[container] Tónleikar þungarokksveitanna Icarus, We Made God og Endless Dark.
Það er fremur snúið að reyna að útskýra hvernig stemmning er á þungarokkstónleikum. Sá fjöldi fólks sem þeytir hárinu í hringi og hrindir hverju öðru fram og til baka fyrir framan sviðið er í raun mælikvarði á hversu gott andrúmsloft er á tónleikunum. Þrátt fyrir að þungarokkssenan fái því miður ekki mikla umfjöllun í menningarmiðlum er ótrúlegur kraftur og líf í senunni. Mikill vinskapur og gagnkvæm virðing er milli hljómsveita og þátt fyrir öskrin, hrindingar og sveitta stemmningu er samt sem áður eitthvað notalegt við að fara á þungarokkstónleika.
Laugardaginn 18. október stigu hljómsveitirnar Icarus, We Made God og Endless Dark á svið á Gauknum. Eftir breytingar á staðnum er loks komin þar frábær aðstaða fyrir tónleika þar sem nægt pláss er bæði uppi á sviði og fyrir áhorfendur úti í sal. En þrátt kjöraðstæður, góða mætingu og skothelda frammistöðu allra hljómsveitanna þetta kvöld vantaði stemmninguna frá áhorfendum sem er verulega stór partur af upplifuninni.
Fyrstir á svið voru meðlimir Icarus sem spila harða og hraða tónlist sem er engu að síður melódísk. Hraði og hráleiki tónlistarinnar gerir það að verkum að þeir eiga sér fáa líka. Söngvara þeirra, Finnboga Örn, skorti sannarlega ekki orku og hefur þann vana að hanga í loftinu, hlaupa meðal áhorfenda eða hreinlega slasa sjálfan sig með hljóðnemanum meðan hann öskrar af öllum lífs og sálar kröftum. Aðrir meðlimir sveitarinnar stóðu sig með prýði en óneitanlega beinist mesta athyglin að þessum orkumikla forsprakka þeirra.
Næstir á svið voru fjórmenningarnir í We Made God. Tónlist þeirra var heillandi og á suman hátt angistarfull. Allir meðlimir hljómsveitarinnar lifðu sig inn í flutninginn sem gerði það að verkum að tónlistin varð enn tilfinningaríkari en ella. Á köflum minntu þeir hreinlega á Sigur Rós, þrátt fyrir að tónlistin hafi verið mun þyngri með meiri áherslu á gítarspil. Söngurinn var ekki í aðalhlutverki heldur samspil allra meðlima hljómsveitarinnar. Það var margt framandi við flutninginn. Söngvarinn Magnús beitti boga á gítarinn sinn og Steingrímur bassaleikarinn hefur fjarlægt streng og notast aðeins við þrjá. Þó að það hafi verið fremur rólegur andi yfir hljómsveitinni var mjög mikill kraftur í tónlistinni og einstaklega gaman að horfa á hana á sviði.
Reynsluboltarnir í Endless Dark voru síðastir á svið. Meðlimirnir sjö voru óþreytandi í hoppum og hárþeytingum. Tónlist þeirra einkennist af kraftmiklum öskrum og gítarriffum sem blandast inn í fremur poppuð viðlög þar sem söngurinn og hljómborð tekur við. Annar söngvari hljómsveitarinnar, Viktor, er með verulega öfluga og hreina rödd sem því miður náði ekki að njóta sín alveg nógu vel vegna hljóðsins sem var fremur óskýrt og á tímum yfirgnæfði hljóðfæraleikurinn sönginn. Flutningurinn var orkumikill og flott frammistaða hjá hljómsveitinni í heild en það var sérstaklega áberandi hversu mikið vantaði upp á alla stemmningu meðal áhorfenda. Allar hljómsveitirnar stóðu sig vel og kvöldið bauð upp á skemmtilega fjölbreytni.
Anna Guðjónsdóttir, meistaranemi í blaða-og fréttamennsku.
[/container]
Leave a Reply