Nú er Öðlingsátakið á enda, þar sem landsmenn eða kannski fyrst og fremst hópur femínista „lækaði“ hverja greinina á fætur annarri á Facebook. Öðlingsátakið bauð okkur upp á þá skemmtilegu nýbreytni að karlmenn tjáðu sig um jafnréttismál og þannig var athygli vakin á þeirri staðreynd að jafnrétti kynjanna er ekki einkamál kvenna heldur eitthvað sem samfélagið í heild þarf að bregðast við. Umræða um bága stöðu jafnréttismála og önnur samfélagsmein er vissulega alltaf jákvæð og pistlarnir voru almennt góðir en það er vert að velta átakinu sem slíku aðeins fyrir sér.
Helsta vandamál átaksins tel ég liggja í yfirskrift þess og framsetningu, þar sem einn karlmaður á dag fékk andlitsmynd af sér á vísi.is og borða yfir sem á stóð „Öðlingurinn“. Hingað til hafa þeir, eða kannski frekar þær, sem fjalla um jafnréttismál á opinberum vettvangi ekki verið kallaðar öðlingar heldur tussur. Jafnréttisátakið „Tussan“ hefði því verið miklu eðlilegra, auk þess sem andlitsmynd af karlmanni með borða sem á stæði ,,Tussan“ hefði afhjúpað hvernig talað er um konur sem berjast fyrir því að vera metnar út frá einhverju öðru en kynfærunum og þeim eiginleikum sem þeim eru ætlaðir vegna þeirra.
Annar galli á yfirskrift verkefnisins er sú hugmynd að þeir karlmenn sem tjái sig opinberlega um jafnréttismál séu sérstakir öðlingar, einhver annáluð ljúfmenni sem af góðmennsku sinni taki upp hanskann fyrir veikara kynið. Öðlingur er sá sem er göfuglyndur, góðmenni sem jafnvel gerir meira en hægt er að ætlast til af honum. Það er ekki hægt að gera þá kröfu að aðrir séu öðlingar. Við getum ekki höfðað til skynsemi náungans og farið fram á að hann sýni af sér öðlingsskap, það er einfaldlega ekki sanngjörn krafa. Það er svolítið eins og að fara fram á að einhver leggi lykkju á leið sína til að gera góðverk eða greiða sem væri fallegt og lofsvert og þess virði að þakka sérstaklega fyrir það. Með því að sæma þá karla sem tóku þátt í átakinu nafnbótinni „öðlingur“ er gefið í skyn að þeir hafi gert einmitt þetta, lagt lykkju á leið sína til að gera góðverk. Við ættum ekki að þurfa að líta á það sem góðverk eða greiða þegar einhver beitir sér gegn misrétti í samfélaginu. Það á ekki að þurfa að setja málið upp með þeim hætti að konur þiggi ölmusu frá karlmönnum, heldur ætti hver og einn einstaklingur í þjóðfélaginu að sjá hagsmunum sínum borgið ef misrétti væri upprætt, þó ekki væri nema fyrir þær sakir að við viljum ekki að misrétti beinist gegn þeim sem standa okkur næst.
Að auki mætti halda því fram að pistlaskrif um femínisma séu ekki sérlega róttæk aðgerð og að ef til vill hafi viðtakendahópurinn fyrst og fremst verið skoðanasystkini þeirra karla sem tóku þátt í verkefninu. Átakið hafi því ekki endilega verið almenn vitundarvakning um stöðu jafnréttismála heldur skrif femínista um femínisma fyrir aðra femínista.
Í lok verkefnisins er vert að velta því fyrir sér hverju það hefur áorkað. Eftir því sem ég kemst næst erum við komin með lista yfir þrjátíu öðlinga, glaðbeitta karla sem tóku þátt í umræðu um jafnréttismál þar sem raddir þeirra heyrast alltof sjaldan, og svo ónefndar tussur í þúsunda tali sem verður líklega seint hampað í fjölmiðlum fyrir sams konar aðgerðir og verða líklega enn um sinn að sætta sig við að vera bara tussur.
Emma Björg Eyjólfsdóttir
meistaranemi í heimspeki
Leave a Reply