Það mun hafa verið Ágúst H. Bjarnason sem smíðaði orðið „hugvísindi“. Til þeirra vildi hann aðeins telja stærðfræði og rökfræði, því að þau vísindi mætti iðka með huganum einum. Fyrir öll önnur vísindi, sem byggðust á athugun raunheimsins, hvort heldur það væri náttúran eða sagnfræðilegar heimildir, vildi hann nota orðið „raunvísindi“. Þessi hugtakanotkun varð aldrei mjög útbreidd en hún sýnir að þegar kemur að vísindum og fræðum er fátt alveg sjálfgefið. Orðið „hugvísindi“ er raunar grunsamlega líkt þýska orðinu „Geisteswissenschaften“ sem er hefðbundið heiti yfir það sem við köllum hugvísindi en er reyndar þýsk þýðing á enska hugtakinu „moral sciences“ sem John Stuart Mill notaði yfir þessar greinar. Á Norðurlandamálum er venjan að tala um „humaniora“ eða „de humanistiske videnskaber“ og enskumælandi þjóðir nota ýmist „liberal arts“, sem vísar til hinna frjálsu lista, eða „humanities“. En af hverju „humaniora“ eða „humanities“?
Á 14. öld spratt upp á Ítalíu hreyfing sem snerist um margt öndverð gegn þeim fræðum sem kennd voru í heimspekideildum háskólanna, sem sé aristótelískri skólaspeki. Þessi hreyfing hefur oft verið kölluð „fornmenntastefna“ á íslensku, en á erlendum málum gengur hún undir heitinu „húmanisminn“. Ástæðan er sú að fylgismenn hennar settu saman vel skilgreint kerfi námsgreina sem þeir töldu þess virði að leggja stund á og nefndist á latínu studia humanitatis, en af því var dregið hugtakið humanista sem var haft um þá sem lögðu stund á þessi fræði. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld að þýskir sagnfræðingar bjuggu til hugtakið „húmanismi“ (humanismus), sem kemur líklega fyrst fyrir árið 1809.
Húmanistum hryllti við því sem þeir töldu vera afbökun misviturra háskólamanna á hugmyndum og máli fornra höfunda og vildu þess í stað komast að raunverulegri, upprunalegri hugsun þeirra, vildu sem sé komast að því hver ætlun höfundanna var með verkum sínum, hvað það var sem þeir höfðu sjálfir viljað sagt hafa, en ekki einhverjir aðrir sem síðar útlögðu verk þeirra. Leiðin til þess lá í gegnum þekkingu á tungumálinu, latínu (og síðar einnig grísku), lestur verkanna sjálfra og greiningu á málnotkun þeirra, stílbrögðum og rökfærslum. Húmanistar leituðu uppi handrit að fornum textum, báru þau saman og skráðu lesbrigðin og gátu jafnvel endurgert heilu bækurnar sem höfðu tvístrast í sundurlausa parta í ólíkum handritum. Upp úr þessari vinnu húmanistanna urðu til aðferðir og vinnubrögð textafræðinnar, fílólógíunnar, sem blómstraði á 19. öld í takt við sögulegu málfræðina.
Annað sem skapaði studia humanitatis, hinum húmanísku fræðum, sérstöðu var sú hugmynd að þessi fræði væru einkar vel til þess fallin að endurvekja hina klassísku menntunarhugsjón. Studia humanitatis voru í upphafi tiltölulega afmarkaður hópur greina og tók alls ekki til allra fræðigreina síns tíma. Húmanistar lögðu ekki stund á þekkingargreinar á borð við stærðfræði eða náttúruvísindi, og fæstir lögðu þeir stund á heimspeki, nema að takmörkuðu leyti og þá helst siðfræði eða stjórnspeki. Þeir lögðu ekki heldur stund á starfsmenntagreinar á borð við lögfræði, læknisfræði eða guðfræði. Greinarnar sem mynduðu studia humanitatis voru málfræði, mælskulist, skáldskaparlist, sagnfræði og siðfræði. Þetta var því þverfræðileg menntun. Stundum hefur verið sagt að studia humanitatis hafi verið hugsað sem andstæða við studia divinitatis, guðfræðina, en það mun þó varla nema hálfsannleikur. Aðalatriðið er að innihald og markmið studia humanitatis beindist hvorki að hagnýtri starfsmenntun né hreinni vísindalegri menntun, heldur var þroski einstaklingsins og hæfileiki hans til þátttöku í samfélaginu hið undirliggjandi markmið þessara fræða. Reyndar má segja að í spennunni milli þessara ólíku markmiða sé enn í dag fólginn höfuðágreiningurinn milli húmanískra fræða annars vegar og starfsmenntagreina og vísindagreina hins vegar.
Oft hefur verið haft fyrir satt að það hafi verið ítalski húmanistinn Coluccio Salutati sem notaði fyrstur hugtakið um studia humanitatis í bréfi árið 1369. Salutati var hins vegar lærisveinn samlanda síns, skáldsins og fræðimannsins Petrarca. Telja má líklegt að Petrarca hafi fengið bæði hugtakið humanitas og samsetninguna studia humanitatis frá Cicero, hið síðara úr vörn Ciceros fyrir Archías skáld, sem Petrarca uppgötvaði í Liège, á ferðalagi til Parísar og Niðurlanda árið 1333.
Í upphafi málsvarnar Archíasar notar Cicero hugtakið humanitas og gefur til kynna að allar listgreinar séu með einhverjum hætti skyldar (Pro Archia, 1-2). Hann byrjar á því að beita hugmyndinni um hæfileika, þekkingu og þjálfun, sem var undirstaða mælskumenntunar í fornöld. Síðan segir hann:
Og svo að enginn undrist nú það sem ég hef sagt, enda liggi hæfileikar [Archíasar] ekki í grein eða list ræðumennskunnar heldur á öðru sviði, þá höfum við ekki heldur alltaf helgað okkur þessari einu grein. Því að allar listir, sem að menntuninni lúta (quae ad humanitatem pertinent), bindast sín á milli sameiginlegum böndum og hafa, ef svo má segja, innbyrðis skyldleika til að bera.
Hugtakið humanitas tekur til þess að gera manninn að manni, ekki ósvipað og orðin menning og menntir í íslensku. Samkvæmt því ber að rækta og þroska hæfileika sína til þess að nálgast ákveðna manngildishugsjón, eða eins og Erasmus sagði: Við fæðumst ekki menn, við verðum að manni (en þetta orðtak hefur orðið frægt í meðförum Simone de Beauvoir: Maður fæðist ekki kona, maður verður að konu). Það sem greinir mennina frá dýrunum er málið, en það sem greinir síðan siðmenntaða menn frá villimönnum er stíllinn og allt sem honum tengist. En Cicero bætir við nokkru síðar:
þar sem ég er hér að verja skjólstæðing sem er mikið skáld og hámenntaður maður frammi fyrir hópi menntuðustu og siðfáguðustu manna og hinum ágætasta dómara, þá treysti ég því að þér munið leyfa mér að ræða nokkuð um mannleg fræði og bókmenntir (de studiis humanitatis ac litterarum) …
Og það er einmitt þarna sem kemur fyrir samsetningin studia humanitatis sem Coluccio Salutati, Leonardo Bruni og aðrir húmanistar sem komu á eftir Petrarca tóku upp og varð brátt viðtekið fyrir það nám sem endurreisnarmenn og ýmsir síðari tíma menntafrömuðir töldu horfa til nokkurs þroska og gengur enn í dag undir heitinu húmanísk fræði.
Leave a Reply