Að spinna vef tónlistar og dans

All inclusive er framlag Reykjavík Dance Festival og Íslenska dansflokksins á Sónar núna í ár. Það er spennandi að danslistin fái sess á þessari tónlistarhátíð sem einkennist af tilraunakenndum og framúrstefnulegum nýjungum innan dans- og raftónlistar.

Verkið, sem er hárfín blanda af tónlist og dansi, er fyrst og fremst spunaverk. Tónlistarfólkið og dansararnir koma sér saman um hvernig stemmingu þau vilja hafa í hverjum kafla og um tímarammann en annars eru þau frjáls. Verkið verður þannig eitt langt samtal á milli tónlistarmanna og dansara þar sem hlustun er lykilorð. Í viðtali við aðstandendur verksins í Fréttablaðinu fyrir viðburðinn kom einnig fram að tónlistinni er ekki aðeins stjórnað af tónlistarmönnunum heldur eru notuð snjalltæki sem stjórna hljóðinu í samræmi við líkamsstöðu dansaranna.

Martin Kilvady & Mankan. Mynd fengin að láni af vef Sónar
Martin Kilvady & Mankan. Mynd fengin að láni af vef Sónar.

Þegar hleypt var inn í Norðurljósasal Hörpunnar þar sem verkið var flutt var tónlistin þegar komin af stað og dansararnir komnir á hreyfingu úti á sjálfu gólfinu. Tónlistin var mild og sefandi og það sama var að segja um hreyfingar dansaranna. Þeir voru greinilega að nota tímann til að hita upp og tengja sig við líkama sinn. Þó að tónlistin væri ein og sú sama fyrir alla voru hreyfingar, nýting á rými og allt viðmót dansaranna mjög ólíkt. Greinilegt var að um spuna var að ræða sem þýddi að hver og einn dansari flaut með tónlistinni og innri þörf líkamans í hoppum, teygjum, snúningum, rúllum eða hverju sem líkaminn bað um og andrúmsloftið í salnum kallaði eftir.

allinclusive_sonarhall_SonarReykjavik2016_josephall_hugras2
Ljósmyndari: Josep Hall

Smátt og smátt jókst svo orkan í tónlistinni og um leið krafturinn í hreyfingum dansaranna. Með meiri orku leituðu dansararnir í auknum mæli úr sínu eigin rými og litlar tengingar tóku að sjást á milli þeirra inn á milli einstaklingsspunans. Á þennan fallega hátt flæddi verkið um nokkra hríð eða þar til það brotnaði upp og dansararnir tíndust upp á svið sem staðsett var í einum enda salarins. Þar hófst síðan nýr kafli með nýrri stemmingu og nýjum tímaramma.

Seinni hluti verksins hófst á því að allir dansararnir stóðu saman í einum hnapp en héldu síðan smám saman hver sína leið. Upp á sviðinu var mun minna rými svo tengingarnar þeirra á milli jukust nokkuð. Þar var ekki endilega meira um líkamlegar tengingar heldur líka tengingar í formi sameiginlegra hreyfimynstra og einstakra hreyfinga. Þegar hér var komið sögu bættust rafrænar myndir á skjá fyrir aftan sviðið og sköpuðu þriðju víddina í tjáningu. Á sama tíma jókst notkun ljósa svo dansararnir urðu hluti af fjölbreyttu samspili tæknivæddrar veraldar.

Ljósmynd: Josep Hall
Ljósmynd: Josep Hall

Þó að báðir kaflar verksins væru í sama anda þá voru þeir mjög ólíkir og höfðuðu mjög ólíkt á undirritaða. Í flæðinu sem fram fór á gólfinu í fyrri hluta verksins var áhorfandinn nálægur og fann fyrir því sem dansararnir voru að gera. Það var ekki ólíkt því að standa úti í vetrarnóttinni og hlusta á fossanið undir dansandi norðurljósum. Í seinni hlutanum var maður hins vegar aftur kominn inn í hraða og neyslu nútíma borgarlífs þar sem dansarar og áhorfendur voru ekki lengur í sama heimi heldur framkvæmdi annar hópurinn og hinn horfði á. Það gerðist margt spennandi á sviðinu í seinni kaflanum en hann hélt ekki athyglinni eins vel og sá fyrri, að minnsta kosti ekki í fyrra skiptið sem verkið var sýnt.

Það kom mér nefnilega skemmtilega á óvart að eftir að hafa skrifað megnið af þessari gagnrýni byggða á fyrri sýningu kvöldsins kíkti ég aftur í salinn á seinni sýningunni og kom þá inn í seinni hlutann. Þá hafði eitthvað stórkostlegt gerst. Orkan í salnum var allt önnur, fleiri áhorfendur og gríðarleg stemming. Það var áfram fjarlægð á milli áhorfenda og sýnenda enda þessir hópar ekki í sama rými, annar á gólfinu og hinn á sviðinu, en krafturinn var miklu meiri í tónlist og dansi sem fyllti allan salinn.

Ljósmynd: Josep Hall
Ljósmynd: Josep Hall

Þarna voru á ferð töfrar spunaformsins en það er ótrúlega áhugavert form. Þetta flæði með umhverfinu skapar svo náttúrulega framvindu í verk. Að sjálfsögðu þurfa dansararnir að kunna með spunann að fara en það vantaði ekkert upp á það hjá dönsurum Íslenska dansflokksins. Það hlýtur að hafa verið mjög áhugavert að vinna að þessu verki með listrænum stjórnanda viðburðarins, dansaranum og danshöfundinum Martin Kilvady, því kúnstin við góðan spuna er ekki síst sterkur og áhugaverður rammi. Tónlistamennirnir Tómas Manoury og Guðmundur Vignir Karlsson í dúóinu ManKan kunnu síðan greinilega sitt fag hvað varðar tónlistarsköpunina og tæknimálin því tölvurnar eru jú þeirra tól í flutningi verksins.

Dansinn og tónlistin hafa alltaf verið nátengd og því er mjög eðlilegt að hlusta á tónlist við dans. Það er örugglega mjög misjafnt hvað vekur helst athyglina í svona verki þar sem lýsing, tónlist, dans og grafík mætast en í mínu tilfelli eru það líkamar á hreyfingum sem fanga athyglina og aðrir þættir eru eru fyrst of fremst til sem partur að heildarmyndinni. Ef þeir þættir heppnast undirstrika þeir og auka ánægjuna af sjónrænni og líkamlegri upplifun dansins en ef þeir passa ekki truflar það flæðið í upplifuninni. Þetta kvöld sköpuðu allir þættir sterka heild þó að grafíkin höfðaði síst til mín. Lýsingin gerði aftur á móti margt skemmtilegt og dró fram dulúðarfullan blæ. Búningar og sviðsmynd gerðu verkið að mínu mati mjög íslenskt því við hér á Íslandi lifum að miklu leyti í litlausum heimi fyrir utan marglita útvistarúlpur ferðamanna. Borgin er grá en þó með grænu ívafi á sumrum og náttúran er mestan hluta árs svart-hvít eða grá fyrir utan bláleitan blæ hafsins og himinsins. Litirnir í All inclusive voru í þessum vetrartón. Grátt, svart og hvítt með örlitlum bláma í sumum búningum dansaranna. Þetta rímaði vel við vetrarnóttina sem ég fann í fyrrihlutanum og ekki síður nútíma borgarlífinu sem mætti mér í þeim seinni.

Ljósmynd: Josep Hall
Ljósmynd: Josep Hall

[Ljósmynd fyrir ofan grein: Aníta Björk]

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila