Ítalski bókmenntafræðingurinn Franco Moretti hefur farið fyrir þeim hópi bókmenntafræðinga sem hafa viljað hverfa frá „smásmugulegri“ textagreiningu og skoða þess í stað stóra samhengið. Með það að leiðarljósi hefur hann nýtt sér margvíslega tölfræði, kort, töflur, línurit, stærðfræðilegar skýringarmyndir—og orðið fyrir vikið nokkuð umdeildur. Í fræðum sínum fjallar Moretti einkum um skáldsöguna í ljósi heimsbókmenntahugtaksins, sem er um margt miðlægt í bókmenntafræðum samtímans og hefur orðið tilefni margvíslegra skoðanaskipta. Í hnitmiðaðri grein frá árinu 2006, „Þróun, heimskerfi, heimsbókmenntir,“ heldur Moretti því einmitt fram að sögulega sé í raun um að ræða tvö ólík heimsbókmenntaskeið, sem að einhverju leyti útskýri vandann við að skilgreina hugtakið.
Skilin er að finna á átjándu öld þegar hinn alþjóðlegi kapítalíski bókamarkaður verður til undir forystu eða hreinlega stýringu Breta og Frakka. Það er og umfjöllunarefni Morettis í Atlas evrópsku skáldsögunnar 1800-1900 þar sem hann lýsir því hvernig þessi tvö heimsveldi útfæra form skáldsögunnar. Útbreiðsla hennar um heiminn er ekki fólgin í öðru en því að aðrar þjóðir fylla þetta fyrirframmótaða form og fléttu með eigin samhengi og stíl (einu undantekningarnar eru Rússland á seinni hluta 19. aldar og Suður-Ameríka á seinni hluta þeirrar tuttugustu). Frá þessu almenna sjónarhorni eru skáldsögur „þjóðskáldsins“ Halldórs Laxness ekki annað en íslenskt deig í bresk-frönsku móti. Moretti telur kenningar Immanuels Wallerstein um heimskerfi (e. world-system) best fallnar til að greina og skýra þetta ójafna en einsleita bókmenntakerfi. Aftur á móti telur hann þær koma að litlum eða engum notum þegar skýra beri heimsbókmenntir fyrir tíð hins alþjóðlega bókamarkaðar. Til að útskýra heimsbókmenntirnar fyrri grípur Moretti áhugavert nokk til þróunarkenningar Charles Darwin. Andstætt kenningum Wallersteins sem útskýra einsleitni þá túlkar þróunarkenningin fjölbreytni. Dýra- og plöntutegundir þróast í skjóli hver frá annarri og klofna með óvæntum stökkbreytingum í ný fyrirbæri. Með nokkurri einföldun mætti útskýra sérstöðu Íslendingasagna með þetta að leiðarljósi, þar sem þær þróast næsta einangraðar á bókmenntalegri Galápagos-eyju. Hefðu þær aftur á móti verið ritaðar á nítjándu öld—þegar skáldsagan fer einmitt að láta á sér kræla hérlendis—hefðu þær væntanlega verið skrifaðar með hefðbundnum hætti inn í bresk-franska mótið. Eflaust hefur þessi tvískipting Morettis útskýringargildi fyrir sögu íslensks kveðskapar ekki síður en prósa, þar sem alþjóðleg viðmið leysa af hendi séríslensk eða –norræn form.
Freistandi er að ljúka þessum vangaveltum um kenningar Morettis og mögulegt skýringargildi þeirra fyrir íslenskar bókmenntir og sögu þeirra með því að leiða hugann eilítið að nýlegri hallarbyltingu reyfarans á íslenskum bókamarkaði. Moretti lýsir nefnilega í „Þróun, heimskerfi, heimsbókmenntir“ meðal annars áhrifum einstefnu frá miðju til jaðars í heimsbókmenntunum nýju: „Þessi ójafna dreifing innleiddi stórkostlega einhæfni í bókmenntakerfinu: bylgja eftir bylgju af bréfaskáldsögum, eða sögulegum skáldsögum, eða ráðgátum, réði lögum og lofum alls staðar—ósjaldan, líkt og farið er með bandarískar hasarmyndir í dag, með meiri yfirburðum í smærri mörkuðum jaðarmenninga en í heimalöndunum.” Ekki þarf að fjölyrða um stöðu Hollywood-mynda hérlendis, en því verður heldur varla á móti mælt að glæpasagan hafi lagt undir sig bæði frumsamdar íslenskar skáldsögur sem og þýðingar á ótrúlega skömmum tíma. Glæpasagan er fyrst og fremst bresk-bandarísk undirgrein skáldsögunnar, en ég hef á tilfinningunni að þáttur glæpasagna í íslenskri bókmenntaútgáfu sé þegar orðinn umtalsvert meiri en í „heimalöndunum“ Englandi og Bandaríkjunum. Auðvitað þyrfti að rökstyðja þá tilfinningu með einmitt slíkum tölfræðilegum samanburði sem Moretti kallar eftir í bókmenntafræðum. Kannski aðferðafræði hans séu alls ekki svo langsótt?
Björn Norðfjörð,
lektor í kvikmyndafræði
ES. Hvorki Félag íslenskra bókaútgefenda né Íslensk útgáfuskrá flokka skáldsögur í undirgreinar, en þekki lesendur til talninga sem byggðar eru á slíkri flokkun mættu þeir gjarnan upplýsa um slíkt hér að neðan. Forvitnilegt gæti líka verið að heyra af rannsóknum í anda Morettis á íslenskum bókmenntum.
Leave a Reply