,,Helsta vandamál átaksins tel ég liggja í yfirskrift þess og framsetningu, þar sem einn karlmaður á dag fékk andlitsmynd af sér á vísi.is og borða yfir sem á stóð „Öðlingurinn“. Hingað til hafa þeir, eða kannski frekar þær, sem fjalla um jafnréttismál á opinberum vettvangi ekki verið kallaðar öðlingar heldur tussur." Mynd: graur codrin.
,,Helsta vandamál átaksins tel ég liggja í yfirskrift þess og framsetningu, þar sem einn karlmaður á dag fékk andlitsmynd af sér á vísi.is og borða yfir sem á stóð „Öðlingurinn“. Hingað til hafa þeir, eða kannski frekar þær, sem fjalla um jafnréttismál á opinberum vettvangi ekki verið kallaðar öðlingar heldur tussur.” Mynd: graur codrin.

Nú er Öðlingsátakið á enda, þar sem landsmenn eða kannski fyrst og fremst hópur femínista „lækaði“ hverja greinina á fætur annarri á Facebook. Öðlingsátakið bauð okkur upp á þá skemmtilegu nýbreytni að karlmenn tjáðu sig um jafnréttismál og þannig var athygli vakin á þeirri staðreynd að jafnrétti kynjanna er ekki einkamál kvenna heldur eitthvað sem samfélagið í heild þarf að bregðast við. Umræða um bága stöðu jafnréttismála og önnur samfélagsmein er vissulega alltaf jákvæð og pistlarnir voru almennt góðir en það er vert að velta átakinu sem slíku aðeins fyrir sér.

Helsta vandamál átaksins tel ég liggja í yfirskrift þess og framsetningu, þar sem einn karlmaður á dag fékk andlitsmynd af sér á vísi.is og borða yfir sem á stóð „Öðlingurinn“. Hingað til hafa þeir, eða kannski frekar þær, sem fjalla um jafnréttismál á opinberum vettvangi ekki verið kallaðar öðlingar heldur tussur. Jafnréttisátakið „Tussan“ hefði því verið miklu eðlilegra, auk þess sem andlitsmynd af karlmanni með borða sem á stæði ,,Tussan“ hefði afhjúpað hvernig talað er um konur sem berjast fyrir því að vera metnar út frá einhverju öðru en kynfærunum og þeim eiginleikum sem þeim eru ætlaðir vegna þeirra.

Annar galli á yfirskrift verkefnisins er sú hugmynd að þeir karlmenn sem tjái sig opinberlega um jafnréttismál séu sérstakir öðlingar, einhver annáluð ljúfmenni sem af góðmennsku sinni taki upp hanskann fyrir veikara kynið. Öðlingur er sá sem er göfuglyndur, góðmenni sem jafnvel gerir meira en hægt er að ætlast til af honum. Það er ekki hægt að gera þá kröfu að aðrir séu öðlingar. Við getum ekki höfðað til skynsemi náungans og farið fram á að hann sýni af sér öðlingsskap, það er einfaldlega ekki sanngjörn krafa. Það er svolítið eins og að fara fram á að einhver leggi lykkju á leið sína til að gera góðverk eða greiða sem væri fallegt og lofsvert og þess virði að þakka sérstaklega fyrir það. Með því að sæma þá karla sem tóku þátt í átakinu nafnbótinni „öðlingur“ er gefið í skyn að þeir hafi gert einmitt þetta, lagt lykkju á leið sína til að gera góðverk. Við ættum ekki að þurfa að líta á það sem góðverk eða greiða þegar einhver beitir sér gegn misrétti í samfélaginu. Það á ekki að þurfa að setja málið upp með þeim hætti að konur þiggi ölmusu frá karlmönnum, heldur ætti hver og einn einstaklingur í þjóðfélaginu að sjá hagsmunum sínum borgið ef misrétti væri upprætt, þó ekki væri nema fyrir þær sakir að við viljum ekki að misrétti beinist gegn þeim sem standa okkur næst.

Að auki mætti halda því fram að pistlaskrif um femínisma séu ekki sérlega róttæk aðgerð og að ef til vill hafi viðtakendahópurinn fyrst og fremst verið skoðanasystkini þeirra karla sem tóku þátt í verkefninu. Átakið hafi því ekki endilega verið almenn vitundarvakning um stöðu jafnréttismála heldur skrif femínista um femínisma fyrir aðra femínista.

