgarleikhúsinu, sýnir einfalt herbergi, allir veggir eru þaktir skápum og þrjár dyr falla inn í sviðsmyndina. Á miðju gólfi er borð og tveir stólar auk eins klappstóls sem hægt er að leggja saman og skáka til og frá.
Hjón með ólíka drauma um hamingjuna
Sviðið speglar sálarlíf aðalpersónunnar Róberts, sjómanns um fertugt (Þorsteinn Bachmann), sem opnar aðeins þá skápa sálarlífsins sem varða hversdagslíf hans með sjúkraliðanum Helgu (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og besta vininum Antoni (Hilmar Guðjónsson) sem er honum mjög undirgefinn í upphafi. Þau búa í sjávarþorpi fyrir vestan.
Hinir skáparnir eru eins og dyrnar að því herbergi Bláskeggs sem enginn mátti opna.Hversdagsskáparnir eru örfáir en hinum skápunum heldur Róbert lokuðum af gildum ástæðum. Þeir eru eins og dyrnar að því herbergi Bláskeggs sem enginn mátti opna. Helga þráir barn, hann vill ekki barn. Hún gerir gegn betri vitund ráðstafanir til að ættleiða barn og Anton er með henni í ráðum. Í upphafi verksins kemur svo félagsmálafulltrúinn María (Elma Stefanía Ágústsdóttir) með tíu ára dreng (Árni Arnarson) sem þarfnast fósturs og skjóls strax. Það eru svik við Róbert og vilja hans og þau svik verða upphafið að endinum.
Sálarflækjur
Þessi endursögn er fátækleg lýsing á listilega vel skrifuðu leikriti Bjarna Jónssonar þar sem allt tengist saman á undirfurðulegan hátt.
Árið er 1982. Bubbi, alþýðuskáldið góða, söng sína tilfinningasömu söngva um deyjandi þorp og fólk án framtíðar – þetta var rétt áður en kvótakerfið var innleitt og gamli tíminn endanlega kvaddur í sjávarþorpunum. Einmitt þarna hefur sjómaðurinn Róbert tekið það skref að kaupa sér bát, því þá „þarf hann ekki að deila aflanum með með neinum“ eins og hann segir. Á sama tíma er Anton vinur hans að brjótast undan valdi hans, kærastan ætlar í hjúkrunarnám og ætlar að koma sér upp barni gegn vilja hans. Það fjarar undan Róbert og bátnum hans og engin höfn sýnileg.
Þessi sýning hvílir á túlkun aðalpersónunnar Róberts sem reynir að halda öllum og öllu í reglubundnum snúningi kringum sig.Drengurinn er (eins og) Róbert sjálfur þegar hann kom á vistheimili þrjátíu árum áður og varð verndari Antons. Þegar Róbert hafnar drengnum hafnar hann sjálfum sér og neglir lokið á eigin líkkistu, hann hvorki getur né vill breytast. Það mætast þannig í kontrapunkti í Sendingu þrjár sögur, sagan af mislestri Róberts á samfélaginu, endanlegur trúnaðarbrestur í sambandi þeirra Helgu og bæling hans á fortíðinni. Það síðasta þvingar hann til að endurlifa martraðir sínar stöðugt því að skáparnir opnast af sjálfum sér ef hann opnar þá ekki sjálfur og tekst á við það sem í þeim er. Þetta er undirstrikað á áhrifaríkan hátt með ljósi og skuggum í dramatískri lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar.
Fáguð sýning
Allar sýningar sem ég hef séð í leikstjórn Mörtu Nordal hafa verið áhugaverðar. Þessi sýning hvílir á túlkun aðalpersónunnar Róberts sem reynir að halda öllum og öllu í reglubundnum snúningi kringum sig, hann er engin venjuleg karlremba heldur stórskaddaður maður og grimmur ef tilveru hans er ógnað. Þorsteinn Bachmann leikur í allri sýningunni mann sem leikur tveimur skjöldum, öll hans orka fer í að muna ekki nema það sem hann vill, halda völdum og halda reiði sinni niðri. Það gerir hann fremur eintóna fyrri hluta verksins en undir lokin þegar átökin harðna og samskipti hans og litla drengsins verða herfilegri tengjast allir þræðir í sögu þeirra Antons og jafnframt verður ljóst erindi hennar við samtíma okkar.
„Þetta voru vandræðabörn …“ var haft eftir ráðamanni nýlega um Breiðavíkurbörnin og kannski er þessi sýning sending til fólks sem svo hugsar.
Ljósmyndir: Grímur Bjarnason
[fblike]
Deila