Sorp - fornleifar?

Sorp að fornu og nýju

Um höfundinn
Steinunn J. Kristjánsdóttir

Steinunn J. Kristjánsdóttir

Steinunn J Kristjánsdóttir er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild. Kennslusvið hennar liggur innan miðaldafræða og kynjafornleifafræði, Helstu rannsóknasvið hennar eru félagsleg fornleifafræði, miðaldafornleifafræði, trúarbragðarsaga, klaustur og klausturstarfsemi. Sjá nánar

Sorpbíll [container] Sorp hefur verið mikið í umræðunni það sem af er ári. Sorpbrennslustöðin Funi í Skutulsfirði fékk sinn skammt af fréttaumfjöllun, líkt og fleiri sorpbrennslur úti á landi. Nú í janúar tóku svo í gildi nýjar reglur um sorphirðu í Reykjavík. Breytingarnar voru þrenns konar. Í fyrsta lagi er sorp nú hirt á tíu daga fresti. Í öðru lagi var sorphirðudögum breytt. Vegna tíu daga reglunnar er sorpið sem sagt ekki lengur hirt sömu daga og áður. Geta íbúar hins vegar fylgst með á vef Reykjavíkurborgar hvenær þeir geta vænst þess að fá sorpbílinn í sitt hverfi. Síðasta breytingin tekur í gildi í apríl en þá þurfa borgarbúar að greiða skrefagjald, ella að öðrum kosti draga sorptunnuna sjálfir í veg fyrir ruslabílinn.

Ég heyrði starfsfélaga minn gleðjast yfir þessu. Þetta væri eins og í New York og í öðrum stórborgum heims. Þar væri sorp tekið sjaldan og setti það þannig einskonar framandi stórborgarblæ á umhverfið. Tja, sorp hefur alltaf verið til. Í öllum samfélögum manna fyrr og nú. Í mismiklu magni þó. Stundum er stórborgarrómantík yfir því eða bara einfaldur sveitabragur. Yfir því getur líka legið vísindalegur ljómi, í það minnsta í augum fornleifafræðinga.
Til skamms tíma var meðal þeirra litið svo á að með því að grafa upp öskuhauga væri hægt að ná fram þversniði upplýsinga um mataræði og jafnvel lifnaðarhætti til forna. Þetta þótti afar einfalt en er það svo? Hvað með flokkun eða söfnun rusls í afmarkaða hauga? Eru þetta nýleg fyrirbæri? Í sveitum landsins var nefnilega lengst af allt sorp flokkað. Það er að segja ef eitthvað sorp var til að ráði. Ekki var það gert vegna einhverra reglugerða eða lagabálka um flokkun sorps, heldur var það bara þannig. Hænurnar fengu grubbið, hundarnir beinin, kaffikorgin fór út í skurð, vatnið af kartöflunum í blómapottana og engar dósir eða plast var utan um heimaræktað grænmetið eða heimaslátruðu skepnurnar. Brotnar fötur voru spengdar saman að nýju og bollar og diskar límdir saman. Ónýta leirtauið fór þó að lokum í búið og í því gerðar moldarkökur. Það var skilgreiningaratriði hvað var rusl og hvað ekki. Lítið var keypt inn og fáu var að sama skapi hent. Þær kynslóðir sem ólust upp í sveitum landsins minnast því þess sem sérstaks viðburðar þegar sorp var brennt.

Þannig var fyrirkomulag sorphirðu víðast hvar í sveitum landsins lengst af. Öskuhaugar í líkingu við þá sem sjá má við vinnslustöðvar Sorpu urðu ekki til fyrr en á síðari árum með aukinni efnishyggju og neyslu. Og fyrst til að byrja með, aðeins í borgum og stærri bæjum. Öskuhaugar fortíðar geyma þess vegna sjaldnast þversnið lífshátta og matarvenja líkt og Sorpa gerir í dag. Ruslið, sem með tímanum breytist í fornleifar, finnst yfirleitt einhvers annars staðar en í öskuhaugnum sjálfum. Ef það var til. Svona getur verið erfitt að setja sig í spor horfins tíma, þó hann sé aðeins nýliðinn.

 [/container]