Í lok verkefnisins er vert að velta því fyrir sér hverju það hefur áorkað. Eftir því sem ég kemst næst erum við komin með lista yfir þrjátíu öðlinga, glaðbeitta karla sem tóku þátt í umræðu um jafnréttismál þar sem raddir þeirra heyrast alltof sjaldan, og svo ónefndar tussur í þúsunda tali sem verður líklega seint hampað í fjölmiðlum fyrir sams konar aðgerðir og verða líklega enn um sinn að sætta sig við að vera bara tussur.

Emma Björg Eyjólfsdóttir
meistaranemi í heimspeki


Comments

19 responses to “,,Tussan“”

  1. Frábær pistill, takk fyrir mig. Þú ert skynsöm tussa.

  2. Ósk Gunnlaugsdóttir Avatar
    Ósk Gunnlaugsdóttir

    Mér finnst vera gert lítið úr því sem þetta átak stendur fyrir, sérstaklega með því að koma því ekki einu sinni á framfæri í þessari grein.

  3. Já, þannig séð allt satt og rétt. Orðbragðið sem fólk (menn) leyfa sér þegar feministar voga sér að halda fram sjónarmiðum sínum er vægast sagt ógeðslegt. Og jája, kannski er nafnbótin “öðlingur” ofrausn fyrir það lítilræði að halda fram augljósum sannindum um stöðu kynjanna og hvert ber að stefna.

    En samt. Kannski erum við bara einmitt stödd þarna. Kannski er þetta bara sú gulrót sem þarf. Og kannski er alveg óþarfi að efast um heilindi pistlahöfunda og róttækni hugmyndasmiðsins, allavega svona opinberlega 🙂

    Og það er alveg örugglega alveg fánýtt að tala um hvernig hlutirnir “ættu” að vera, þegar einhver er að reyna að breyta því hvernig þeir “eru”.

    Dropinn holar steininn.

  4. Salvör V. Avatar
    Salvör V.

    Ég er ein af þeim sem fagnaði Öðlingsátakinu því allt tal um jafnrétti og mikilvægi þess er jákvætt, sama hver tjáir sig, kona, karl, á “mjúkan” eða “róttækan” hátt. Allt þetta mun gagnast okkur á einhvern hátt, finnst mér.
    Engu að síður á gagnrýni um átakið á líka fullan rétt á sér, eins og gagnrýni á allt annað hvað það varðar.
    Gagnrýni jafngildir ekki bannfæringu eða að eitthvað hafi í sjálfu sér verið gagnslaust eða óþarft. Gagnrýni er tæki til að skapa vettvang fyrir samtal ekki tæki til persónulegrar árásar eins og margir álíta gjarnan.
    Og mér finnst mikið sannleiksgildi í þessi staðhæfingu: “Hingað til hafa þeir, eða kannski frekar þær, sem fjalla um jafnréttismál á opinberum vettvangi ekki verið kallaðar öðlingar heldur tussur.”

  5. Þótt að karlrembur og þess konar sauðir tala um konur í kvenréttindabaráttu sem tussur finndist mér samt sorglegt að yfirfæra heitið yfir á þá karla sem eru í sömu baráttu, auðvita ætti þetta að vera öfugt farið og kvenréttindabaráttufólk allt ætti að eiga öðlingstitil. Ég er líka ósammála þessari skilgreiningu að öðlingur þurfi endilega að eiga inni fyrir titlinum með því að leggja lykkju á leið sína til að gera góðverk. Ég sé ekki betur en að þetta hafi verið mjög svo auðveldir pistlar hvað varðar efnistök og móral þeirra, auðvelt verk sem hefur örugglega gífurleg áhrif á þá drengi sem gætu litið upp til þeirra.
    Það er líklega ekki “kúl” fyrir marga menn og stráka að vera feminista, það að hafa svona áberandi átak í þennan tíma gerir örugglega gríðarlega gott í því skyni að draga þá úr skápnum. Vonandi fara þeir núna að hlusta á þessar “tussur” sem hafa verið að dreifa þessum boðskap fyrir áður daufum eyrum. Kannski sorglegt að það þurfi karla til að brjóta þá múra en það hlýtur að teljast framför.

  6. Stefanía Bjarney Avatar
    Stefanía Bjarney

    Góður punkturinn um að þeir sem fengu öðlingstitilinn þennan mánuð eru einmitt ekki endilega öðlingar (því þeir gerðu það sem ætti að vera sjálfsagt). Ég tel þó að ef til er hópur A sem telur ákveðið verk X yfirleitt unnið af tussum, þá hljóti það a.m.k. að vekja A til umhugsunar ef einstaklingur B (sem A telur ekki til tussa) er kallaður góður (eða enn sterkara, öðlingur) fyrir að vinna verkið. Ef svo er þá skilaði átakið einhverju.

    Hins vegar er ég sammála því að áhrifaríkt gæti verið (og næsta skref þessa pistilts er kannski einmitt það) að taka hinn pólinn í hæðina; að kalla “öðlingana” “tussur” í þeim tilgangi að vekja athygli fáránleika þess að kalla “tussurnar” “tussur”.

  7. Sigurbjörg Helgadóttir Avatar
    Sigurbjörg Helgadóttir

    Flott grein Emma. Ég er ein af þessum sem „lækaði“ hverja greinina á fætur annarri í þessu átaki. Ég vil líka meina að ég reyni eftir fremsta megni að vera vakandi fyrir öllu misrétti og gera mitt besta í að uppræta það en en ég lít ekki á það sem verk öðlings heldur sjálfsagðan hlut. Það hefði verið nær að titla hina ágætu karlmenn sem skrifuðu pistla feminista í stað öðlinga.

  8. Kristín Avatar
    Kristín

    Ég var ein af þeim sem “féll í þá gryfju” að fagna átakinu og var ánægð með framtakið sem og flest alla pistlana þó þeir hafi verið misgóðir.
    Hins vegar velti ég því fyrir mér ákkúrat þessu, hvers vegna við erum ennþá stödd á þeim stað að fagna öllu því sem kemur frá karlmönnum en úthrópa þær konur sem tala fyrir sama málstað. Baráttan ætti því frekar að snúast um að fagna konum sem tala fyrir jafnrétti á sama hátt og við fögnum karlmönnum.
    Væri gaman að sjá sams konar átak, pistla frá bæði konum og körlum sem skrifa undir dulnefni og kanna hvort einhver munur verði á viðtökunum þegar fólk veit ekki hvort kynið það er sem skrifar.

  9. Það sem er ósanngjarnt í gagnrýni þinni á átakið Öðlingurinn 2011 er að þú leitast ekki við að segja frá forsendum og hugmyndafræði höfundar þessa átaks: Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur. Þetta er til að mynda langtímaverkefni og stóð einnig yfir með öðrum hætti árið 2011. Ég held að markmiðið sé að reka karla út á ritvöllinn eða til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Einn vandinn í jafnréttisbaráttunni á Íslandi er að karlar hafa meira eða minna verið áhugalausir og það tekur þá eflaust áratug að hugsa málið til enda, fræðast og menntast. Öðlingurinn er bara verkefni í hjá Þórdísi Elvu og henni tókst að fá stóran fjölmiðil í lið mér sér. Það er nokkuð gott. Þú segir að enginn lesi nema þeir sem þegar eru frelsaðir. En hvað með ráðstefnur um jafnréttismál, þar sést varla karlmaður nema hann hafi verið sendur. Átakið þykist ekki vera róttækt og það er þáttur í tilraun til vitundarvakningu. Ég held að dulda markmiðið sé að fá karla sem lesa aldrei neitt um jafnfréttismál til að lesa, þetta er í raun beita og byrjunarpróf, agn á öngli, en átti alls ekki að vera bylting. Ef þú lest hvað Þórdís Elva hefur sagt um það, þá stenst það. / Þetta er innleg frá einum sem tók þátt í átakinu, en vonandi svarar Þórdís sjálf, þetta er fín umræða, með bestu kveðjum,

  10. Bergsteinn Sigurðsson Avatar
    Bergsteinn Sigurðsson

    Í lok þessa pistils er spurt:
    “Í lok verkefnisins er vert að velta því fyrir sér hverju það hefur áorkað.”

