[container] Það var söguleg stund þegar Heimspekideild lagði sig niður, sneri baki við speki heimsins og breiddi faðminn mót vísindum hugans. Það var reyndar seinasta skrefið á löngu ferli, svo löngu, að ég kann varla deili á byrjun þess. En á síðari öldum er myndin frekar skýr, því homo vestræniensis hefur verið duglegur við að skrásetja hinar miklu breytingar á heimsmynd sinni, ekki síst síðan andans menn eins og Descartes og Newton og Kant og Darwin klufu raunspekina svo rækilega frá hugspekinni að nú á tímum finnst fólki ekkert sjálfsagðara en að hafa þær sína í hvorum skóla.
Þó má malda í móinn. Þessi fragmentasjón eða fragmenntun mannshugans (sleppa mætti jafnvel r-inu) er að vísu varla alvond, því hún ruddi brautina fyrir þá vísindahyggju sem hefur fært okkur (sumum) ómælda tæknivelmegun, gert okkur meira að segja kleift að gefa út veftímarit. En það er þó sárara en tárum taki að hitta raunvísindamann sem gerir sér enga grein fyrir eðli þeirrar grunntækni, tungumálsins, sem hann notar til að iðka fag sitt. Og þyngra en orð fá lýst er að hitta heimspeking sem veit ekki hvenær Venus gengur næst fyrir sólu.
Um hugtakið hugvísindi má að vísu benda á að allar götur frá Goethe og Coleridge hefur verið hægt í ýmsum afkimum fræðanna að gera því skóna að allt þetta „þarna úti“ væri til komið einmitt fyrir tilstuðlan mannshugans, þessa „hér inni“. Rudolf Steiner, Ernst Cassirer og Owen Barfield eru hér nefndir meðal margra. Andlega sinnaðir positivistar eins og Arthur Koestler hafa gælt við þá hugmynd að fyrst raunvísindin undir forystu Einsteins hefðu tekið upp á að reikna mannshugann aftur inn í formúlur sínar, væri Heilagur Andi klárlega ennþá inni og úti og allt um kring.[1] Með öðrum orðum: innan hugvísinda rýmast öll hin vísindin, ekki síst hin svokölluðu raunvísindi. Breytingin á heiti Heimspekideildar var einmitt þessu til staðfestingar.
Geta menn spyrt saman hug og vísindi?
En samt – eitthvað er það í hugvísindahugtakinu sem fer illa í mann. Eins og allir vita merkir orðið vísindi einfaldlega það sem við höfum þegar séð, vís er komið af orði sem samkvæmt Ásgeiri Blöndal Magnússyni var einu sinni „eiginl. lh. þt.“ af sögninni að sjá, vita.[2] Það er eitthvað óhagganlegt við vísindi, einhver skelfilegur skortur á vafa sem manni hugnast ekki. Heitið hugvísindi er reyndar bullandi oxymoron, sameining ósamrýmanlegra hugtaka, nema hjá þeim einstefnuferðalöngum sem telja að mannshugurinn sé einhverskonar vél sem gengur eftir forriti, að það sé virkilega ekkert meira að ske þegar maður les Shakespeare eða Auði Ólafs en einhverjir kítlandi rafstraumar í einangruðu heilabúi lesandans. Það getur vel verið að ég víki aftur að þessum ískyggilega fundamentalisma síðar meir, eða þá síðar meir.
Hvernig stendur á því að menn láta sér detta í hug að spyrða saman hug og vísindi? Þessi mjóa spurning er svo mikils vísir að það liggur við að mér fallist hendur. Það verður enginn vegur að svara henni svo nokkru nemi í þessu pistli, en þó er e.t.v. hægt að brydda upp á byrjun á broti úr svari. Eins og ég gerði grein fyrir í frumlegri og áhugaverðri en tótally gleymdri doktorsritgerð hér um árið, vegur formgerð orðanna miklu þyngra á metunum en merking þeirra, a.m.k hvað varðar framgang þeirra í alheimstextanum. Ljóst er að heitið hugvísindi varð ekki fyrir valinu aðallega vegna þess að það skapaði skemmtilega pólun við raunvísindi, heldur vegna þess að fyrstu tveir stafirnir voru þeir sömu og í humanities, og ‑indi og ‑ities rímuðu þokkalega saman. Ég hef áður bent á í alvöru rannsóknarpunktagreinum að fjöldinn allur af okkar kærustu hugtökum sé tilkominn vegna einhverskonar páfagaukseðlis í tungumálinu: rannsóknir, fjárfesting, Endurreisn og fýsilegur kostur þeirra á meðal.[3] Þótt hugvísindi sé páfagauksþýðing á humanities er ekki þar með sagt að það sé vond þýðing – það er að vísu vond þýðing, en það er annað mál. E.t.v. fæ ég að segja eitthvað um það í næsta pistli.
[1] Allir eru þetta náttúrulega karlar, nem kannski Heilagur Andi.
[2] Merking orðsins eiginl. er eiginlega frekar óljós, og vandséð hvort einhver munur sé á því að vera raunverulega lh.þt. eða bara eiginl. lh.þt. Notkun styttingarinnar eiginl. virðist þó benda til þess að hugtakið sé algengt í orðsifjafræði.
[3] Pétur Knútsson, op.cit.
[/container]