Hugrás óskar lesendum sínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakkar fyrir innlitin á árinu 2015. Á þessu ári var ráðist í viðamiklar breytingar á útliti vefsíðunnar, auk þess sem meiri vinna var lögð í að auka flæði efnis inn á síðuna og koma því á framfæri á myndrænan og aðgengilegan hátt. Eins og lesendur hafa væntanlega tekið eftir hefur megináhersla verið lögð á bókagagnrýni í aðdraganda jólanna, og þá ekki aðeins um skáldskap heldur einnig fræðibækur sem fá stundum litla athygli í öðrum miðlum. Viljum við með því leggja okkar af mörkum til að efla bókaumfjöllun sem virðist eiga undir högg að sækja undanfarið.

Viðbrögðin við endurnýjuðum vef hafa verið framar vonum. Við viljum sérstaklega þakka starfsfólki og framhaldsnemendum við Hugvísindasvið Háskóla Íslands fyrir að taka virkan þátt í því metnaðarfulla verkefni að viðhalda stöðugu streymi af áhugaverðu efni inn á vefinn. Það er okkar trú að það sé í þágu okkar allra að hugvísindafólk við háskólann hafi slíkan vettvang til að taka þátt í almennri menningar- og samfélagsumræðu. Við vonumst til að geta gert enn betur á næsta ári og fest Hugrás í sessi sem mikilvægan menningarmiðil.

Auður Aðalsteinsdóttir ritstjóri
Sóley Stefánsdóttir myndaritstjóri

[fblike]

Deila