„Hvað sérðu?“ segir listamaðurinn Mark Rothko við Ken aðstoðarmann sinn nýráðinn og stendur á öndinni þegar hann starir inn í djúp í nýjasta verks síns sem er í þann veginn að verða fullkomið. „Ég sé rautt“, segir aðstoðarmaðurinn í einlægni.
Rauði liturinn ríkir á sviðinu sem er stúdío listamannsins þar sem lífið sjálft er sett á svið og málverkin eru leiktjöldin. Rautt hefur margræða merkingu því á þeim lit byrja allir harmleikir. Hann táknar byltingu, blóð og holdið bæði að utan og innan og lífsviljann sem er að berjast á móti svarta litnum sem líka er uppistaða í verkunum og táknar hindranir, hrörnun og vonleysi. Ramminn sem striginn er strektur á markar raunveruleikaskynjunina og skilgreinir þau mörk sem samfélaginu og listinni eru sett og hann brotnar í átakamiklum samskiptum listamanns og aðstoðarmanns. Strektur striginn táknar stríða lund listamannins, litagrunnurinn er spegillinn sálarinnar og dúkurinn sem hann stendur á þegar hann þekur strigann er himinhvolfið. Með list sinni skilgreinir hann hið handanlæga, eilífðina og hlutverk málverksins er hvorki meira né minna en það að svara ítrustu spurningunum um manninn.
Sköpunarkraftur myndlistamannsins er nátengdur geðsveiflum hans og sjálfsálit hans á það til að ná kosmískri vídd og hann þykist ekki þurfa á svarinu frá aðstoðarmanninum að halda. En hann missir sig þegar það kemur og áhorfandann grunar að það sé vegna þess að hann var ekki sjálfur alveg viss í sinni sök. Vandinn sem þessi listamaður stendur frammi fyrir er sá að hann er háður aðstoðarmanni sínum og um leið öðrum sem horfa á og kaupa list hans, en flesta þeirra fyrirlítur hann og mest þá sem geta borgað best. Það eru undarleg ósköp að amerískt kapital virðist oft sækja einna mest til þeirra sem hata það mest.
Aðalpersónan er gyðingur, fæddur í Rússlandi, sem hefur gert það gott í listamannakreðsum í New York. Hann hefur sökt sér í verk Nietzsches, Freuds og Jungs um frumhvatirnar og mýturnar sem ráða ríkjum á bak við ytri ásýnd hlutanna. Hann er abstrakt expressionisti en sú stefna leysti geometríska abstaksjón og súrrealimsa af hólmi, en stendur nú (á sjöunda áratugnum) frammi fyrir því að popplistin yfirborðslega er að koma í staðinn. Mark Rothko féll fyrir eigin hendi árið 1970 tæplega sjötugur að aldri, en þá hafði hann bæði misst álitið á sjálfum sér og list sinni.
Leikritshöfundurinn John Logan er af írsku bergi brotinn en fæddur í Bandaríkjunum árið 1961. Hann skrifar einnig kvikmyndahandrit og lagði út í heilmikla rannsóknarvinnu á ævi og list Rothkos. Sjónrænt innsæi hans skilar sér vel í þessu verki og ekki spillir að leikstjórinn er sjálfur vanur kvikmyndaleikstjóri. Í samspili leiktjalda og samtala listamanns og aðstoðarmanns, sem verður alter ego Rothkos, eru leikhúsgestir leiddir inn í heim málarans sem starir í leiðslu út í salinn þar sem listaverkið er að fæðast. Svo heillaður er þessi listamaður af köllun sinni að það stappar nærri brjálsemi og hann kyndir undir tilfinningalífinu og sköpunarþránni með óhófi í mat, áfengi og tónlist og með því að niðurlægja aðstoðarmanninn. Úr litum og formum vill hann skapa æðri heim, fullkominn heim, eilíf verðmæti eins og gullgerðarmennirnir á miðöldum. Og það tekst næstum því hjá honum, en ekki á forsendum heimsyfirráða heldur á forsendum harmleiksins sjálfs. Það er hinn stóri sannleikur sem ber uppi verkið, gerir aðalpersónuna trúverðuga og tíminn í leikhúsinu líður fljótt. Í kaupbæti fá leikhúsgestir góðan skammt af listaheimspeki og djúpsálarfræði.
Smám saman kemur það í ljós sem rekur þessa órólegu sál áfram á listabrautinni og um leið fær maður innsýn í þverstæðurnar í list hans. Í raun er hann að búa til helgimyndir, íkona sinnar eigin sannleiksleitar, en hann lendir í því að búa til dýra skreytilist fyrir auðkýfinga. Í verkinu er smám saman er undið ofan af hrokanum og sjálfsblekkingunni og þá kemur gullið í ljós um leið og svartur verður ofan á. Hér er um að ræða ekta harmleik og hann gengur upp sem slíkur.
Þetta verk sem hefur farið sigurför á fjölum margra leikhúsa var frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins 21. september s.l. Það var nokkuð öruggur leikur að fá þrautreyndan symbolista í leikhúsi og kvikmyndum, Kristínu Jóhannesdóttur til að leikstýra því. Hún brilleraði á sama sviði s.l. vor með uppsetningu sinni á leikritinu Beðið eftir Godo eftir Samuel Becket og því mátti vænta mikils af henni í þetta sinnið einnig og hún stóð undir væntingunum. Leikararnir tveir Jóhann Sigurðarson og Hilmar Guðjónsson komust báðir vel frá sínum hlutverkum.
Greinin var áður birt í Morgunblaðinu.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
Leave a Reply