    Ég sé ekki betur en að greinarhöfundur svari því fyrir sitt leyti í inngangi:
    Öðlingsátakið bauð okkur upp á þá skemmtilegu nýbreytni að karlmenn tjáðu sig um jafnréttismál og þannig var athygli vakin á þeirri staðreynd að jafnrétti kynjanna er ekki einkamál kvenna heldur eitthvað sem samfélagið í heild þarf að bregðast við.”

  11. Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson Avatar
    Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson

    Yfirskrift átaksins tel ég hafa verið þarfan lið í að bæta almannaálit á málstaðnum. Þú gerir það ekki með því að „afhjúpa hvernig talað er um konur“, enda flest fólk meðvitað þar um, heldur með því að innprenta í fólk þann hugsanahátt sem eðlilegastur væri að okkar mati.

    Ég hef lengi haldið því fram að hluti af því sem knýr fram hið neikvæða í umræðunni sem merkimiðinn sem fylgir titlinum feministi. Stjórnarskrárvarið jafnræði einstaklinga beggja kynja ætti í raun að vera normið í samfélaginu og þyrfti þar af leiðandi ekkert sérstakt heiti. Þá væri gaman að sjá hvernig umræðan snérist ef tekið væri upp á því að kalla þá sem í taldir eru standa í vegi fyrir jafnræði kynjanna maskúlínista eða sekúlarista.

    Eitt er samt víst, að með því að impra á viðurnefnum eins og tussa eða kunta gerirðu fátt annað en ýta undir frekari notkun þeirra.

  12. Bergsteinn Sigurðsson Avatar
    Bergsteinn Sigurðsson

    Greinarhöfundur hefði líka gjarnan mátt halda til haga tilurð yfirskriftar átaksins fyrir lesendur (Þórdís Elva hefur skýrt hana opinberlega): hún er vísun í viðtal í við Guðrúnu Jónsdóttur (gjarnan kennd við Stígamót) sem kallaði eitt sinn eftir þátttöku karla í jafnréttisumræðunni með þeim orðum að þeir þyrftu að finna í sér “öðlinginn”. Yfirskriftin er því hugsuð sem virðingarvottur við jafnréttisfrömuð, frekar en sem kóun með körlum (þótt deila megi um hversu vel það hefur lukkast).

  13. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
    Eva Hafsteinsdóttir

    Ég er alveg sammála Emmu. Það sem hún bendir á í pistli sínum er hvernig umræðan um þá sem hafa sig í frammi í jafnréttismálum er ójöfn, þar sem konur eru yfirleitt úthrópaðar með neikvæðum formerkjum en körlum er hampað á jákvæðu nótunum. Dæmið sem hún notar er öðlingsátakið, enda sýnir það ljóst fram á hvernig þessum málum er háttað í þjóðfélagsumræðunni. Ég get þó engan veginn séð að hún sé á nokkurn hátt að gera lítið úr því sem þetta átak stendur fyrir, heldur tekur hún fram að “umræða um bága stöðu jafnréttismála og önnur samfélagsmein [sé] vissulega alltaf jákvæð” og að pistlarnir hafi almennt verið góðir. Þetta er aftur á móti hennar innlegg í jafnréttisumræðuna, og það að hún komi í kjölfar öðlingsátaksins tel ég einmitt bera vott um það að átakið sjálft hafi skilað einhverju, þ.e. skilað frekari umhugsun og fjölbreyttari umræðum um þetta málefni og þann tvískinnung sem vill oft fylgja með eftir því hver á hlut að máli.

  14. Vandinn er samt sá að pistillinn er smá spark í átakið Öðlingurinn sem karlar tóku þátt í og því má ef til vill halda því fram að sparkað sé í alla, jafnt konur sem karla, sem taka þátt í jafnréttisumræðunni. Vítahringur? Pæling.

