Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Virtasta bókaforlag Þýskalands heitir Suhrkamp. Punktur. Fjölmörg forlög í Þýskalandi eru merk, eiga sér lengri sögu, státa af fleiri en einum Nóbelshöfundi eða selja fleiri bækur. En ekkert þeirra hefur sömu áru og Suhrkamp, forlagið sem Peter Suhrkamp stofnaði eftir stríð að tillögu Hermanns Hesse. Skömmu síðar kom Siegfried Unseld til forlagsins og hann tók við því undir lok sjötta áratugarins og stýrði því til dauðadags 2002.

Suhrkamp forlagið er menningarstofnun í sjálfu sér, ekki aðeins eins og öll forlög eru menningarstofnanir, heldur vegna þeirrar víðsýni og menningarlegu krafna sem forlagið gerir til höfunda sinna, innlendra sem erlendra. Mikilvægur þáttur í starfsemi Suhrkamp er nefnilega þýðingar mikilvægra erlendra samtímahöfunda og verka, auk útgáfu á þýskum samtímahöfundum og ekki síður fræðimönnum. Margir kunnustu höfundar 20. aldar, þýskir og annarra þjóða, fagurbókmennta og fræða, eru svokallaðir Suhrkamp höfundar og er það í sjálfu sér mikil viðurkenning fyrir höfund að geta skreytt ferilskrána með því. 1973 talaði George Steiner um sérstaka Suhrkamp-menningu.

Sérstaða Suhrkamp liggur kannski ekki aðeins í gæðum þeirra höfunda sem forlagið gefur út heldur einnig þeirri staðreynd að forlagið sinnir minna hagstæðum formum bókmennta eins og ljóða, leikrita og kvikmyndahandrita af miklu meiri djörfung og menningarlegu öryggi en meðalforlagið gerir og það sem meira er, margt ljóðskáldið, leikritahöfundurinn eða fræðimaðurinn hefur selst í stórum upplögum og það lengi því verkin rata aftur og aftur inn á leslista háskóla og jafnvel framhaldsskóla. Suhrkamp tilheyra einnig Insel-forlagið og Deutsche Klassiker Verlag auk annarra minni forlaga.

En eftir að Unseld lést 2002 hefur dregið til tíðinda. Hann eftirlét ekkju sinni Ullu Unseld-Berkéwicz sinn hluta forlagsins í formi sjálfseignastofnunar fjölskyldunnar og tók hún við stjórninni að honum látnum. Átök erfingja um eignarhluta og ekki síst nýr minnihlutaeigandi að forlaginu, Hans Barlach, barnabarn myndhöggvarans fræga Ernst Barlachs, sem hefur ýmislegt við stjórnina á forlaginu að athuga, hefur orðið til þess að nú stendur þessi menningarstofnun á barmi hyldýpis, svo gripið sé til eftirlætislíkingar þýskra blaðamanna um málið.

Málið virðist banalt utan frá; eftir flutning forlagsins til Berlínar frá Frankfurt 2010 leigði ekkjan forlaginu sína eigin villu að hluta til fyrir móttökur og útgáfufagnaði, en sína eigin villu hafði Unseld nýtt sjálfur meðan hann var við stjórnvölinn í Frankfurt. Hans Barlach fór með þetta fyrir dóm og vann málið þannig að ekkjan eigi að láta af störfum og að félagið verði nánast leyst upp. Slík sjálfstortímingarhvöt er sérkennileg að sjá og hafa margir höfundar og menntamenn tekið hinum kapítalíska minnihlutaeiganda vægast sagt illa og sett saman undirskriftalista og skrifað í mótmælaskyni um þessar aðferðir Barlachs. Ólíklegt má telja að þeir fylgi honum nái hann undirtökunum í forlaginu. En eignarétturinn virðist vera nægilega sterkur til að minnihlutaeigandi geti ekki aðeins náð undirtökum í því heldur einnig fái hann hreinlega leyfi til að leggja það í rúst, sennilega til að selja bestu bitana úr hræinu á eftir og ætlar hann kannski að fá fjárfestingu sína til baka þannig.

Hugsanlega er það hans góði réttur, en málinu var áfrýjað og fellur dómur í september í haust; en fari það á versta veg fyrir Suhrkamp og menningu þess þá má telja víst að stór hluti þýskra menntamanna túlki það sem kapítalískt skemmdarverk á einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðar sinnar; Barlach ætti kannski að hugsa um eftirmæli sín eftir að sá hópur hefur farið um hann höndum.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *