Þriðja leikhúsið í Reykjavík er Tjarnarbíó. Þar leika oft ferskir vindar í verkefnavali og þar má sjá jaðarlist (fringe) af besta tagi þegar vel gengur. Í gærkvöldi sáum við leikritið Samfarir Hamfarir eftir Natan Jónsson og Þórunni Guðlaugs. Natan Jónsson leikstýrir.
Samfarir Hamfarir
Sviðsmyndin er falleg. Flóknir þræðir tvinnast og flækjast og mynda risanet eða vef á bak- og hliðarsviði, í netið eru festir merkimiðar. Þræðirnir skína þegar þeir eru lýstir margvíslegum ljósum. Áhorfanda er í sjálfsvald sett hvort hann túlkar vefinn sem mynd af því völundarhúsi sem líf stúlkunnar er eða sem net til að veiða drauma. Uppi undir lofti hangir eitthvað sem reynist vera dýna eða rúm Þórunnar – vettvangur bæði gleði og stundum lífsreynslu sem sögumaður hefði vel getað verið án. Sviðsmyndina hanna Þórunn Guðlaugs og Natan. Vídeó og grafík í sýningunni eru í höndum Frímanns Kjerúlfs Björnssonar og Siggeirs Magnúsar Hafsteinssonar, tæknin hjá Kristni Ágústssyni og Einar Sv. Tryggvason býr til afar kunnáttusamlegan hljóðheim sýningarinnar. Ella Reynis gerir búningana.
Net til að veiða minningar
Leikarar eru þrír, Þórunn Guðlaugs leikur aðalhlutverkið, Þórunni. Ársæll Níelsson leikur hennar annað sjálf eða hliðarsjálf, eins klæddur og hún og fylgir henni eftir á erfiðum stundum, tvöfaldar hana og styður eða gagnrýnir hana. Hann tínir miðana niður úr netinu og skráir þær minningar sem vakna hjá sögumanni við þær. Hann var fyndinn og skemmtilega íronískt mótvægi við dramatík Þórunnar – eins og vel sást á viðbrögðum áhorfenda. Aðalsteinn Oddsson lék mörg karlhlutverk, frá flagaraskrípinu Baldri til föður Þórunnar, náði prýðilega að greina þá að og gefa þeim sérkenni. Allir tengjast þeir Þórunni, sögumanni okkar.
„Aldrei datt mér í hug að ég myndi sofa hjá Búra”
Saga Þórunnar er uppistaða textans. Hún á glaða bernsku en missir móður sína tíu ára gömul og í raun föðurinn samtímis því hann er of aumur til að ala hana upp. Henni finnst hann hafna sér og við tekur sjálfsuppeldi og veik sjálfsmynd krakka sem verður að láta öðrum líka við sig til að lifa af.
Hún byrjar að drekka og er afmeyjuð í búri inn af eldhúsi hjá skólafélaga, þetta er mjög hallærislegt og verður enn verra þegar það kemst upp. Strákurinn þykir töff, hún þykir hlægileg drusla og fær viðurnefnið „Búri“.Hún byrjar að drekka og er afmeyjuð í búri inn af eldhúsi hjá skólafélaga, þetta er mjög hallærislegt og verður enn verra þegar það kemst upp. Strákurinn þykir töff, hún þykir hlægileg drusla og fær viðurnefnið „Búri“. Hún er svo undir radar að enginn vill vera með henni. Hún er dæmd, hann ekki, hún er lauslát, hann á mikinn sjens. Og hún á ekkert það bakland sem gæti hjálpað henni til að hefja gagnárás af einhverju tagi. Öll saga Þórunnar þaðan í frá einkennist af því að hún laðar að sér ómögulega karlmenn og drullusokka eins og þann sem á kaflafyrirsögnina og segir þetta við hana þegar þau eru komin í rúmið.
Þörf umræða fyrir ungmenni!
Margar, jafnvel flestar konur, þekkja sig í sögu Þórunnar. Hún er oft íronísk og fær blæ af skvísusögum en háskalega oft verður hún píslarvættissaga því Þórunn ber ekki hönd fyrir höfuð sér. Hún er heldur ekki millistéttastelpa eins og Bridget Jones heldur alþýðustelpa sem hefur ekkert bakland.
Það hefði vel mátt hressa upp á handritið á köflum en sagan er sterk. Þórunn Guðlaugs virkaði svolítið nervus fyrst en sótti í sig veðrið og ég gæti vel ímyndað mér að þessi sýning gæti verið mjög góður umræðugrundvöllur fyrir framhaldsskólanemendur um tvöfaldan móral, einelti og kvenfyrirlitningu sem reynist oft grunnt á hjá strákum sem aldir eru upp á femínisma og klámi í hlutföllunum tíu á móti níutíu.
[fblike]
Deila