  15. Þórdís Elva Avatar
    Þórdís Elva

    Mig langar að byrja á að þakka fyrir frjóar umræður og umhugsunarverðar athugasemdir sem fallið hafa hér í dag. Margt af því sem mér finnst hefur nú þegar komið fram í kommentum annarra. Tvennt er mér þó ofarlega í huga. Annarsvegar sú ranghugmynd að einungis konur séu ofsóttar fyrir femínískar skoðanir sínar. Ég þekki karlmann sem skrifaði femíníska grein í dagblað fyrir þremur árum síðan og fékk í kjölfarið hótanir og haturspóst frá hópi karla sem voru honum ósammála. Ég þekki annan karlmann sem settist í ritstjórastól á femínísku tímariti. Skyndilega fóru karlar í kringum hann að kalla hann “ritstýru” og uppnefna hann sem “vina” eða “elskan” í háðstóni, í þeim eina tilgangi að auðmýkja hann. Sumir öðlinganna voru uppnefndir og níddir fyrir pistlaskrifin í vetur, af skoðanaandstæðingum. Neikvæð viðbrögð við jafnréttissinnum einskorðast ekki við konur.

    Hin ranghugmyndin er sú að öðlingar séu eingöngu karlkyns. Ég hef frá stofnun átaksins talið sjálfa mig til öðlinganna án þess að depla auga. Sé gripið í ritmálssafn orðabókar Háskóla Íslands er fyrsta niðurstaðan eftirfarandi: „…frægt góðkvendi og öðlingur sinnar ættar.“ Það vekur nokkra furðu að gagnrýni á nafngift átaksins sé undir þeim formerkjum að annað fólk hafi þurft að þola rógburð og uppnefningar fyrir skoðanir sínar. Vill einhver í alvöru viðhalda þeim ósið? Og er ekki nóg komið af því að orð yfir kynfæri kvenna séu notuð í annarri merkingu en til að lýsa þeim tiltekna líkamshluta?

    Í þriðja og síðasta lagi er skrýtin mótsögn í gangi þegar fólk viðurkennir annarsvegar að jafnréttissinnar mæti víða mótlæti og þurfi jafnvel að þola hótanir, níð og uppnefningar fyrir baráttu sína. Mótsögnin felst í því að í sömu andrá er látið í veðri vaka að það sé fullkomlega sjálfsagt að fólk láti slíkt yfir sig ganga, það kosti engar fórnir, ekkert hugrekki og engan öðlingsskap.

    Næst vona ég að jafn frjóar umræður kvikni um innihald pistlanna, eins og um yfirborð átaksins.

    Takk og kveðja frá Þórdísi Elvu

  16. Það hefði verið forvitnilegt að prófa jafnréttisátakið “Tussan” – en hefði slíkt jafnvel gefið mönnum aukaástæðu til þess að kalla alla sem tjá sig um jafnréttismál tussur? Hér er gagnrýnt að Öðlingsátakið hafi verið að predika yfir kórnum (“skrif femínista um femínisma fyrir aðra femínista”) – en athugum að kórnum hefði einmitt þótt það töff og róttækt að kalla þetta tussuna, en er kannski meira um vert að höfða til hinna að virkja sinn öðling, sbr. tilvitnunina í Guðrúnu hjá Stígamótum?
    Svo fer það sjaldnast saman að vera ekki nógu róttækur og að vera að predika yfir kórnum, hið róttæka takmarkast einmitt oft við lítinn hóp – það er örugglega miklu róttækari femínismi á póstlista femínistafélagsins en í Öðlingspistlunum, en þar er einmitt kórinn að predika fyrir kórfélaga.

  17. Ari Kolbeinsson Avatar
    Ari Kolbeinsson

    Fín hugmynd að átaki, og mjög skynsamlegt að nota ekki stimpilinn “feministi” á það.
    Hví?

    Feminismi hefur fengið á sig neikvæðan stimpil vegna háværra radda innan feministahreyfingarinnar. Þessar háværu raddir hafa verið þekktar fyrir allt annað en jafnréttishugsjónir; skemmst er að minnast nýlegs pósts á póstlista feministafélagsins sem titlaður var “equal is not enough”. Síðan eru óheppilegar árasir gegn körlum almennt afskaplega hvimleiðar, sérstaklega tel ég að okkur karlmönnum sem finnst jafn réttur kynjana ekkert annað en sjálfsagður hlutur sem verður að vinna að (jafnari réttur annars kyns er síðan eitthvað það neikvæðasta sem hægt er að gera, ég vil ekki að spurt sé hvort dóttir mín hafi fengið vinnu vegna “jafnréttislaga” eða vegna eigin getu, þá hefur jafnréttisbaráttan snúist upp í andhverfu sína). Síðan er spurning hvort orðið feminismi eigi nokkuð erindi, þar sem feminismi og maskúlinismi snúast hvorugt um jafnrétti sem slíkt. Það eru ákveðin gildi innifalin í orðunum, og þau hentuðu kannski einu sinni, en er alveg spurning hvort sé ekki við hæfi að breyta stimplinum með heiminum (af því að heimurinn hefur óneitanlega breyst. Ég vil ekki styðja hreyfingu sem gerir sig ítrekað seka um að sýna karlhatur. Jafnrétti snýst ALDREI um hatur eða niðrandi hegðun, og getur ekki virkað með því að ná sumstaðar ójafnrétti í hina áttina.

