Um helgina býðst almenningi jafnt sem háskólafólki að sækja fjölbreytta fyrirlestra undir yfirskriftinni „Lönd ljóss og myrkurs, hafs og vinda. Hvernig móta kraftar náttúrunnar mannlíf og dýralíf, menningu og samfélag í norðri?“ Viðburðurinn er hluti af rannsóknarsamstarfi Fróðskaparsetursins í Færeyjum og Háskóla Íslands, sem kallað er „Frændafundur“.
Í fyrsta sinn taka nú þátt fræðamenn af öllum sviðum háskólanna og dagskráin hefur aldrei verið fjölbreyttariÞetta er í níunda skipti sem slík ráðstefna er haldin en í fyrsta sinn taka nú þátt fræðamenn af öllum sviðum háskólanna og dagskráin hefur aldrei verið fjölbreyttari. Meðal umfjöllunarefnis er norræn melankólía, viðbrögð jökla við loftslagsbreytingum, vistkerfið í Sumarhúsum, óveður og nöfn sem lýsa veðrabrigðum.
María Anna Garðarsdóttir hefur verið formaður Færeyjarnefndar Háskóla Íslands síðan 2012, þegar ákveðið var að víkka út fyrri rannsóknarsamvinnu milli Hugvísindasviðs (þá Hugvísindadeildar) Háskóla Íslands og Færeyskudeildar Fróðskaparsetursins sem hófst þegar árið 1990. „Frændafundir hafa síðan verið haldnir á þriggja ára fresti, ýmist í Færeyjum eða á Íslandi. Eftir að samstarfið var útvíkkað nær það til allra fræðasviða háskólanna beggja, heilbrigðis- og raunvísinda jafnt sem félagsvísinda, menntavísinda og hugvísinda, og Færeyjanefnd hefur fulltrúa á hverju sviði. Hugmyndin var að færa út kvíarnar, byggja á þessum grunni Frændafundar og útvíkka það starf sem fyrir var, enda var þegar komin af stað ýmiss konar samvinna á fleiri sviðum háskólanna.“
Ég held að Íslendingar séu farnir að vera áhugasamari fyrir slíkri tengingu við Færeyjar.Þegar ákvörðun var tekin um þessa breytingu var m.a. verið að hugsa um samlegðaráhrif; að opna fyrir meiri samnýtingu háskólanna, bæði hvað varðar nám og rannsóknarsamvinnu en einnig nemendaskipti og að hægt sé að nýta nám milli háskóla, jafnvel setja á laggirnar nýja námsleið. „Það er mjög mikilvægt að við gefum færeyskum stúdentum rými til að læra hér hvort sem er í framhaldsnámi eða nýju námi og auðveldum þeim að læra íslensku áður en þeir koma í nám eða á meðan á námi stendur. Það skiptir máli að Háskóli Íslands sé opinn erlendum stúdentum yfirleitt. En að auki er margt líkt með Færeyjum og Íslandi og oft er auðveldara að fara á milli tveggja líkra samfélaga fyrir utan að forvitnilegt er að læra um sitt fagsvið í landi sem er svona líkt en þó að einhverju leyti ólíkt. Ég held að Íslendingar séu farnir að vera áhugasamari fyrir slíkri tengingu við Færeyjar.“
Frá upphafi hefur áhersla verið lögð á rannsóknarsamvinnu , en María segir að starfið hafi líka verið hugsað sem tækifæri til að auka skilning Íslendinga á færeyskri tungu og öfugt. „Þarna geta íslenskir og færeyskir fræðimenn hlustað hver á annan. Færeyingar hafa reyndar átt auðveldara að skilja okkur en við þá og fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Okkur veitir hins vegar ekki af æfingu í að hlusta á færeyskuna. Með þessu útvíkkaða samstarfi eru fleiri farnir að tala aðrar tungur en íslensku og færeysku. Við bönnum ekki að fólk tali ensku til dæmis eða dönsku en hvetjum auðvitað fólk til að tala sína eigin tungu því það er að mörgu leyti þægilegt að geta gert það á fundum í sínum samstarfslöndum. Færeyingar eru tilbúnari til að reyna. En við getum þetta alveg líka.“
Ráðstefnan um helgina er öllum opin og fer fram í Odda í Háskóla Íslands. Hún hófst í dag og stendur fram á sunnudag.
[fblike]
Deila