Það var engu líkara en þær væru að kveðast á þær Shai Faran og Kim Ceysens sem sýndu dansverkið Why don‘t you/Make up your mind eftir Shai í Tjarnarbíói miðvikudaginn 2. mars þar sem þær reyndu að meðtaka dans hvorrar annarrar; fylgjast með og svo endurskapa til skiptis.
Verkið var ekki fullmótað dansverk heldur verk í vinnslu eða kannski þáttur í stöðugri rannsókn þeirra á eðli hreyfinga og hvernig hreyfingar eru fundnar. Í kynningu á verkinu kemur fram að listamennirnir veltu fyrir sér spurningunni hvernig við veljum úr ólíkum kostum. Á hvaða hátt? Af hverju? Hvaða hluti heila okkar er að verkum þegar við tökum ákvarðanir? Stór spurning er hér könnuð í gegnum hreyfingu og hreyfingarnar á sviðinu því afleiðing einhvers konar ákvarðanatöku á staðnum frekar en frásagnarform.
Verkið skiptist í þrjá kafla og kynnti höfundur undirliggjandi hugmynd á bak við hvern þeirra í upphafi sýningarinnar. Í þeim fyrsta fylgdu þær hvor annarri til skiptist og reyndu að skapa þær hreyfingar sem hin var að gera jafnóðum, ekki endilega alveg eins en þó byggðar á sama stefi. Sífellt var skipt um hreyfimynstur því þegar ein ætlan var komin vel í gang var tekin ákvörðun um að breyta og skoða eitthvað nýtt. Í kafla tvö gerði ein í einu stutta hreyfifrasa sem hin reyndi síðan að endurskapa. Hér reyndi á minnið og úrvinnslu þess sem þær sáu. Í þessum kafla varð stemmingin eins og á kvæðakvöldi; vísa var botnuð og nýjum fyrriparti var slengt fram (sem síðan var hafður eftir). Í síðasta kaflanum vissi áhorfandinn ekki hvað var í gangi, enda hafði höfundur sagt frá því í upphafi að hér þyrftu áhorfendur aðeins að fylgjast með, nema að önnur stóð fyrir utan sviðið og söng á meðan hin dansaði. Allir kaflarnir komu mjög skemmtilega út. Bæði vegna þess að dansararnir höfðu mjög góða hreyfifærni en líka vegna þess að áhorfandinn fékk að fylgjast með rannsóknar- og tilraunavinnu danshöfundar.
Rannsóknarvinna af þessu tagi er mikilvæg í dansinum og gjöfult fyrir listamenn innan dansins að verða vitni að svona vinnu. Sýningin var þannig ekki sýning í sjálfum sér, áhugaverð fyrir áhorfendur, heldur fyrirlestur á hreyfingu um könnun danshöfundar á ákveðnum leiðum til danssköpunar, áhugaverð fyrir aðra þá sem eru að dansa eða semja dans. Shai hefur verið hér á landi í nokkurn tíma. Hún kenndi námskeið við dansdeild Listaháskóla Íslands og gaf líka tíma fyrir sjálfstætt starfandi dansara á Dansverkstæðinu. Listrænn ráðgjafi verksins, Martin Kilvady, hefur einnig nýverið verið hér á landi en hann vann með Íslenska dansflokknum að verkinu All Inclusive sem sýnt var á nýafstaðinni hátíð Sónar. Sýninguna í Tjarnarbíó má þannig sjá sem lokapunkt í röð hugmyndafræðilegs ferlis sem fylgt hefur komu þessara einstaklinga hingað til lands.
[fblike]
Deila