    En út af þessu ofangreindu, þ.e. að orðið feminismi hefur hlaðið utan á sig neikvæðum tengingum, þá eru margir sem styðja jafnrétti og jafnréttisbaráttu sem forðast pistla sem merktir eru frá femistum. Konan mín, t.d., vill ekki sjá þannig og fer hörðum orðum um áberandi íslenska femínista og virðingarleysi þeirra gagnvart þeim sem hafa ekki rétt kynfæri.

    Og þess vegna er góð hugmynd að auglýsa þessa pistla með öðrum titlum en feminista titlinum. Öðlingurinn? Ég veit svosem ekki hvort það var besti titillinn, en ef þessi titill jók líkurnar á því að fleiri en bara harðir feministar læsu pistilinn þá var hann góður.

  18. Kræst, Ari.

    Vestrænar konur, og bara vestrænar konur, eru nýkomnar, já alveg gjörsamlega nýkomnar með eitthvað sem líkist jafnrétti. Þetta öðluðust þessar konur með hörkulegri baráttu femínistanna sem skömmuðust sín ekkert fyrir orðið sem lýsti þeim og sumar létu lífið í baráttunni. Aðrar voru pyntaðar, sumum var nauðgað, en það virkaði, þetta fór að snúast við. Og nú er helmingur þessara þjóða ekki lengur kúgaður. Þetta er líklega merkilegasta réttindabarátta heimssögunnar.

    Núna er hinsvegar femínismi orðið “neikvætt hlaðið orð”. Og hverjir hafa hlaðið það neikvætt aðrir en karlmenn? Hvernig í ósköpunum er ætlast til þess að kvenréttindabaráttan sem hefur náð þetta langt með þessum fórnum breyti um nafn sitt til þess að þóknast andstæðingum félagslegra breytinga og jafnréttis? Til þess að karlpungum líði betur með sig sjálfa?

    Þessi “neikvæði stimpill” er árás á femínismann og á konur og það á að mæta því þannig. Með fullri hörku. Og fokk þeir sem taka undir niðurrif femínismans, þeir eru, bæði karlar og konur, að berjast gegn kvenréttindum, plain and simple.

    Það er ágætt að þessir karlar skrifi svona litlar greinar sem fólk lækar á feisinu. En það að það þurfi átak til, það að skrifin þurfi að vera svona mjúk og veik (flest), það sýnir bara að það eru karlremburnar sem eru að sigra og femínistar sem þurfa að gefa í og fara að sýna einhverja hörku.

  19. Salvör V. Avatar
    Salvör V.

    Áhugaverður (en ekki óviðbúinn) snúningur á umræðunni hér.

    Mér finnst ég oft rekast á fullyrðinguna að “femínisti” sé núna svo neikvætt orð, líkt og það hafi einhverntímann verið viðtekið og aðeins núna í seinni tíð hafi það verið eyðilagt af róttækum skessum og öðrum rauðsokkum.
    Mig langar að velta upp pælingunni að femínisti hafi ALDREI verið viðtekið orð og þessvegna hafi viðtökur þess ekki breyst sérstaklega í gegnum tíðina.
    Ég held að sú gjörð að (dirfast að) gagnrýna það kerfi sem er við lýði sé í eðli sínu svo róttækt, að sama þótt einhver sé talin mjúkur eða hávær, sé sá hinn sami alltaf álitinn róttækur fyrir skoðanir sínar. Og þessvegna verði “femínisti” aldrei jákvætt orð, jú eða þangað til kerfið breytist.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *