Ánauð í Alsír frá íslensku og flæmsku sjónarhorni

Samanburður á íslensku og flæmsku sjónarhorni á ánauð í Alsír, byggður á tveimur 17. aldar textum, verður viðfangsefni Tobys Wikström í hádegisfyrirlestri í dag.
Wikström er lektor í frönskum bókmenntum í Tulane University, og ætlar hann að fjalla um ánauð í Miðjarðarhafi út frá tveimur textum sem komu frá ólíkum svæðum í Evrópu en voru samdir á svipuðum tíma:Said_Orientalism Reisúbók síra Ólafs Egilssonar (1628), einni helstu heimild Íslendinga um Tyrkjaránið, og Sögunni um ánauð og frelsun herramannsins Emanuel d´Aranda (1658), sem kemur frá Flæmingjalandi. Með samanburðinum vill Wikström sýna fram á að til þess að gera grein fyrir mótun evrópskrar sjálfsmyndar þurfi fræðimenn ekki að hafna orientalisma Edwards Said, heldur nota hann í samspili við Miðjarðarhafsfræði. Andmælandi verður Þorsteinn Helgason, dósent í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn ber heitið „Was there a Pan-European Orientalism? Ivelandic and Flemish Perspectives on Captivity in Muslim North Africa (1628-1656)“. Í lýsingu segir:

Ein helsta hugmynd sem Edward Said setur fram í síumdeilda og áhrifamikla verki sínu Orientalisma (1978) er það að Evrópa skapaði eigin sjálfsmynd með því að skilgreina sig í andstöðu við múslímaheiminn til austurs, jafnvel áður en orientalisminn sjálfur myndaðist í seinni hluta 18. aldar.  Grundvöllur þessarar hugmyndar eru þau rök að þrátt fyrir menningarlega og trúarlega fjölbreytni litu ólík svæði í Evrópu á múslímsku austurlöndin á svipaðan hátt. En hvað um hitt mikla menningarsvæði sem liggur með fram suðurströnd Evrópu, Miðjarðarhafið? Fræðimenn í hinum vaxandi miðjarðarhafsfræðum (e. Mediterranean Studies) halda því fram að andstæðuparið kristni/islam sem má finna í hjarta kenningar Saids endurspegli ekki hin óskýru mörk milli menningarheima og trúarbragða sem var löngum einn helsti eiginleiki þessa svæðis.

Gagnrýni miðjarðarhafsfræðinga á orientalisma vekur nokkrar spurningar: 1. Var til (eins og Said myndi kannski gera ráð fyrir) alevrópsk orðræða um múslímaheim byggð á reynslu frá Miðjarðarhafinu sjálfu, og átti þessi samevrópska orðræða þátt í myndun evrópskrar samvitundar?  2.  Ef slík orðræða var til, gætum við kallað hana orientalíska í þeim skilningi sem Said hefur á hugtakinu? 

[…] Samanburðurinn á [áðurnefndum] textum mun sýna að orientalismi er alls ekki dauðadæmdur þrátt fyrir mikla gagnrýni.  Til þess að gera grein fyrir mótun evrópskrar sjálfsmyndar þurfa fræðimenn alls ekki að hafna orientalisma Saids, heldur nota hann í samspili við Miðjarðarhafsfræði.

Toby Wikström er lektor í frönskum bókmenntum í Tulane University í New Orleans, Bandaríkjunum.  Rannsóknir hans snúast um birtingarmyndir hnattvæðingarinnar í frönskum bókmenntum 16. og 17. aldar.  Hann hefur birt greinar í L´Esprit créateur og safnritinu Les Nouveaux mondes juridiques hjá Classiques Garnier.  Fyrirlestur þessi byggist á grein sem mun birtast í ár í safnritinu The Dialectics of Orientalism in Early Modern Europe.

Þorsteinn Helgason er dósent í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Eftir hann liggja margar greinar um Tyrkjaránið, sögukennslu og önnur efni í Saga, The Scandinavian Journal of History, Netla and Ritið.  Árið 2013 varði hann doktorsritgerð sína, Minningu og sögu í ljósi Tyrkjaránsins við Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 12:00 í stofu 102 í Lögbergi og tekur viðburðurinn um eina klukkustund.

[fblike]

Deila