Djöflaeyjan Thulekampur og Gulleyjan Ísland

Bækur Einars Kárasonar Djöflaeyjan og Gulleyjan og síðan Fyrirheitna landið, sem var eins konar PS við fyrri bækurnar, slógu öll vinsældamet á níunda áratugnum. Þær voru fyndnar, gróteskar og tilfinningasamar og ekki langt að bíða þess að leikhúsin tækju við sér.
Kjartan Ragnarsson gerði leikgerð uppúr Djöfla– og Gulleyju saman og sýndi í gamalli skemmu í Vesturbænum 1988. Þá sýningu sá ég og ég man hana enn næstum 28 árum síðar, hún var hrá, sterk og áhrifamikil. Friðrik Þór gerði svo vinsæla bíómynd eftir Djöflaeyju og Gulleyju árið 1996 með hinum íðilfagra Baltasar Kormáki í hlutverki Badda og nú tuttugu árum síðar kemur söngleikurinn Djöflaeyjan með Þóri Sæmundssyni í hlutverki Badda.

Sjónarspil

Umgjörð sýningarinnar er glæsileg. Eins og allir muna sem lesið hafa bækur Einars Kárasonar bjó fjölskylda Karólínu spákonu og Tomma í steinhúsi, eina steinhúsinu í Thulekampi og meðal annars þess vegna eru þau eins konar yfirstétt í braggahverfinu. Friðrik Þór Friðriksson kaus að láta fjölskylduna búa í bragga í bíómyndinni og það hafa leikstjórinn Atli Rafn Sigurðarson og leikmyndahönnuðurinn Vytautas Narbutas líka kosið að gera enda er hringform braggans freistandi. Narbutas snýr bragganum á hvolf í gríðarmiklum sveig sem minnir áhorfanda á að bragginn er í raun hálf-tunna en birtist líka í úthugsaðri og fallegri lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar eins og útlínur hnattar, kúlu sem lokast utan um ógæfu fjölskyldunnar.

LJósmynd af sviðinu sem sýnir braggann á hvolfi

Búningar Filippíu I Elísdóttur fylgdu tímabilinu, sjötta áratugnum, þar voru búningar Karólínu (Guðrún Snæfríður Gísladóttir) kapítuli útaf fyrir sig. Í Djöflaeyjunni er mikil tónlist og ekki von á öðru en góðu frá Memphis mafíunni og Braga Valdimar Skúlasyni. Katrín Halldóra Sigurðardóttir (Dollí) er hörkusöngkona og það er Snæfríður Ingvarsdóttir (Gerður) líka. Þórir Sæmundsson er fyrrverandi rokkari, ef ég man rétt, alla vega söng hann eins og engill – að undanskildum söngnum „Þú sem frelsi flaugst í mót“ þar sem minna hefði verið meira. Það bætti hann upp með frábærri Tom Waits útgáfu lokalagsins. Ég hló mjög að óperuparódíu Góa – hún var morðfyndin.

Hugras_djoflaeyjan2016_3

Braggahverfið

Í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur, Atla Rafns og leikhópsins á bókum Einars er fjöldi persóna, hliðarsögur og þjóðfélagslegt samhengi að miklu leyti skorið niður og hringurinn dreginn um fjölskyldu Karólínu og tvær aðrar fjölskyldur sem tengjast þeim. Fjölskylda Karólínu spákonu er „white trash“, menningarsnauð en vitandi sínu alþýðlega viti. Konurnar eru ófullnægðar og gera ekki annað en hlaða niður börnum með misilla völdum mökum. Karlmennirnir eiga tvo valkosti, verða verkamenn eða fyllibyttur og smákrimmar. Margir kjósa það síðastnefnda og lifa ýmist á því sem til fellur, oft frá Tomma gamla (Eggert Þorleifssyni) sem fjármagnar partýið hjá börnum og barnabörnum Karólínu.

Hugras_djoflaeyjan2016_6

Mótsagnirnar og ruglið í hverfinu og fjölskyldunni kristallast í persónu Badda, Bjarna Heinrich Kreutzhage (Þóri Sæmundssyn) sem á að uppfylla alla drauma hinnar dramatísku ömmu sinnar (Guðrúnar Snæfríðar Gísladóttur). Hann er hörkutól, fulltrúi Ameríku og nýja tímans– hann leikur öreigastrákinn sem gefur skít í allt og alla, talar blending úr íslensku og amerískum frösum eða dægurlagatextum sem enginn skilur. Samt eru orð hans lög. Hann er fauti sem lifir í skjóli ömmu sinnar og lætur hana jafnvel mata sig! Hver er hann sjálfur? Hann er ekkert! Þórir Sæmundsson bætti ákveðnum barnslegum dráttum í fyrri túlkanir Badda, ekki minnst í líkamstjáningu og sýndi andstæðurnar í honum vel.

Hugras_djoflaeyjan2016_5

Harmsögur

Fjölskyldan í gamla húsinu er dæmi um þá sem verst fóru út úr hernámi, ameríkaníseringu og viðsnúningi íslensks samfélags í stríðinu.

Hugras_djoflaeyjan2016_4Fjölskyldan og samfélagið í kampinum er dregið dökkum litum í sýningu Atla Rafns. Lögð er áhersla á samskiptamynstur hópsins, samhjálp en líka mismunun, misnotkun og innri átök þar sem níðst er t.d. á Danna (Arnmundi Ernst Backman) og Gretti (Hallgrími Ólafssyni) við mikil fagnaðarlæti hinna sterkari í hópnum. Meira að segja botnlagið, Þórgunnur (Birgitta Birgisdóttir) og Dóri tré (Gói) hafa sína ömurlegu goggunarröð og öllum stendur stuggur af Grjóna (Baltasar Breki Samper) sem er mjög skaddaður ungur maður. Þetta er vel gert í leikgerð og á lokaæfingu sem ég sá var fullt af ungum áhorfendum sem fögnuðu mjög.

Hjá mér stendur samt eftir spurningin: Hvað færir þessi sýning okkur nýtt? Hvers vegna er þessi meira en þrjátíu ára skáldsaga Einars Kárasonar aftur sett á svið? Heldur ömurleg eftirmál skáldsagnanna þar sem sagnamaður Einars krafðist höfundarréttar að listaverkinu, sýning Kjartans og mynd Friðriks, eru nefnd í leikskrá en ekki fléttuð inn í sýninguna eins og Þorleifur Örn Arnarsson gerði í Englum alheimsins. Sýning hans var að sumu leyti gagnrýni á kvikmyndina. Ég get ekki séð neitt slíkt í Djöflaeyjunni – en það þarf sosum ekki að þýða að það sé ekki þar?

Ljósmyndir: Hörður Sveinsson

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila