Ljósmynd: Valdís Thor.
[container]
Mímisbar á Hótel Sögu er nánast tómur fyrir utan nokkra ferðamenn sem hvíla lúin bein og sötra kaffi. Það er viðeigandi að hitta skáldkonuna Sigurbjörgu Þrastardóttur á stað, þar sem ferðamenn koma og fara því hinn flakkandi ferðalangur kemur gjarnan við sögu í verkum hennar. Við mælum okkur mót út af nýrri ljóðabók. Kátt skinn (og gloría) heitir bókin og kom út á dögunum hjá JPV útgáfu og er áttunda ljóðabók Sigurbjargar. Þar að auki hefur hún sent frá sér tvær skáldsögur og fimm leikverk.Sigurbjörg er sammála því að nýja ljóðabókin sé ólík síðustu þremur ljóðabókum (Blysfarir, Brúður og Bréf frá borg dulbúinna storma) sem eru meira þematengdar ljóðsögur.
„Ég vildi snúa aftur til þess að hafa eitt ljóð á síðu og hvert ljóð afmarkað. Mér finnst samt eitthvað halda þeim öllum saman og í raun fengu mörg ljóð ekki að vera með í bókinni því þau pössuðu ekki inn. Það var ekki þannig að ég tæki allt sem ég átti og gæfi út heldur valdi ég ljóðin mjög strangt inn í bókina.“
Skinn og hold koma víða við sögu í bókinni og þar að auki er sterk tenging á milli holds og náttúru. Sigurbjörg bendir á að holdið og samruninn við náttúruna hafi komið áður fram í hennar verkum og tekur sem dæmi ljóð í bókinni Brúður þar sem fjallað er um að gifta sig sveitinni.
Það er að sögn mjög misjafnt hvernig ljóðin verða til. Sigurbjörg man til dæmis nákvæmlega hvar og hvenær ljóðið Gloría úr nýju bókinni varð til.
„Það ljóð samdi ég fyrir tónleika í Langholtskirkju og ég skrifaði það í Þýskalandi. Ég man hvenær ég skrifaði það, í ákveðnum sófa í íbúð í Berlín. Ég vakti fram á nótt og elti þessa hugmynd, síðan lagaði ég textann dálítið eftir á. Sumt byrjar á einu orði eða einni mynd en verður svo kannski of langt og þá þarf maður að stytta. Það tekur heillangan tíma að snurfusa heilt svona safn eins og er í bókinni. Það er alltaf eitthvað eitt orð sem maður tekur út og svo mánuði seinna setur maður það aftur inn og svo tekur maður það jafnvel út aftur.“
Aftast í bókinni eru birtar fjórar ólíkar orðabókarskýringar á orðinu skinn. Það sýnir margræðni orðsins en skinnið virkar sem landamæri innri og ytri veruleika.
„Þetta eru reyndar bara fjórar helstu útskýringarnar á orðinu, það eru til mörg önnur dæmi, eins og öll orðtökin. En orðin sem koma þarna fram eru falleg, eins og „fell, há og feldur“ — lunkinn orðheimur í kringum skinn. Húðin og hörundið eru svo mikilvæg öllum og jafn gott að við eigum mörg orð yfir þau. Maður getur falið sig inni í skinninu eins og dýrin gera. Húðin og skinnið eru líka skjól en geta verið mjög viðkvæm. Það þarf lítið til að skinn rofni. Minnstu skrámurnar geta meitt mann mest og maður er lengi að jafna sig á þeim en á sama tíma er hægt að fara í uppskurð og finna lítið fyrir því. Þetta er fyrsti viðkomustaður sársaukans.“
Lífsharmur og sársauki skína einmitt í gegn í ljóðinu „Trúlofunarpartí“. Það er opið en segir margt um leið. Undirtitill þess er „eða Nobody knows where my Johnny has gone“:
Öllu sköpuðu er sprett sundur
um síðir
grjótið springur
gjáin
myndast
lófi leysir lófa
brúin gliðnar
við
fyrsta þeytta skipshorn
þrátt fyrir gefin loforð
– allt sem heyrir
saman
skríður sundur, annars væri gaman að lifa
„Ljóðið vísar í lagið „It‘s my party and I‘ll cry if I want to“ (hummar lagið). Það gerist í afmæli stúlku, hún er búin að missa sjónar á Johnny sínum en hann er alltaf hangandi með Judy – hún sér síðan að Judy er með trúlofunarhring. Þetta er auðvitað mikill harmur. Draumurinn rofnar og afmælispartýið hennar breytist í trúlofunarpartýið hans. En ljóðið vísar líka annað. Brýr eru byggðar og maður heldur að þær munu aldrei rofna en svo opnast þær til dæmis fyrir skip. Einu sinni bjó ég á þriðju hæð við túristagötu í útlöndum og fannst heillandi að fylgjast með hversu margir leiddust en það þurfti svo lítið til að annar aðilinn sleppti takinu, til dæmis var nóg að síminn hringdi. Rofið er algengt, og það er víða.“
Það eru komin fimmtán ár síðan fyrsta bók Sigurbjargar kom út og að meðaltali hefur hún sent frá sér eitt verk á ári. Þegar rýnt er í útgáfuferilinn sést að fjögur ár liðu á milli bókanna Túlípanafallhlífar og Blysfarir. Þó að engin bók hafi komið út þessi ár þá skrifaði hún nokkur leikrit á þessum tíma. Sigurbjörg tekur fram að henni finnst mikilvægt að hafa leikritin með í yfirlitinu því þau gleymast svo gjarnan. Það mætti halda að ljóðið hafi legið í dvala hjá henni í fjögur ár en Blysfarir bar með sér mikla breytingu og nánast sprengikraft. Sigurbjörg rifjar þennan tíma upp og er alls ekki viss um að ljóðið hafi legið í dvala.
„Ég var örugglega að skrifa ljóð sem komu aldrei út. Ég var líka að breyta um form á þessum tíma – hefði í raun getað haldið áfram endalaust á sömu braut en langaði það ekki – og kannski var ágætt að fara í leikritin á meðan. Síðan var ég líka að skrifa skáldsögu sem hefur ekki komið út. Blysfarir réðist inn í þá sögu, hún hefur ekki jafnað sig á því ennþá.“
Sigurbjörg er ekki viss um að þessi skáldsaga komi yfirleitt út en bendir á að hún hafi orðið eins og jarðvegur eða mold fyrir önnur verk. Sagan hefur þannig virkað eins og kartöflumóðir.
„Manni getur fundist það til einskis að rótast í einhverju sem náði ekki endamarki, en kannski var það bara nauðsynlegt á þeim tíma.“
Nýja ljóðabókin er myndskreytt af Birtu Fróðadóttur en þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sigurbjörg vinnur með myndlistarmanni. Til dæmis var bókin Brúður með myndskreytingum eftir Bjargeyju Ólafsdóttur. Það vekur athygli að Sigurbjörg hefur í gegnum tíðina unnið mikið með myndlistarfólki.
„Mér finnast myndskreytingar Birtu Fróðadóttur bæta miklu lífi við ljóðin. Við erum með okkar eigið leyniheiti á hverri mynd fyrir sig en fólk fær að sjá það sem það vill út úr þeim. Myndirnar eru mikilvægar því ljóðin eru svo mörg. Þær virka eins og kaflaskipti og gefa lesandanum andrými. Ég tók ekki eftir því fyrr en í fyrra hvað ég hef starfað mikið með myndlistarmönnum en þá setti ég upp heila sýningu á Akranesi, þar sem ég var bæjarlistamaður, og valdi verk sem tengjast bókunum mínum, kápumyndir, ljósmyndir og fleira. Þar var líka teikning af hnattlíkani sem ég fékk að gjöf frá Þorvaldi Þorsteinssyni þegar Hnattflug kom út. Þarna uppgötvaði ég hvað ég hafði unnið með mörgum myndlistarmönnum í gegnum tíðina. Það er mjög gaman að vinna með fólki úr annarri grein, það gerir mikið fyrir myndir og ljóð.“
Sigurbjörg hefur líka starfað með tónlistarmönnum þar sem hún hefur samið sálma, gert texta við lög eftir tónskáld og þýtt erlenda söngtexta. Þegar hún er spurð að því hvernig hún viti hvaða skáldskaparform henti best hverri hugmynd viðurkennir hún að hún viti það í raun ekki.
„En hugmyndirnar vita það. Yfirleitt fara þær í einhvern farveg og svo eltir maður. Stundum skarast greinar, eitthvað sem byrjar sem samtal getur bæði verið leikrit eða samtalskafli í skáldsögu, en svo skýrist það nú alla jafna.“
Í ljóðabókum Sigurbjargar eru oft ferðalangar á ferðalögum. Lesandinn ímyndar sér að sjálf sé Sigurbjörg oft á faraldsfæti og hún gengst við því. Á tímabili ferðaðist hún mikið í tengslum við ljóðahátíðir um allan heim. Það hafi reynst mjög frjór jarðvegur að vinna í og mörg ljóð orðið til á þeim ferðum.
„Margir höfundar eru kynntir þannig að þeir búi og starfi á einum stað en ég hef stundum þurft að segja: „Lives and works in Reykjavik and on the road.““
Spjall okkar leiðist út í umræður um ferðalög, ferðasögur og kenninguna um ferðaþrána sem eykst eftir því sem meira er ferðast. Ferðamennirnir sem áðan sátu yfir kaffibollum á Mímisbar eru horfnir og við tökum þá ákvörðun að fylgja þeirra fordæmi og höldum út í lífið sem einhver sagði einmitt að væri ferðalag.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply