Bjarki Karlsson hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar

[container]

bjarkikarlsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman, forseti borgarstjórnar, og Bjarki Karlsson.

Bjarki Karlsson, doktorsnemi í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2013 við athöfn í Höfða í dag. Verðlaunin voru veitt fyrir ljóðahandritið Árleysi alda. Ljóðin komu út á bók í dag í útgáfu Uppheima.

Bjarki Karlsson stundar rannsóknir við Háskóla Íslands á samspili hljóðkerfis og bragkerfis í íslensku og færeysku frá siðbreytingu til okkar daga. Til verksins hlaut hann þriggja ára starfsstyrk frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands árið 2012. Hann er einnig ritstjóri Skímu, málgagns samtaka móðurmálskennara. Bjarki er formaður Óðfræðifélagsins Boðnar, félags um rannsóknir á kveðskap, en félagið gefur út tímaritið Són. Auk þess situr hann í stjórnum Málvísindastofnunar og Ásatrúarfélagsins. Fyrir störf sín hefur Bjarki hlotið vefverðlaun ÍMARKs (2002) og tilnefningar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands (2005).

Eftirfarandi er umsögn dómnefndar bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, en hana skipuðu Davíð Stefánsson, Sigurbjörg Þrastardóttir og Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir:

arleysialda„Verðlaunahandritið árið 2013 er óvenju vel heppnuð blanda af húmor, fornum bragarháttum og samfélagsádeilu. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegt handrit aflestrar – en um leið lífsins alvara að því leyti að höfundur gefur aldrei nokkurn afslátt af þeim skáldlegu kröfum sem hann augljóslega gerir til sjálfs sín. Þannig verður lesturinn á vissan hátt spennuþrunginn, eins og þegar hlýtt er á færan djasspíanista spinna lokkandi vef innan í skýrum hljómaramma, án þess að slá nokkurn tímann feilnótu eða sýna af sér minnsta hik eða efa.

Handritið snýst í rauninni í kringum leik með gamla bragarhætti og tilfinningin er sú að hin mikla þekking sem höfundur hefur á þeim hafi knúið hann til að nota þá – og ekki síst miðla þeim til yngri eyrna; hann tekur sér stöðu eins og hirðskáld eða höfuðskáld til forna og yrkir um samtíma sinn á fjölbreytilegan hátt.

Það er allan tímann skýrt að höfundur hefur framúrskarandi vald á bragarháttunum og hefur náð að flétta það vald saman við skarpa samfélagsádeilu og slynga orðaleiki sem gefa handritinu öllu einstakt gildi og dýpt.

Aukinheldur á sér stað í handritinu lífleg endurvinnsla á menningararfinum og endurvinnsla á hugmyndum okkar um þjóðskáldin og yrkisefni þeirra, ekki síst í kvæðaflokknum þar sem höfundur leikur sér með efni vísunnar Afi minn fór á honum Rauð / eitthvað suðrá bæi / sækja bæði sykur og brauð / sitt af hvoru tagi. Þar er að finna afar gott dæmi um hugmyndaflug verðlaunahöfundarins, þar sem hann notar efni þessarar einföldu og vel þekktu vísu, fer með hana í dýrðlega vegferð í gegnum bókmenntasöguna og hugsar með sér: Hvað ef skáldin hefðu haft þetta yrkisefni í farteskinu alla tíð?

Útkoman er ekki aðeins bráðskemmtileg heldur varpar hún nýju ljósi á eðli og uppbyggingu kvæða og ljóða sem við teljum okkur þekkja inn að beini – eins og alltaf gerist þegar brugðið er á leik með innihald og form. Leikurinn fer því ekki aðeins fram leiksins sjálfs vegna, heldur snýst hann í leiðinni um að afbyggja og endurbyggja menningararfinn, hið vel þekkta og fasta, af miklum kærleik og virðingu.

Önnur yrkisefni höfundar eru m.a. hrunið og allt sem því fylgir, en því eru gerð skil í löngu upphafsheimsósómakvæði, Jóhanna Guðrún, IceSave og svo auðvitað ástin, en hún kemur fyrir í hinu óborganlega kvæði Ég er að elska þig, sem fjallar um þá tilhneigingu Íslendinga að tjá sig í svokölluðu framvinduhorfi.

Verðlaunahandritið er þannig í senn angandi af fúkka og skínandi glansandi fægt; bæði ævafornt og svo módern að það verður alvarlega póstmódern. Það þyrlar rykinu af því sem við vissum ekki að við hefðum gleymt. Hér er ort af mikilli íþrótt, metnaði og einurð, en þó er leikurinn með tungumálið, kenningar og arfinn alltaf svo mikill að unun er að lesa.“

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *