Að láta tilfinningarnar ráða

Ég hef ekki heyrt mörg lög sem hafa haft jafnmikil áhrif á mig og „Bones“ eftir enska tónlistarmanninn Ben Howard. Þegar ég hlustaði á það í fyrsta skipti var ég rúmlega 18 ára og nýbyrjaður í sambandi með fyrstu kærustunni. Hún kynnti mig fyrir Ben og fyrstu plötu hans, Every Kingdom, sem kom út árið 2011. „Bones“ er einungis að finna á sérstakri útgáfu plötunnar en henni fylgja tveir aukadiskar sem innihalda aukalög og tónlistarmyndbönd. Ég var sjálfur farinn að semja lög á þessum tíma og skilgreindi mig sem tilfinningaríka manneskju. En þetta lag opnaði nýjan, viðkvæmari heim fyrir mér.

„Deluxe-útgáfa“ plötunnar Every Kingdom.

„Bones“ byrjar á mjúkum gítartónum sem Howard leikur af mikilli list og tilfinningu. Það sama getur maður sagt um rödd hans þegar hann syngur: Oh go, far from this small-town bar we know. / And go, frolic in the lights that brought you here. / So very long“ og leiðir þannig hlustandann inn í sögu lagsins.

Ástin er endanleg eins og allt í lífinu og þetta varnarleysi er aðalviðfangsefni textans. Howard syngur eins og hann sé bara að syngja fyrir sjálfan sig. Maður heyrir hversu erfitt það er fyrir hann að segja þessa sögu – oft vegur röddin salt á illi söngs og hvísls. Það sem er svo merkilegt við Ben er að hann notar röddina betur en aðrir söngvarar til að tjá tilfinningar sínar – sama hvort er á stúdíó- eða live-útgáfu lagsins. Þegar hann segir: „you can never be alone / ‘cause it‘s just the bones you‘re made of“ hljómar það eins og samþykki en söngurinn felur í sér ásökun Margt er ósagt í textanum en rödd Howards fyllir inn í eyðurnar.

And you laugh like you’ve never been lonely
That’s alright, honey
That’s alright with me
Oh, you laugh like there’s hope in the story
That’s alright, honey
That’s alright with me
Oh, you laugh like I’ll be there to hold you always
Always here
I’m always, honey, always here

Þetta er fyrsta viðlagið og í hvert skipti sem ég hlusta á það hreyfist eitthvað innra með mér, eitthvað sem ég fann fyrst fyrir þegar ég var ungur og barnalegur. Eitthvað sem vaknar alltaf þegar ég hlusta á þetta lag. Eitthvað sem mig langar að finna fyrir enn í dag en fullorðinslífið kemur í veg fyrir það. Kannski er það trúin á að ástin vari að eilífu, að ég muni alltaf elska manneskjuna sem einu sinni var mér allt, að ég verði alltaf hér að bíða eftir henni. Þessi trú er fylgifiskur gremjunnar. Gremjunnar sem ég fann fyrir þegar þessi manneskja fór frá mér og elskaði mig ekki jafnmikið og ég elskaði hana.

And go, silent as death on the first day of the snow
Oh go, leave these fires burning
A house of embers and coal
And cover, covered all those boys that search for love in your room

Þessi orð eru sungin af meiri krafti en fyrsta erindið. Meiri reiði er nú í titrandi rödd Howards. „Lust is just a child‘s game and you were always late to blow“ er ljóðlína sem felur í sér falska réttlætingu og sekt. Þótt hann geti ekki skilið manneskjuna sem hann elskar svo mikið mun hann alltaf bíða eftir henni.

„Deluxe-útgáfa“ plötunnar Every Kingdom.

Howard endurtekur viðlagið tvisvar í þetta sinn. Í seinna skiptið syngur hann áttund ofar og það er engin spurning lengur að maðurinn bugaður af sorg en vill ekki sýna það. Þegar ég hlusta á hann svona berskjaldaðan tárast ég. Geðbrigði hans eru orðin geðbrigði mín. Textinn breytist:

And you love like you’ve always been lonely
That’s alright honey
That’s alright with me
Oh, you love him with all of your body
That’s alright honey
That’s alright with me
Oh, you love him like you’ll be there for always
Always, honey, yeah, always near

Mig langar að öskra, að fá útrás, að sleppa út öllum sársauka unglingsárana. Howard hefur meiri stjórn á sjálfum sér og syngur eins og hann langi að öskra en hafi ekki lengur kraft til þess. Þetta er yfirlýsing um ósigur.

Oh, far from this small-town bar we know
Oh, go, leave me with this bird and his song
Out here in the cold

Lagið endar á þessum orðum og ég sný aftur til veruleikans. Enn og aftur gleypti lagið mig fullkomlega og það tekur drjúga stund fyrir mig að fatta að ég er í rauninni ekki yfirkominn af sorg. En þetta er upplifun sem hrífur mig frá líðandi stund og lætur mig endurupplifa geðshræringu unglingsáranna. Einhvern veginn var maður miklu tilfinningaríkari þá en nú og ekki hræddur við að fórna sál sinni fyrir einhvern annan. Ég sakna þess.

Lög eins og „Bones“ hafa þennan galdur, að láta mann upplifa eitthvað sem maður vissi ekki að byggi enn í sálarlífinu. Lög eins og „Bones“ þurfa ekki mikla umgjörð, bara gítar, rödd og hugrekki til að leyfa tilfinningunum að ráða. Takk Ben, fyrir að vera hugrakkur, berskjaldaður og söngvaskáld sem hefur eitthvað að segja. Þetta kunna ekki allir. Howard gaf út aðra plötu undir titlinum I Forget Where We Were árið 2014 en síðan hefur hann verið þögull. En ég veit að ég er ekki einn um að segja: Við erum hér, alltaf, að bíða eftir þér.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.

[fblike]

Deila