Hvert fór tíminn?

Í dag keypti ég bók í enskri þýðingu. Bókin er Prinsinn eftir Niccolò Machiavelli. Ég hef ekki lesið hana áður, en það er ekki þess vegna sem ég keypti hana né hversu ódýr hún var í bókabúðinni. Aðalástæðan fyrir því að ég keypti hana er lengdin, hún er bara 71 blaðsíða. Svo stutt að ég get mögulega lesið hana á einu kvöldi.

Mín menningarneysla markast af tíma. Hef ég tíma til þess að lesa þessa bók? Hversu langan tíma tæki það mig? Gæti ég hlaðið henni niður sem hljóðbók og hlustað á hana í gönguferð? Þannig gæti ég neytt menningarefnis og hreyft mig. Tvær flugur í einu höggi. Í sömu búð rakst ég á nokkrar bækur eftir Philip K. Dick og velti fyrir mér hvort ég ætti að kaupa þær, en þá mundi ég eftir bókastafla heima frá nýlegum bókamarkaði. Tólf ólesnar bækur í stafla. Þegar ég hugsa um þær, man ég eftir öðrum bókum, átta talsins, sem eru uppi í hillu enn ólesnar frá bókamarkaðnum í fyrra. Uppsöfnuð neysla.

Mín menningarneysla einkennist af tímaskorti. Ég reyni að gera hana þægilega og hagkvæma. Þegar ég tek strætó í skólann hef ég tíma til þess að hlusta á einn til tvo hlaðvarpsþætti en gæti bara rétt byrjað á hljóðbók á sama tíma. Það má kannski segja að vinna mín við skriftir einkennist af tímaskorti líka. Ég skrifa þennan pistil á meðan ég borða nesti og drekk kók. Tvær flugur í einu höggi.

Allan daginn vinn ég í texta og les texta, eftir þannig vinnudag er ég oft þreyttur og nenni ekki að lesa. Þá horfi ég á menningarefni, en þar lendi ég líka í vanda. Einn Star Trek þáttur er um 45 mínútur að lengd. Gamanþáttur er hins vegar varla lengri en 20 mínútur, ég get því horft á tvo gamanþætti á þeim tíma sem tæki mig að horfa á einn Star Trek þátt. Á sama tíma gæti ég hins vegar horft á fjölmarga örþætti á YouTube, gamanþætti og líka fræðandi þætti. Hvernig fæ ég mest út úr áhorfinu? Hvað ætti ég að velja?

Nýlega ákvað ég að prófa streymisveituna Spotify. Þar býðst mér að hlusta á þrjátíu milljón lög, en ég má bara hoppa yfir fimm lög á klukkustund nema ég borgi fyrir Spotify Premium. Með þetta í huga hef ég þurft að hægja á neyslunni, bíða með að hoppa yfir lög, gefa þeim meiri séns. Eftir fimmta hoppið er nefnilega lokað fyrir möguleikann að hoppa á milli laga næsta klukkutímann.

Líklega neytum við meiri menningar núna en nokkurn tíma áður í sögunni enda er auðveldara að nálgast menningarefni nú en nokkru sinni fyrr. Ég þarf ekki að fara út úr húsi til að hlaða niður hljóðbókum, rafbókum, myndum og þáttum eða streyma tónlist en valið þarf að vanda betur en áður því það er svo margt í boði. Gott dæmi um það er sú staðreynd að einmitt núna hef ég Prinsinn í höndunum en hef aftur á móti engan tíma og því legg ég hana efst á ólesna staflann.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Vignir Árnason

Vignir Árnason

Vignir Árnason er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila