Lærði sjálfur af eigin útskýringum

Student.is birti nýverið stutt viðtal við Eirík Rögnvaldsson, prófessor í íslenski málfræði. Hugrás endurbirtir hér viðtalið.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, er fæddur á Sauðárkróki árið 1955. Hann lauk stúdentsprófi af málabraut í Menntaskólanum á Akureyri vorið 1975 og B.A.-prófi frá HÍ í íslensku og almennri bókmenntafræði fjórum árum síðar. Þá hóf hann nám á kandídatsstigi í íslenskri málfræði auk þess sem hann tók nokkur námskeið í almennum málvísindum. Þessu námi lauk hann haustið 1982 en hefur kennt við Háskólann frá því í ársbyrjun 1981.

Eiríkur hefur kennt yfir 90 námskeið í skólanum og þá var hann brautryðjandi á sviði fjarkennslu innan íslenskuskorar haustið 1999. Þetta misserið kennir hann námskeiðin Aðferðir og vinnubrögð og Íslenska setningafræði og merkingarfræði. Þann tíma sem honum hefur gefist til rannsókna hefur hann nýtt í verkefni sem tengjast íslenskri máltækni sem áður var kölluð tungutækni. Nánari upplýsingar um Eirík má finna á heimasíðu hans.

Hvað einkennir skemmtilega nemendur og leiðinlega?

Skemmtilegir nemendur sýna áhuga, spyrja erfiðra spurninga, taka þátt í umræðum, eru ekki á Fésbók í tímum, dvelja langdvölum á kaffistofunni, koma á ráðstefnur, taka þátt í starfi Mímis … leiðinlegir nemendur gera ekkert af þessu.

Hvað er skemmtilegast við starfið?

Fjölbreytnin og fólkið. Það er gaman að byrja að kenna á haustin og gaman að ljúka kennslu á vorin. Maður kynnist miklum fjölda nemenda og margir þeirra verða vinir manns til frambúðar.

Hvernig ferðastu í skólann?

Ég geng. Það tekur þrjár og hálfa mínútu.

Hvað drekkurðu marga kaffibolla á dag?

Svona 8-10, lauslega áætlað.

Hver er skemmtilegastur/skemmtilegust á kaffistofunni?

Samkennarar mínir eru hver öðrum skemmtilegri og útilokað að gera upp á milli þeirra. En ég hefði ekki verið í vandræðum með það fyrir aldamótin – Sveinn heitinn Skorri var langskemmtilegastur.

Hvert er eftirminnilegasta atvikið úr kennslu?

Einu sinni var ég að útskýra eitthvað sem ég skildi ekki almennilega sjálfur – fyrr en ég hlustaði á mínar eigin útskýringar, þá rann upp fyrir mér ljós. Ég túlkaði þetta þannig að mér hefði tekist sérlega vel upp í kennslunni – en gleymdi reyndar að spyrja nemendurna hvort þeir væru einhverju nær.

Hver eru áhugamál þín utan kennslu?

Ég hef aldrei átt nein áhugamál svo að ég muni. Það væru þá helst smíðar – ég hef smíðað talsvert á heimilinu. Í sumar eignaðist ég hlut í sumarbústað norður í landi og hef núna mestan áhuga á að vera þar í afslöppun – breytist kannski í Hemúlinn í framtíðinni.

Ef þú værir ekki kennari, við hvað myndir þú þá vilja starfa?

Ætli ég myndi ekki bara vilja vera smiður.

Ef gerð yrði kvikmynd um þig, hver myndi leika þig?

Ef gerð væri kvikmynd um óþekktan háskólakennara á Íslandi segir það sig sjálft að það væri ekki fenginn neinn stórleikari í það, heldur einhver alls óþekktur sem ég get ómögulega vitað nafnið á.

Hvað er tungutækni?

Tungutækni, sem við viljum frekar kalla máltækni núorðið, snýst um hvers kyns samspil tungumáls og tölvutækni – t.d. leiðréttingarforrit fyrir stafsetningu, þýðingarforrit, talgervla, talgreiningu og margt fleira. Þetta er svið sem ég held að skipti sköpum fyrir framtíð íslensks máls.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *