Umbreytingar Miðveldisins

[container]

Um höfundinn
Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson er dósent og deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hann hefur fengist við margvísleg ritstörf á sviði heimspeki, bókmennta, samfélags­ og menningarmála. Sjá nánar

 Heimildamyndaröð Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljóss

Rétt rúmir þrír áratugir eru liðnir síðan Alþýðulýðveldið Kína, fjölmennasta ríki heims, tók að opna sig gagnvart umheiminum eftir áralanga einangrun í alþjóðasamfélaginu. Á 7. og öndverðum 8. áratug tuttugustu aldar höfðu Kínverjar samskipti við svo fáar þjóðir að hvítur maður í Kína var jafnan álitinn vera frá Albaníu. Í dag er öldin önnur. Síðan opnunarstefnunni var hrint í framkvæmd af Deng Xiaoping árið 1978 hefur kínverskt samfélag umturnast á flestum sviðum. Fólk af öllum þjóðernum er nú við störf eða nám í landinu. Árið 2008 dvöldu yfir 220.000 erlendir stúdentar í Kína og hefur þeim fjölgað að jafnaði um 15% árlega á undanförnum árum.  Flestir þeirra stunda kínverskunám í einhverri mynd,  enda ljóst að þungamiðja tækifæranna í veröldinni er óðum að færast yfir til Austur-Asíu og þá einkum til Kína, en í ágúst 2010 var tilkynnt að Kína hafi tekið sæti Japans sem annað stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum. Kínversk áhrif – efnahagsleg, menningarleg og pólitísk – hafa ekki látið á sér standa á alþjóðavettvangi og þótt sitt sýnist hverjum er ljóst að síst mun draga úr þeim á komandi árum.  En séu áhrifin út á við svo tilfinnanleg má ímynda sér hversu sterk þau eru innanlands. Aldrei í sögu mannkyns hefur svo fjölmenn þjóð gengið í gegnum svo hraðar og dramatískar breytingar og Kínverjar hafa upplifað á undanförnum þremur áratugum. Breytingarnar birtast hvað skýrast í áleitnum áskorunum  gagnvart hefðum, lífsmáta, samfélagsgerð, samskiptum fólks, siðferði, náttúrulegu umhverfi, o.fl. Áskorunum þessum verður varla með orðum lýst – en e.t.v. með myndum.

Röð heimildarmynda
Á vormisseri 2011 sýnir Konfúsíusarstofnunin Norðurljós röð heimildamynda sem einblína á birtingarmyndir og merkingu þessara breytinga og áskorana fyrir kínverskan almenning en leikstjórarnir eru allir kínverskir og í yngri kantinum. Heimildamyndaröðin nefnist China Screen og er dreift í Evrópu af franska fyrirtækinu Solferino Images. Hér eru sagðar sögur af gleði og sorg sem tjá bæði drauma og brostnar vonir. Á misserinu verða sýndar 11 myndir sem fjalla um jafn margvísleg og ólík efni og umhverfisspjöll, hjónaskilnaði, deyjandi mállýskur, sveitalækningar, niðurrif húsa og nútímavæðingu, eyðileggingar af völdum náttúruhamfara, menntun, matargerð, öldrun, atvinnuleit og hirðingjasamfélög. Þær eiga sér stað í stórborgum á borð við Beijing, Shanghai og Guangzhou, frjósömum sveitum Mið-Kína, eyðimerkum norðursins og jafnvel á ferðinni út um víðan völl. Heimildamyndirnar eru hver um sig innan við klukkustund að lengd og eru sýndar í Öskju, Náttúrufræðahúsi HÍ, í hinni ágætu stofu 132 á fimmtudögum kl. 17:30.

Núið er framtíð hins liðnaNúið og hið liðna
Þegar hafa verið sýndar þrjár myndir. Fyrsta sýningin var 13. janúar en þá var sýnd myndin Xianzai shi guoqu de weilai sem útleggjast mætti sem Núið er framtíð hins liðna en hefur hlotið enska titilinn Disorder: Men and Animals in Urban Chaos. Þar er skeytt saman ýmsum hráum svarthvítum myndbrotum frá borginni Guangzhou sem leikstjórinn Huang Weikai (f. 1972) hefur safnað frá bæði blaðamönnum og áhugamönnum um kvikmyndagerð og eiga það eitt sameiginlegt að varpa ljósi á óreiðuna í stórborg sleitulausra umbreytinga. Önnur myndin, Þrír strengir og sagnaparið eftir Zhang Wenqing, var sýnd 20. janúar og fjallar um viðleitni hjóna til að viðhalda fornri sagnahefð í norðanverðu landinu. Viku síðar var sýnd myndin Ferðadómstóllinn eftir sama leikstjóra þar sem slegist er í för með faranddómurum sem sjá um að leysa ágreiningsefni manna á milli í einangruðum þorpum hins torfæra Qingling-fjallgarðs í N-Kína. Fimmtudaginn 3. febrúar verður svo sýnd myndin Nýtt þak yfir höfuðið eftir leikstjórana Zheng Xiaolei og Li Lin þar sem fylgst er með fátækri fjölskyldu í Guangdong fylki í S-Kína og viðleitni hennar til að endurreisa heimili sitt í kjölfar flóða. Allar myndirnar eru á kínversku með enskum texta. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar í viðburðaskrá háskólans og á vefsíðu Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljóss www.konfusius.hi.is.

Allar myndirnar eru á kínversku með enskum texta. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar í viðburðaskrá háskólans og á vefsíðu Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljóss.

 [/container]