Snjóflóðið féll úr Skollahvilft á Flateyri við Önundarfjörð klukkan fjögur, aðfaranótt fimmtudagsins 26. október 1995. Tuttugu manns fórust. Þessar náttúruhamfarir skiptu sköpum fyrir fólkið sem í þeim lentu og minntu okkur enn og aftur á það hve náin við erum háskalegum náttúruöflunum á þessari eldfjallaeyju. Öll þjóðin var slegin harmi en Vigdís Finnbogadóttir, forseti, ávarpaði hana, fór strax vestur og talaði kjark í þjóð sína. Hún var mikill leiðtogi þá eins og alltaf þegar mest á reyndi.Snjóflóðið á Flateyri er viðfangsefni Björns Thors og Hrafnhildar Hagalín í sýningunni Flóð á Litla sviði Borgarleikhússins.
Hið ósegjanlega
Tráma er sálrænt áfall. Það skellur á mönnum óvænt og af afli svo að menn meðtaka ekki það sem er að gerast og hvers vegna, þeir eru í losti. Björn og Hrafnhildur byggja leikritið á viðtölum við Flateyringa sem lýsa þessu bæði beint og óbeint, fólk veit ekki hvað er að gerast þegar flóðið skellur á þorpinu, flestir eru í fastasvefni. Upplifun næturinnar verður nánast súrrealísk, hús og þök eru ekki þar sem þau eiga að vera, allt sem áður var kunnugt er ókunnuglegt. Viðbrögðin eru órökrétt, smáatriði brenna sig föst, skynjun, upplifun og úrvinnsla verða mislæg. Sérfræðingar í afleiðingum náttúruhamfara á afmörkuð samfélög segja að áfallið þjappi fólki saman á ákveðinn hátt. Þó að trámað sé alltaf einstaklingsbundið og persónulegt og enginn hafi sömu sögu að segja geti enginn utan hópsins skilið áfallið og eftirköst þess; hvers vegna martraðirnar vilja ekki gefa sig og óttinn situr í líkamanum.
Flest þetta kemur fram í viðtölum við fólkið sem talað var við og er mjög áhrifamikið – en því versta er ekki hægt að lýsa.
Heimildaleikhús
Heimildaleikhús er eðli málsins samkvæmt mjög textamiðað, oftast pólítískt enda ætlað að benda á veruleikann, segja sögu sem þarf að segja, leita sannleikans. Of stutt er frá flóðinu og sár enn opin svo að erfitt er að spyrja gagnrýninna spurninga – hér er fyrst og fremst lýsing á náttúruhamförum og afleiðingum þeirra. Teymið sem stendur að sýningunni eru engir aukvisar, Kristbjörg Kjeld, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson og Kristín Þóra Haraldsdóttir. Þau segja sögur Flateyringa á öllum aldri og úr ýmsum starfsstéttum. Þetta eru sögur hvunndagshetja sem standa sig og takast á við skelfingarnar af miklu æðruleysi.
Leikararnir breyta ekki um rödd eða gervi til að aðgreina persónur og eru fremur kyrrstæðir, enda Litla sviðið undirlagt af tveimur fremur stórum borðum sem eru mikilvæg fyrir leikmyndina. Á borðunum eru kassar og leikmunir og þegar flóðið fellur gegna þau ákveðnu hlutverki. Það er leikið undir og ofan á þeim og búin til jarðgöng á þeim og loks verða þau turn. Flateyri er búin til á gólfi sviðsins og myndum og módelum sem búin eru til á þennan hátt er varpað upp á vegg og leikið með ljós og skugga af mikilli hugkvæmni. Leikmynd og búningar eru í höndum Snorra Freys Hilmarssonar og lýsingu annast Björn Bergsteinn Guðmundsson.
Einlæg og falleg
Eins og áður er sagt eru sögurnar sem sagðar eru í þessu verki bæði aðdáunarverðar og hjartaskerandi en samt spyr maður sig hvort þetta efni eigi erindi á svið? Ég er ekki alveg sannfærð um það en ef sú er niðurstaðan er trúlega best að gera það af naumhyggju, með fullkomna einlægni og virðingu að leiðarljósi eins og hér er gert.
[Ljósmyndir: Grímur Bjarnason]
[fblike]
Deila