Eitt af því sem skýrir hið mikla fylgi sitjandi forseta, sem átti reyndar í vök að verjast fyrir ekki mjög löngu síðan, er að kosningarnar voru málefnalegar, þær snerust í grundvallaratriðum um málefni, ekki persónur. Þetta hefur Ólafur líka nefnt, en óvíst er hversu mikið mark hefur verið tekið á því. Hefur hann þó líkast til rétt fyrir sér í þessu efni. Á yfirborðinu var vissulega um persónukjör að ræða og persónulegir eiginleikar skiptu vafalaust máli, en það nægir ekki til að skýra niðurstöður kosninganna. Hér verður varpað fram nokkrum tilgátum um hvaða atriði skipti mestu máli í því sambandi. En vitaskuld þyrfti að ræða þær og greina frekar en hér er gert.
Í fyrsta lagi andúðin á Evrópusambandinu, en Ólafur hefur lýst sig andvígan aðild Íslands að því. Meðal Íslendinga ríkir, að því er virðist, nokkuð djúpstæð tortryggni gagnvart Evrópusambandinu. Margt veldur þessu. Ísland er tiltölulega nýfrjálst ríki sem hefur staðið í langvinnri baráttu við nágrannaríkin um fullveldi og yfirráð yfir auðlindum, og margir eru ófúsir að taka skref sem virðist fela það í sér að láta sjálfræðið af hendi til þess sem menn upplifa sem fjarlægt skrifræði. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru átti að hjálpa landinu út úr kreppunni og var þar einkum horft til reynslu Finnlands og Svíþjóðar. En umsóknin fer á hraða snigilsins og á meðan hefur Ísland komist út úr efnahagskreppunni en Evrópusambandið aftur á móti gengið í gegnum töluverðar breytingar, Evran skapað meiri vanda en hún leysir og allt í óvissu um þau efni. Í huga alls almennings er því fullkomlega óljóst hvað Ísland hefur að gera í Evrópusambandið. En Icesave-deilan skiptir hér líka máli, sem og makrílveiðarnar og mögulegar refsiaðgerðir, afstaða Evrópuþjóðanna til Íslands meðan á hruninu stóð, meint ásælni í fiskimiðin og orkuauðlindirnar og ýmislegt fleira. Af þessum ástæðum er meirihluti þjóðarinnar, a.m.k. eins og sakir standa, einfaldlega ekki tilbúinn til að skoða fulla aðild að Evrópusambandinu sem raunhæfan möguleika. Kostir aðildar virðast litlir en gallarnir miklir.
Í öðru lagi lýðræðisvakningin, sem Ólafur hefur kallað svo og lagt áherslu á. Hér er á ferðinni endurómur frá búsáhaldsbyltingunni og Icesave-kosningunum. Hin mikla umræða um beint lýðræði, þreyta kjósenda gagnvart flokkadráttunum á Alþingi, flokksræðinu, stjórnmálaelítunni, jafnvel þingræðinu og fulltrúalýðræðinu sem slíku, ásamt óskinni um að fá að hafa eitthvað að segja um mikilvæg mál; allt þetta speglast í áherslu Ólafs á þjóðina sem uppsprettu valdsins. Það vill svo til að forsetinn er þjóðkjörinn, atkvæðavægi er jafnt á öllu landinu, ólíkt því sem gerist í þingkosningum, og boðskapur búsáhaldabyltingarinnar um beint lýðræði ásamt óskinni um sterkan leiðtoga kristallast í þjóðkjörnum forseta með stefnu sem fellur að skynjun almennings á aðstæðum landsins.
Í þriðja lagi hið pólitíska eðli forsetaembættisins. Það hefur verið viðtekin söguskoðun að forsetaembættið væri pólitískt hlutlaust, en þessar kosningar taka af allan vafa um að svo er ekki. Hér reyndar ekki átt við að embættið sé flokkspólitískt, heldur pólitískt í þeim skilningi að það endurspeglar „vilja fólksins“ og þar með tiltekin sjónarmið, eins og rakið er að ofan. Fyrri tveir forsetar, sem taldir hafa verið hlutlausir, voru þegar grannt er skoðað, einstaklingar sem tengdust vinstrisinnuðum stjórnmálaöflum með einum eða öðrum hætti, en sátu í embætti á tímum þegar sjálfstæðis- og framsóknarmenn fóru jafnan með völd í landinu. Þeir voru sem sé vinstrimenn í forsetastóli á valdatíma hægrimanna. Kosturinn sem þeir völdu var pólitískt hlutleysi, enda ekki stjórnmálamenn heldur menningarfrömuðir. En af því leiðir ekki að embættið sé ópólitískt. Það sýnir sig einmitt að það er rammpólitískt og sú afstaða helsta mótframbjóðandans, að forsetaembættið ætti að vera hlutlaust, virðist ekki eiga hljómgrunn meðal kjósenda og sýnist ekki lengur valkostur í stöðunni. Nú virðist forsetaframbjóðandi þurfa að hafa almenna pólitíska stefnu og vera reiðubúinn að taka mið af henni við embættisstörf.
Niðurstaða forsetakosninganna virðist því vera sú að Ólafur Ragnar Grímsson er um þessar mundir pólitískur forystumaður þjóðarinnar, hvort sem mönnum líkar það betur eða ver. Hann hefur svarað kalli tímans. Hann hefur beint umboð frá þjóðinni til að tala fyrir tilteknum almennum stefnumálum. Kosningarnar, sem eru í grundvallaratriðum þjóðaratkvæðagreiðsla, hafa staðfest þann skilning á embættinu. Forystumenn stjórnmálaflokkanna, þingmenn og aðrir sem koma nálægt stjórnmálastarfi, kunna að hafa aðrar óskir, en það breytir ekki þeirri mynd sem blasir við að afloknum kosningum. Ekki er þó víst að sú mynd sé komin til að vera. Næsta stóra málið, stjórnarskrármálið, kann að verða prófsteinn á hana.
Leave a Reply