Velkomin til Koi!

Útskriftarsýning leikarabrautar gerist á leiðinni til Mars og í Tjarnarbíói er leikhópurinn frækni Sómi þjóðar líka kominn út í geim. Geimgenglarnir hafa tekið yfir íslensk leiksvið!

Í Könnunarleiðangur til Koi hafa spandexgallahetjurnar knáu, Vilhjálmur (Hilmir Jensson og Ísak (Tryggvi Gunnarsson) verið valdir úr stórum hópi umsækjenda til að bjarga mannkyninu sem hefur mengað plánetuna Jörð svo mjög að það verður að flytja eitthvert annað. Plánetan Koi kemur einna helst til greina af augljósum ástæðum. Ferðin tekur rúm tvö ár.

Hugras_ryni_KOI3
Ljósmynd: Hörður Ellert Ólafsson

Ísak og Vilhjálmur eru góðir menn

Þegar aðeins einn dagur er eftir af ferðinni er guðað á glugga geimfarsins TF-vonar og Vilhjálmur og Ísak standa frammi fyrir siðferðilegum vanda, það er kominn gestur sem vill komast inn. Gesturinn er geimvera og vandinn er þessi:. Geimveran er öðru vísi en við, hún er „Hinn“. Kannski er hún fjandsamleg. Hún getur unnið fyrir okkur en tekur hún þá ekki störfin okkar, gerir okkur ónauðsynleg? Hún borðar að vísu það sem við viljum ekki en hvenær seilist hún eftir því sem við viljum ekki láta? Ef vel er að gáð – er hún ekki svolítið ógeðsleg? Og getum við hjálpað öllum? EN á móti kemur að geimveran er ekki að öllu leyti ólík okkur. Hún er í neyð, særð og viðkvæm. Hún er svöng. Hún er vitsmunavera. Hún getur fyllt út flókið eyðublað. Hún er að gráta …

Brýnt erindi

Hugras_ryni_KOI4
Ljósmynd: Hörður Ellert Ólafsson

Það þarf enga skarpskyggni til að sjá tengsl verksins við flóttamannaumræðuna og aðferð tvíeykisins Hilmis og Tryggva er sú sama og í verkinu MP5, húmor í forgrunni, hugkvæmar og bráðfyndnar sviðsmuna- og leiklausnir, fagmennska og leikgleði. Og skotið föstum pólitískum skotum. Bygging verksins er líka sú sama: fyrst sátt og samlyndi, síðan átök, og að lokum nýtt jafnvægi (svolítið laskað).

Hilmir og Tryggvi hafa sagt að þeir hyggist búa til þríleik um Vilhjálm og Ísak. Í þríleik er miðjuverkið alltaf viðkvæmast. Annað verkið er borið saman við það fyrsta og er skoðað sem forspá um gæði þess síðasta. Þannig er það bara. Könnunarleiðangur til Koi hafði ekki sama hraða og snerpu og  MP5, hvorki í texta né sýningu og hefði trúlega þurft lengri æfingatíma. Að því sögðu verð ég að segja að við erum aðdáendur Sóma þjóðar, skemmtum okkur vel og hlökkum til þriðju sýningarinnar.

Hugras_ryni_KOI5
Ljósmynd: Hörður Ellert Ólafsson
[line]Höfundar: Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson
Leikstjórn: Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson
Leikarar: Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson
Leikmynd: Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson
Ljósahönnun: Fjölnir Gíslason
Sýningarstjórn: Bjarni Hjartarson

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila