Elif Shafak
Heiður
Íslensk þýðing: Ingunn Ásdísardóttir
Bjartur, 2014
Flóttamannavandinn hefur aldrei verið meiri eða alvarlegri en í dag, en talið er að rúmlega milljón manns hafi streymt inn í Evrópu árið 2015. Með flaumnum fylgja ólíkir menningarheimar, siðir og venjur sem Evrópubúar eiga erfitt með að skilja á stundum og geta vakið ótta og fordóma í þeim ríkjum sem opna hlið sín til að hýsa hina ólánsömu.

Heiðursmorð, þar sem konur eru myrtar af fjölskyldumeðlimum sínum ef þær eru taldar ógna heiðri fjölskyldunnar, er sennilega sú menningarhefð Múslima sem Vesturlandabúar eru hvað hræddastir við. Þessi hefð hefur oft verið til umfjöllunar í kvikmyndum, þáttaröðum og skáldsögum. Skáldsagan Heiður eftir Elif Shafak fjallar um þennan skelfilega sið; heiðursmorð sem á að hafa átt sér stað í London árið 1978, aðdraganda og afköst þess. Í upphafi segir frá ungu konunni Esmu sem er á leið að sækja bróður sinn sem hefur verið sleppt lausum úr fangelsi, en hann sat inni fyrir það að hafa myrt móður þeirra. Sögunni vindur því næst að kúrdískri ömmu Esmu, Naze, sem gat aldrei eignast syni.

Skáldsagan fjallar um þennan skelfilega sið; heiðursmorð sem á að hafa átt sér stað í London árið 1978, aðdraganda og afköst þess.
Hún eignast átta dætur, þar af tvíburasysturnar Pembe og Jamilu. Þær systur hafa ávallt verið nánar en þegar Pembe giftist Adem og flytur til London virðist sem sá sterki þráður veikist. Jamila er þá orðin ljósmóðir og ógift. Fyrsta barn Pembe er sonur og fyllist hún djúpu samviskubiti og telur sér trú um að vofa móður sinnar fylgist með þeim mæðginum öfundaraugum. Fáeinum árum síðar ákveður Adem að fjölskyldan eigi að flytja til London, en eftir stutta dvöl þar lætur faðirinn sig hverfa. Hann skilur eftir eiginkonu sína Pembe, tvo syni, Iskender og Yunus, og dótturina Esmu.Situr elsti sonurinn, Iskender, uppi með að vera karlmaður heimilisins sem stendur vörð um heiður móður sinnar og systur.

Lesandinn fær innsýn í hugsanir og tilfinningar allra þeirra persóna sem koma við sögu. Þó svo að heiðursmorðið sé aðalútgangspunktur verksins skrifar höfundur ekki um þann atburð í einni hendingu, heldur veitir lesandanum vísbendingar á stangli þannig að hann geti púslað atburðinum saman í lokin. Allir kaflar eru merktir með dagsetningu og ártali en við og við skjóta textar merktir ártölunum 1990 til 1992 upp kollinum. Þetta eru nokkurs konar dagbókarfærslur Iskenders sem situr í Shrewsbury-fangelsi fyrir morðið og fær lesandinn þannig sýn í innri hugarheim morðingjans. En þær færslur birtast ekki fyrr en fjallað er um árið 1977, líkt og þær eigi að mynda tengsl við tímann í fyrsta kafla bókarinnar.

Þessi stökk milli ártala og persóna eru heldur ruglandi en kaflarnir eiga það til að vera mjög stuttir. Bókin er íslensk þýðing úr ensku en höfundurinn er tyrkneskur og skrifar bæði á ensku og tyrknesku. Höfundur á það svo til að skjóta inn tyrkneskum orðum inn í ensk verk sín. Í þýðingu Ingunnar fá tyrknesku innskotin að halda sér en sumar setningar sem eiga enskan uppruna er erfitt að þýða. Sem dæmi má taka fyrstu blaðsíðu bókarinnar þar sem tvær dætur Esme, dóttur Pembe, rífast í aftursætinu:

Þær munu velta fyrir sér hvort það verði trúður í afmælisveislunni eða jafnvel, sem yrði ennþá skemmtilegra, töframaður.
,,Eins og Harry Houdini,“ segi ég.
,,Hvaða Harry?“
,,Hú-dí-ní, bjáninn þinn, hún sagði það.“
,,Mamma, hver er það?“

Hér er greinilega vísað í orðaleik í enska tungumálinu þar sem nafnið Harry Houdini er breytt í „Harry who?“ í skemmtilegri spurningu litlu telpunnar, en þar sem þetta er þýðing er erfitt að skeyta orðaleiknum inn í íslenskuna. Annað dæmi er hægt að finna efst á blaðsíðu 81, þar sem endurminningar Iskenders rifja upp samtal hans við samfanga sinn. Þar segir Iskender ,,Kjafti maður“, sem er sjaldheyrð stytting á ,,Haltu kjafti maður“. Lesendur gætu átt erfitt með að samþykkja þessa setningu á íslensku.

Um er að ræða áhugaverða sögu sem tekur á ólíkum hliðum siða og venja hálf-kúrdískrar, hálf-tyrkneskrar fjölskyldu sem reynir að fóta sig í vestrænu samfélagi
Einnig er erfitt að koma sér inn í söguna í fyrstu þar sem fyrsti kaflinn er skrifaður í framtíð sem skapar ákveðna óvissu. Eru hlutirnir að gerast eða er Esma að ímynda sér að þetta séu atburðir sem eiga eftir að eiga sér stað? Hér skapar orðalagið óvissu, sem gæti þó orðið til þess að lesandinn neyðist til þess að lesa áfram til að greiða úr flækjunni. Þá heldur bókin áfram í fortíð og hverfur næsti kafli aftur til ársins 1945 þegar Pembe (móðir Esme) og Jamila fæðast og heldur söguframvindan áfram í réttri tímarás, að undanskildum dagbókarfærslum Iskenders, sem skeytt er inn í textann við og við.

Um er að ræða áhugaverða sögu sem tekur á ólíkum hliðum siða og venja hálf-kúrdískrar, hálf-tyrkneskrar fjölskyldu sem reynir að fóta sig í vestrænu samfélagi og stöðu elsta sonarins innan kjarnafjölskyldunnar sem heiðursvarðar hennar. Það koma ávallt upp einhverjar hindranir þegar verk eru þýdd inn í annað menningarlegt samhengi og er hægt að koma auga á nokkrar slíkar í Heiðri. Íslenska þýðingin virðist helst til of bókstafleg á köflum, ef marka má þau dæmi sem tekin voru hér að ofan, en kjarni sögunnar skín þó í gegn og textinn skilar því sem skiptir máli.
[line]
Grein þessi var unnin sem verkefni í námskeiðinu Gagnrýni og ritdómar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundar nú MA-nám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sama skóla.

[fblike]

Deila