Gamalkunnug tugga er á þá leið að tvær hliðar séu á hverju máli, og vel má vera að eitthvað sé til í því. Í svipuðum dúr er talað um að hver vegur að heiman sé vegurinn heim. Til dæmis er það svo að samskiptaleiðir hverskyns – akbrautir, símalínur, ljósleiðarar, rafsegulbylgjur – eru þess eðlis að umferðin getur bæði gengið fram og aftur. Og sá kynngimagnaði heimur samskipta og samtenginga sem við byggjum er gjörvallur þessu marki brenndur: boðskiptin, upplýsingarnar renna um æðar hans með ógnarhraða í allar áttir, frá helstu miðstöðvum fjármála og valds út í ystu kima – og aftur til baka. Gagnaleiðirnar eru gagnvegir.
Undanfarnir mánuðir hafa verið lærdómsríkir hvað þetta varðar. Til skamms tíma var sú skoðun áleitin að framfarir í samskiptum – sem þá eru gjarnan kenndar við byltingu – væru þegar allt kæmi til alls fyrst og fremst þeim í hag sem valdið hafa. Þær væru enn ein leiðin til að græða á fólki, enn ein fíknin ætluð neytendum. Farsíminn er nærtækt dæmi: leiðum hugann að öllum gagnslausu símtölunum af taginu „ég er á leiðinni, verð kominn eftir fimm mínútur“ – svona virkar tækjavæðingin, hún skapar nýjar venjur og þarfir sem líta út fyrir að vera ómissandi en eru það engan veginn þegar að er gáð. Aftur á móti má sveia sér upp á að einhver græðir á þeim.
Þannig hefur það verið með samskiptanýjungarnar – þær komast ekki á fyrr en einhver sér gróðavon í þeim, þ.e. fyrr en fjármagnseigendur eða frumkvöðlar sjá það út að búnaðurinn sem um ræðir eigi sér nægilega stóran og fjáðan neytendahóp. Þannig verða nýjungarnar til að efla ríkjandi þjóðskipulag og auka því þrótt. En kannski lá það alltaf líka í augum uppi að samskiptavæðingin er valdhöfunum tvíeggjað sverð. Meinið, frá sjónarhóli valdhafa (og raunar rétthafa líka, en það er eilítið önnur saga), er að upplýsingavæðingin er gengin of langt – hún er komin úr böndunum. Einhvers staðar gleymdi einhver að toga í neyðarhemilinn, stíga á bremsuna og reisa enn einn aðskilnaðarmúrinn.
En hefðu slíkar gamalreyndar aðferðir dugað til að stemma stigu við samskiptaflóðinu? Nei, því að múrar gagnast ekki, af þeirri einföldu ástæðu að lífæðar andófsins eru þær sömu og rásir fjármagnsins sem eru öllum valdhöfum lífsnauðsyn. Dæmi um þetta mátti sjá í Egyptalandi eftir að uppreisnin hófst: Mubarak reyndi að loka fyrir netsamskipti (og raunar sjónvarpsstöðvar eins og AlJazeera líka) og koma þannig í veg fyrir skipulagningu fjöldaaðgerða en neyddist jafnharðan til að afnema hömlurnar með skottið milli fótanna, því að sjálfur fjárhagur landsins var í húfi. (Þegar internetinu er lokað jafnast það á við að stöðva svo til alla umferð fjármagns – algjör gjaldeyrishöft!)
Engum blöðum er um það að fletta að uppreisnirnar í Túnis og Egyptalandi, og sú þróun sem þær hrundu af stað, eiga hinum nýju (eða nýlegu) samskiptamiðlum, sem nú er farið að kalla á ensku social media – félagslegir miðlar, magnað orð! – gríðarmikið að þakka. Forsmekkinn að þessu mátti sjá í Íran í hitteðfyrra, þegar upptökur úr farsímum og dreifing þeirra á netsíðum eins og YouTube átti stóran þátt í að breiða út mótmæli við afar þröng skilyrði.
Þannig kann það að reynast satt og rétt, eftir allt saman, að hnattvæðingin svokallaða beri með sér andblæ frelsis. Örvæntingarfullar tilraunir Mubaraks eða Ben-Alis til að temja skepnuna – eða stemma stigu við flóðinu – eru söguleg dæmi um vanmátt valdhafa gagnvart samtakamætti fjöldans eftir samskiptabyltinguna. Ef til vill munu harðstjórar framtíðarinnar finna upp nýjar eftirlits-, kúgunar- og bælingarleiðir – en ógnina sem að þeim steðjar munu þeir aldrei fá kveðið niður fyrir fullt og allt, vegna þess að uppfinningarnar sem ógnin hvílir á verða ekki aftur teknar.
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðum valdamannanna – landsfeðranna, eilífðarforsetanna, „leiðsögumannanna“ – þegar þeir átta sig á að röðin er komin að þeim, fjöldinn, þessi þjóð sem átti að heita þeirra, hefur raunverulega tekið sig saman og risið upp. Þá grípa þeir allir sem einn til þess ráðs að afskrifa þá sömu þegna sína og hópast saman og mótmæla stjórninni. Þau sem ganga um götur, hrópa slagorð, halda ræður og hampa skiltum, þau eru ekki þjóðin – þau eru handbendi erlends valds eða hryðjuverkahópa, þau eru uppdópaður skríll o.s.frv. Ekkert er eðlilegra en að valdhafinn grípi til þessa ráðs – vald hans hvílir nú einu sinni á þeirri list að gefa þegnunum sífellt í skyn hvað það þýði að vera „einn af okkur“, eða með öðrum orðum góður og gegn þegn hans, og sjá svo til þess með góðu eða illu að þessum (misjafnlega) vinsamlegu tilmælum sé hlýtt.
En eitt þurfa valdhafar framtíðarinnar, allir sem einn, að hafa í huga. Það er gömul lexía og ný sem hefur verið á hvers manns færi að minnsta kosti frá því að Machiavelli var og hét. Engin stjórn fær staðist til lengdar í óþökk þjóðarinnar. Verkefni valdhafans verður þá augljóslega að „framleiða sátt“. En sé ríki hans sannkallað lýðræðisríki þarf hann til viðbótar að átta sig á þrennu: í fyrsta lagi að vald hans varir ekki að eilífu, í öðru lagi að vald hans kemur frá þjóðinni og í þriðja lagi að hlutverk hans er að þjóna fólkinu. Kannski er sá tími að renna upp að valdhafar skilji að þeir verða að kyngja þessu. Því að gagnvegir liggja víða, ekki síst til þeirra.
En í öllu þessu tali um samskiptaæðar og netmiðlun er hollt að minnast þess að byltingar vinnast ekki á Facebook. Uppreisnir fjöldans eru ekkert án athafna, án mótmæla sem ef til vill mætti lýsa sem svo: líkamar koma saman og mynda mergð sem segir við valdhafann „þú átt okkur ekki – ekki ennþá, ekki öll, ekki með húð og hári, líkama og sál“. Hin hliðin á því máli er svo raunverulegar, efnislegar aðstæður þess fólks sem býður valdinu birginn með þessum líkamlega hætti. Síðasta sumar geisuðu miklir þurrkar í Rússlandi með alvarlegum afleiðingum fyrir kornuppskeruna. Af þessu hlaust hækkun á matvælaverði sem teygði sig út um allan heim og bættist ofan á þær hækkanir sem orðið höfðu á undangengum misserum. Ungt, fullhraust fólk sem á vart til hnífs og skeiðar er valdhöfum skeinuhætt. Og það er rétt að byrja að láta til sín taka.
Hvernig mun svo hinum nýfrjálsu þjóðum í Norður-Afríku og (vonandi) Mið-Austurlöndum reiða af? Hver verður niðurstaðan? Leyfum okkur að vera bjartsýn og benda á að uppreisnirnar hafa til þessa borið öll merki veraldlegrar lýðræðishreyfingar sem vill gera upp sakir við spillingu, frændhygli og þjónkun við innlent og erlent peningavald. Hin rökrétta niðurstaða verður sannkallað fjöldalýðræði þar sem valdið þarf sífellt að endurnýja umboð sitt meðal þjóðarinnar. Og ef til vill verður endirinn sá að íbúar Arabaheimsins kenni Vesturlandabúum dýrmæta lexíu hvað lýðræðisumbætur varðar.
Leave a Reply