[container] 

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

Leikhúsið Tíu fingur frumsýndi nýtt leikverk fyrir börn, Lífið, í Tjarnarbíói á laugardaginn var. Það er Charlotte Böving sem leikstýrir, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson sem leika, Margrét Kristín Blöndal sér um tónlistina og Helga Arnalds um myndræna hlið verksins.

Helga Arnalds er stofnandi leikhópsins Tíu fingur sem verður 20 ára á næsta ári. Hún er myndlistarmaður og brúðuleikari og hefur kallað til liðs við sig marga afburða listamenn gegnum tíðina og leikhús hennar fengið verðlaun og viðurkenningar. Tíu fingur sérhæfir sig í sjónrænu leikhúsi og sýningin Lífið er án orða. Þar er leikið er með ljós og skugga, lágmarks sviðsbúnað en mikla hreyfingu, leikgleði og hugmyndaauðgi.

Leikritið opnar eins og Völuspá á því að í upphafi var ekkert nema formleysi. Lífið fjallar síðan um það að gefa ómótuðu efni form. Í upphafi sjá börnin skugga á tjaldi þar sem tvær mannverur greina sig smám saman útúr ó-skapnaði og þessar mannverur uppgötva hvor aðra og byrja að byggja og búa,  dýrin verða til á jörðinni, búin eru til samskipti, mannvirki, hvort tveggja brotið niður, tekist á en sæst heilum sáttum í lokin.

Börnin skemmtu sér konunglega (við líka) og sýningin vakti athygli þeirra og forvitni allan tímann. Það verður seint fullþakkað að til eru listamenn sem bjóða yngri börnum leikhússupplifun sem er valkostur við hraðann, hávaðann og íburðinn í stóru barnasýningunum.  Börnin hlógu hjartanlega að átökum stráksins og stelpunnar, vatnsaustri og leik með moldina. Lítilli hefðarmeyju sem var með mér þótti nóg um leðjuslaginn, einkum af því að slettist örlítið á peysuna hennar en öll börnin fengu lítinn blómakassa með fræi í sem kveðjugjöf sem gerði mikla lukku.

Sýningin tekur 50 mínútur, hún er fyrir börn frá 4 ára aldri  og ég mæli með henni.

Deila

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *