Að lesa Kardemommubæinn eins og skrattinn les Biblíuna

Bastían bæjarfógeti, Thorbjörn Egner, Haraldur Noregskonungur og Soffía frænka. Mynd: Dyreparken.no

Ekkert fær nú að vera í friði. Fyrir fáeinum dögum var haft eftir sænskum leikstjóra í útvarpi allra landsmanna, nánar tiltekið í kvöldfréttatímanum sem nú heitir víst Spegillinn, að Kardemommubærinn sé stórhættulegur börnum. Í lærðri grein í Aftenposten segir leikstjórinn, Sofia Jupither, að þetta leikrit barnabókarhöfundarins Thorbjörns Egner endurspegli kvenfyrirlitningu og einsleitni. Að sögn fór Sofia full tilhlökkunar að sjá sýninguna ásamt átta ára syni sínum. Sjálf fékk hún heilmikið sjokk og drengnum var verulega brugðið vegna þess sem fram fór á sviðinu. Undraðist barnið mjög að Soffía frænka skyldi ekki einungis sætta sig við að vera fórnarlamb mannráns heldur virtist hún beinlínis njóta þess að gerast ráðskona hjá ræningjunum. Til að girða fyrir skaðleg áhrif af textum hins ástsæla norska höfundar leggur Sofia til að verk hans verði tekin úr umferð og bönnuð.

Það er vel þekkt og alls ekki nýtt af nálinni að amast við því sem á einhvern hátt þykir óæskilegt og ekki fellur í kramið hverju sinni. Kató hinn gamli stagaðist á eyðileggingu ákveðinnar borgar í lok erinda sinna og Karþagó var rústað. Bókabrennur voru líka geysivinsælar hér í eina tíð og tíðkast enn. Nú á dögum er oftast um táknrænan gjörning að ræða til að hleypa illu blóði í vissa samfélagshópa. Dæmi um slíkt er þegar fanatískur trúarleiðtogi kveikir í Kóraninum ellegar Snorri í Betel kyndir undir þungarokksplötum.

Margir eru fljótir að rjúka af stað með eldspýtustokkinn eins og þessi ummæli Sofiu sýna. Þess má geta að orð hennar féllu í vægast sagt grýtta jörð hjá norskum. Varla skrifaði hún þetta í hita leiksins eins og það kallast núna þegar fólk missir stjórn á sér í athugasemdum netmiðla og eys óhroðanum úr sálarkoppum sínum og kirnum yfir allt og alla – „ja, fussum svei.“ Skyldi undirrótin þá vera að henni hafi fundist Soffía frænka táknmynd hinnar kúguðu konu? Skyldi hún um leið hafa verið að reyna að skora stig í mömmukeppninni miklu: Hvernig ala skal upp rétthugsandi syni.

Kardemommubærinn er ævintýri. Eins og öll góð ævintýri flytur hann boðskap. Mér finnst hann segja okkur að glæpir borga sig ekki og við eigum að vera góð hvert við annað. Ég styð jafnrétti kynjanna af heilum hug. Þótt verk Egners væru bönnuð myndi það ekki færa okkur einu hænufeti nær raunverulegu jafnrétti. Þess vegna þjónar vindhögg Sofiu í besta falli bara til að skemmta skrattanum.

Ásdís Þórsdóttir,
meistaranemi í ritlist


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *