Einar Már GuðmundssonEinar Már Guðmundsson er tvímælalaust meðal okkar fremstu núlifandi rithöfunda og ákveðinnar eftirvæntingar gætir þegar von er á bók frá honum. Einar Már á tryggan aðdáendahóp á Íslandi, undirrituð er þar með talin, og í ár standa danskir aðdáendur hans jafnfætis þeim íslensku því að bókin kom út samtímis í báðum löndum. Það er vel til fundið því að aðalpersóna sögunnar er hinn danski Jörundur hundadagakonungur. Samband Danmerkur og Íslands, áður en sjálfstæðisbarátta tók völdin, lúrir í bakgrunni sögunnar.
Hundadagar
Mál og menning, 2015
Það er ekki einfalt að lýsa efni Hundadaga. Sagan er marglaga, ýmsir krókar og kimar eru þræddir – sumir óvæntir en aðrir ekki. Jörundur hundadagakonungur er rauði þráður bókarinnar, framan af verða tíð sviðskipti mili Jörundar og Jóns Steingrímssonar eldklerks en saga Jóns víkur hins vegar smám saman fyrir Jörundi sem verður einráður um tíma. Undir lok hleypir höfundur síðan Finni Magnússyni prófessor í Kaupmannahöfn inn í söguna. Honum bregður reyndar fyrir á dramatískan hátt þegar Jörundur er á Íslandi en hlýtur óvænt talsvert rými í síðustu köflunum. Saga hans er raunar ekki síður áhugaverð en hinna tveggja og skemmtileg viðbót.
Jörundur eða Jörgen er þó sá sem mesta athygli hlýtur og skal ekki undra, hann er litrík persóna sem heimtar sitt rými. Lífshlaup hans er raunar með hreinum ólíkindum. Velflestir Íslendingar þekkja ef til vill eingöngu hið stutta skeið í lífi Jörundar sem kennt er við hundadaga, tímabilið sem honum tókst að halda völdum á landinu bláa. Hér er æviskeið hans allt rakið eins og tilefni gefur til, höfundur vitnar víða í heimildir en óvíst er þó hvar fært er í stílinn og hvar ekki, enda skiptir það ekki höfuðmáli. Líf Jörundar er vel til þess fallið að skrifa góða sögu. Hann var víðförull, stórhuga, breyskur en oftast kotroskinn, sögumaður líkir honum við hetju úr fornri sögu á einum stað: „dularfullur en um leið eins hversdagslegur og fábrotinn og hægt er að hugsa sér“ (87).
Einari tekst hins vegar að varpa ágætu ljósi á það hvernig fortíðin á erindi í nútímann, sagan endurtekur sig. Jörundur er manngerð sem er uppi á öllum tíma.En á Jörundur eitthvert erindi við nútímann? Er hann ekki best geymdur í sögubókum fyrir skólabörn og sem eina ástæða þess að allir þekkja eitt gamalt mánaðaheiti? Það kann að vera að einhverjir svari þessum spurningum hiklaust játandi. Einari tekst hins vegar að varpa ágætu ljósi á það hvernig fortíðin á erindi í nútímann, sagan endurtekur sig. Jörundur er manngerð sem er uppi á öllum tíma. Ef hann væri fæddur á 20. öldinni mætti vel ímynda sér að hann væri einn þeirra sem fengi látlaust góðar hugmyndir en væri duglegur að setja fyrirtæki á hausinn. Tvö hundruð ár liðu milli byltingar Jörundar og næstu byltingar á Íslandi: „Á Íslandi er talað um tvær byltingar. Þær urðu með tvö hundruð ára millibili, sú fyrri kennd við danska óþekktarorminn Jörgensen eða Jörund hundadagakonung en sú seinni við potta og pönnur og nefnd búsáhaldabyltingin (177)“.
Byltingarnar tvær eru að mörgu leyti ólíkar en drifkrafturinn er sá sami: peningar. Alþýða Íslands tók þó ekki þátt í byltingu Jörundar og sjálfstæði hvarflaði ekki að því fólki. Byltingar eru annars leiðarstef í sögunni því að víða skýtur upp kollinum stærri og áhrifameiri bylting, sú franska. Að einhverju leyti tengir franska byltingin saman sögu Jóns prests og Jörundar, því að ekki voru þeir samtímamenn, Jón var látinn þegar Jörundur kom til Íslands og Jörgen aðeins þriggja ára þegar Skaftáreldar geisuðu. Franska byltingin stendur í hámarki örfáum árum eftir Skaftárelda. Afleiðinga Skaftárelda gætti um alla Evrópu, uppskerubrestur og hungursneyð voru víðar en á Íslandi: „Fólk var bara svangt og fólk var reitt. Allt snerist um að yfirgnæfa garnagaulið og gerir raunar enn. Hinir hungruðu flæktust á milli bæja. Eitthvað hlaut að láta undan. Því logaði allt í óeirðum og byltingum“ (127).
Í sögunni Hundadagar birtast mörg kunnugleg einkenni Einars Más, hann flakkar fram og aftur í tíma, skýtur inn stuttum útúrdúrum hér og hvar sem hafa yfirleitt þau áhrif að lesandi getur brosað í kampinn. Þessa list kann Einar vel og eru sum eldri verka hans leiftrandi skemmtileg af þessum sökum. Það verður þó að segjast að oft hefur honum tekist betur upp en nú. Í bókunum þremur, Fótspor á himinum, Draumar á jörðu og Nafnlausir vegir, sem komu út um og uppúr aldamótum, tekst honum til að mynda listavel að skipta ört um sjónarhorn og segja sögu nokkurra persóna samhliða. Í Hundadögum eru sviðskiptin óneitanlega stirðari. Það helgast líklegast af því að sögur þeirra Jóns og Jörundar tengjast óverulega. Saga þeirra er ekki ein saga heldur tvær og þær fléttast lítið sem ekkert saman. Þetta gerir frásögnina stundum brotakennda og textinn sjálfur er það einnig á köflum, stuttar efnisgreinar eru áberandi sem gerir það að verkum að hann höktir af og til.
Hins vegar flæðir sagan miklu betur þegar Jón er úr sögunni og Jörundur tekur alfarið við sviðinu.Það er alls óvíst að það trufli alla lesendur bókarinnar hve lítið þeir tengjast Jón og Jörundur enda segir á einum stað „við leyfum okkur að fara fram og aftur um tímann af því að saga okkar er í aðra röndina andleg og ekkert er í réttri röð þegar fram líða stundir“ (190). Hins vegar flæðir sagan miklu betur þegar Jón er úr sögunni og Jörundur tekur alfarið við sviðinu. Þetta gerir það einnig að verkum að saga Jóns stendur í skugga sögu Jörundar. Við hlið Jörundar verður Jón ekki eins eftirminnilegur því að ævintýri Jörundar eru með ólíkindum. Saga Jóns er hins vegar ekki síður athyglisverð og hefði að ósekju mátt fylla heila bók.
Hundadagar vekja þó hjá lesendum sömu tilfinningar og jafnan vakna við lestur bóka Einars Más. Bókin er hlýleg og sögumaður ávarpar lesendur eins og gamla kunningja, inn í þennan heim eru lesendur sannarlega velkomnir. Hundadagar er bæði stór saga og lítil saga, saga sem teygir anga sína víða um veröldina en er um leið saga einstaklingsins. „Á íslensku nær orðið saga bæði yfir sögu landa og þjóða sem og skáldsögur og alls kyns frásagnir“ (70). Þarna er bókinni vel lýst, hún er saga í öllum skilningi þess orðs.[/x_text]
Deila