Zur frage der gesetze

Lög, þjóð og klíka, þrenning sönn og ein

[container] 

Um höfundinn
Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson er prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Björn er með doktorspróf í heimspeki frá Université Paris VIII (Vincennes-St. Denis) í Frakklandi. Sjá nánar

Á síðkvöldum skammdegisins, þegar blákaldur veruleikinn hellist yfir með öllum sínum hráskinnaleikjum, getur verið gott að leita á náðir Kafka. Um daginn komst ég á snoðir um örsögu eftir spámanninn þann sem hitti einhvern veginn í hjartastað. Sagan heitir á frummálinu „Zur Frage der Gesetze“, eða eitthvað í líkingu við „Spurningin um lögin“. Eins og oft vill verða hjá Kafka er fyrsta setningin meistaraleg: „Lög okkar eru ekki á hvers manns vitorði, þau eru leyndarmál þess smáa hóps aðalsfólks sem yfir okkur ræður.“ Þessari tilhögun fylgja ýmis vandkvæði eins og lesandinn fær að kynnast strax í framhaldinu. Tilvist laganna er í sjálfu sér ekki dregin í efa, en „það er samt afar kvalafullt“ – es ist doch etwas äußerst Quälendes – „að vera stjórnað af lögum sem eru manni ókunn.“ Í hverju eru þessar „kvalir“ fólgnar, af hverju hljótast þær? Það kann að koma á óvart að sögumaður kveðst „ekki hafa hér í huga […] þá ókosti sem það hefur í för með sér að aðeins nokkrir einstaklingar, en ekki gjörvöll alþýða manna, fái að hlutast til um útleggingu [laganna]“. Lögin eru aldagömul, og sögumaður telur ástæðu til að ætla að þau hljóti að bera þess merki á þann hátt að útlegging þeirra sé orðin nokkurn veginn fastákvörðuð. Og hann gengur lengra og fullyrðir að „aðallinn hafi enga ástæðu til að leggja lögin út á með eiginhagsmuni sína að leiðarljósi, okkur í óhag, vegna þess að lögin voru jú strax í upphafi sett fyrir aðalinn, aðallinn stendur utan við lögin, og einmitt þess vegna virðist honum einum hafa verið treyst fyrir lögunum.“ Eða, svo spurt sé blátt áfram: „hver dregur visku hinna gömlu laga í efa?“. Raunar má efast um að þessar röksemdir nægi til að sannfæra lesendur, og sögumaðurinn sjálfur virðist satt að segja ekki alveg viss heldur.

Þeirri spurningu er enda enn ósvarað, hvað valdi kvölinni sem af þessari skipan mála hlýst. Í ljós kemur að borgararnir, þegnar þessara óþekktu laga, skiptast í hópa í afstöðu sinni til þeirrar grundvallarspurningar hvort lögin séu á annað borð til. Af framferði aðalsins í aldanna rás virðist mega álykta að sannarlega sé þeim til að dreifa, en það er þó ekkert annað og meira en tilgáta sem iðkendur fræða og vísinda hafa varpað fram og mótað eftir kúnstarinnar reglum. Þorri manna lítur þó svo á að akademían eigi mikið starf óunnið áður en fullur skilningur á lögunum næst – en þegar sú stund rennur upp má ætla að „allt verði ljóst, lögin verði þá eign alþýðunnar einnar og aðallinn hverfi.“ Þessi orð má alls ekki skilja þannig að þau spretti af hatri í garð aðalsins: „Öllu heldur hötum við okkur sjálf, vegna þess að við höfum ekki enn reynst laganna verðug.“

Til er flokkur manna sem hefur þá einföldu afstöðu til laganna að ef þau eru á annað borð til, þá „geti þau aðeins hljómað svona: Það sem aðallinn gerir, það eru lög.“ Með öðrum orðum búi enginn lagabálkur, enginn fastákvarðaður sannleikur að baki hegðunar aðalsins.

Svo mælir Kafka, og sá sem þetta skrifar ætlar sér ekki að skyggja á ankannalegan kunnugleika orða hans. Svona lýkur sögunni: „Eiginlega verður þessu eingöngu lýst með einhvers konar þverstæðu: Flokkur sem hygðist ekki aðeins varpa trúnni á lögin fyrir róða, heldur einnig aðlinum, fengi þegar stuðning gjörvallrar alþýðu manna, en slíkur flokkur getur þó ekki orðið til, því að enginn þorir að varpa aðlinum fyrir róða.  Á þessari hnífsegg lifum við. Rithöfundur orðaði þetta einu sinni í hnotskurn sem hér segir: einu sýnilegu og óumdeilanlegu lögin sem okkur eru sett, eru aðallinn, og eigum við sjálf að svipta okkur þessum einu lögum?“

Ensk þýðing textans, „The problem of our laws“

[/container]