Einlægnin bak við tjöldin

[container]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

 Listahópurinn Vinnslan býður upp á  sérkennilega og merkilega sýningu í Tjarnarbíó. Hópurinn hefur alltaf verið athyglisverður, óhefðbundinn, óhræddur við tilraunir og frumlega notkun á rými og ólíkum tjáningaformum. Vinnslan hefur fyrst og fremst áhuga á leikhúsinu vegna sköpunarinnar bak við tjöldin, þeirri orku sem býr í listamanninum og leitar sér forms og vill ná sambandi við annað fólk.

Listahópinn Vinnsluna skipa Vala Ómarsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Biggi Hilmars, Arnar Ingvarsson, María Kjartans, Starri Hauksson og Harpa F. Sigurjónsdóttir  en þau hafa fengið til liðs við sig hvorki meira né minna en sautján gestalistamenn: leikara, dansara, tónlistarmenn, myndlistarmenn og tæknimenn og veitir ekki af því að það eru gjörningar í átta rýmum Tjarnarbíós, sölum og kompum og furðulegustu ranghölum sem gesturinn heimsækir að vild sinni meðan sýningin varir. Verkefnið er mjög metnaðarfullt.

 Myndir á sýningu

Áhorfandinn hefur sína óvissuferð í stóra salnum þar sem hann hlustar á fallega tónlist í heyrnartækjum og horfir á eins konar flæðandi kynningu, brot af því sem fram fer í rýmum hússins  og þar hvessti ég augun á mynd af ókennilegum, hnökruðum massa, í bleikum og rauðum tónum sem ég hélt að væri fituvefur innan úr mannslíkama og reyndist nærri lagi því að í hvítu herbergi hékk þessi skúlptúr og saltvatnsflaska tengd í hann með rafbúnaði og þessi tvískipti bleiki skúlptúr snerist við inngjöfina og dropar féllu hægt niður af honum á plötu sem varpaði aftur mynd á vegginn eins og í hringrás sem stoppar þegar inngjöfinni lýkur.

Kannski var þetta hjarta sýningarinnar eða táknmynd hennar? Og tónlist, gítarleikur, undirstrikaði gangverkið? Þetta samspil myndar og tónlistar gekk í gegnum sýninguna og skoraði á áhorfandann að hlusta, horfa og túlka.  Staðsetning  tveggja gjörninganna í lokuðum herbergjum bak við gler breyttu áhorfanda í gluggagægi en í öðru rými var áhorfandinn kominn í kaffiboð og  rökræðu við leikkonuna um hlutverkið og markmið sýningarinnar.  Það væri hægt að skrifa nokkuð lengi um þau hugrenningatengsl sem myndast í þessari hugmyndaríku og skapandi sýningu en við heimsóttum tvisvar rýmið þar sem Vala Ómarsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, og Guðmundur Ingi Þorvaldsson túlkuðu samband kynjanna í ýmsum aðstæðum í texta en ekki síður líkamlega – áhorfendur stóðu eins og dáleiddir.

Einlægni

Í viðtali við Kastljós lýsti Vala Ómarsdóttir undirbúningi sýningarinnar þar sem hún tók upp viðtöl við alla þá ungu listamenn sem tóku þátt í sýningunni um afstöðu þeirra og tilfinningar til listar sinnar og tjáningar. Þetta eru viðtöl sem ganga greinilega á hol á viðmælendum sem tala um strengina milli listamannsins og þeirra sem hann talar við, strengina milli fólks. Þau tala um ótta sinn við áhorfandann og um leið innri nauðsyn á að ná sambandi við hann – þau tala um gleði, einmanaleik, ást, einlægni, svik og lygi.  Þessir textar eru fluttir og túlkaðir í sýningunni en ekki af höfundum þeirra heldur er þeim víxlað og spurningin sem vakir fyrir hópnum er hvort listamaðurinn geti nokkurn tíma leikið einlægni sína? Hvers sannleikur er á borð borinn á sviði  – ef einhver?

Ein af spurningum sýningarinnar er:  Er einlægnina í leikhúsinu kannski að finna bak við tjöldin?  Svarið er: Kannski – kannski ekki. Því verður hver að svara fyrir sig – það eru bara þrjár sýningar eftir svo að ekki er eftir neinu að bíða.

Deila

[/container]

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *