[container]
Miðvikudaginn 15. maí gáfu meistaranemar í ritlist og hagnýtri ritstjórn út sýnisbókina Hvísl. Bókin er afurð námskeiðs meistaranemanna „Á þrykk.“ Um er að ræða rúmlega 200 blaðsíðna bók með sýnisverkum þrettán meistaranema í ritlist í ritstjórn fimm meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Leiðbeinandi er Guðrún Sigfúsdóttir ritstjóri. Í bókinni er ýmist að finna brot úr lengri ritsmíðum eða styttri verk, sem ætlað er að veita lesendum innsýn í hugarheim höfundanna. Lesendur geta gengið um bókina eins og hverja aðra sýningu; staldrað við hjá einu verki, gripið niður í annað, fetað ókunna slóð.
Meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands er ný námsleið og munu fyrstu meistaranemar í því námi útskrifast í vor. Umsjón með náminu hefur Rúnar Helgi Vignisson. Meistaranám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu hefur hins vegar verið í boði um nokkurra ára skeið og nýtur vaxandi vinsælda. Umsjón með náminu hefur Gunnþórunn Guðmundsdóttir.
Höfundarnir þrettán eru Ásdís Þórsdóttir, Björk Þorgrímsdóttir, Bryndís Emilsdóttir, Dagur Hjartarson, Daníel Geir Moritz, Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Kristian Guttesen, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Þór Tulinius, Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir. Ritstjórar eru: Almarr Ormarsson, Árni Þór Árnason, Björg Björnsdóttir, Dagný Berglind Gísladóttir og Ellen Klara Eyjólfsdóttir.
[/container]
Leave a Reply