Að dansa með því að kinka kolli

Í Þýskalandi hef ég farið á Wacken Open Air sem er stærsta þungarokkshátíð í heimi. Ég hef farið á Deichbrand þar sem 18.000 manns njóta tónlistar saman. Ég hef líka farið á Rock Unter den Eichen þar sem nokkur hundruð manns koma saman til að hlusta á bæði erlend og innlend bönd. Enn fremur hef ég mætt á fjölmarga tónleika af ýmsum gerðum. Með þessa reynslu að baki hef ég líka sótt ýmsar tónlistarhátíðir á Íslandi, þar á meðal Eistnaflug, Oration, Secret Solstice og Norðanpaunk, auk fjölda stakra tónleika. Þó að tónlistin og hljómsveitirnar hafi verið skemmtilegar og mjög áhugaverðar, bæði í Þýskalandi og á Íslandi, finn ég fyrir miklum mun á milli þessara tveggja tónlistarheima.

Hljómsveitin Hórmónar á tónleikum. Mynd: Phil Uwe Widiger.

Það er bara eitt sem vantar

Þegar ég fór í fyrsta skipti á stóra tónlistarhátíð var það eins og komast inn í sjálft himnaríki – ég var í kringum fólk sem kunni að meta nákvæmlega sömu tónlist og ég. Hljómsveitir sem virtust ósnertanlegar spiluðu beint fyrir framan mig. Tónlistin hlóð mig eins og rafmagn hleður rafhlöðu. Áður en ég vissi hvað væri að gerast var ég kominn í „mosh-pit“. Þið vitið, hóp af fólki sem hoppar á hvert annað, hleypur á hvert annað bara út af orkunni sem það fær út úr tónleikunum. Þetta er ekki eina dæmið um sérstakan dans sem er innblásinn af rokktónlist. Eins mætta nefna „pogo“ (sem felst í því að líkja eftir skoppandi gormi) og „headbanging“ (sem á íslensku kallast að slamma). Einu sinni fór ég á þýska popp-pönk tónleika og áheyrendurnir þar tóku upp á því að „mosh-a“ – bara miklu hægar en almennt er gert. Það skipti ekki máli á hvaða tónleika ég fór í Þýskalandi, fólk var alltaf að hreyfa sig í takt við tónlistina.

En svo kom ég til Íslands.

Íslenski tónlistarheimurinn er stór og lítill á sama tíma. Hér eru óendanlega margar góðar hljómsveitir og maður hefur tækifæri til að sjá eins margar þeirra og maður vill, oft án þess að þurfa að borga háan aðgangseyri. Það er ekki möguleiki fyrir mig að segja til um hversu marga ótrúlega tónleika ég hef sótt hér. En þó er eitt sem vantar – og það er dansinn.

Íslenski leirherinn

Að kinka kolli er íslenski þungarokksdansinn. Það er sama hversu orkumikil tónlistin er, það er sama hversu mikið tónlistarmennirnir leggja í sviðsframkomuna, oftast sjá þeir bara fólk kinka kolli. Upp og niður. Í takt. En ekki of lengi. Mér fannst þetta í fyrstu ótrúlegt. Íslendingar hreyfðu sig hreinlega ekkert á tónleikum. Aðeins örfá bönd hafa náð að fá fólk til að slamma – nýlegustu dæmin sem ég man eftir eru Dead Herring, Hórmónar og Godchilla (samt bara í svona fimm mínútur). Nú spyr ég sjálfan mig: af hverju er þetta svona? Tónleikarnir byrja oftast ekki fyrr en kl. 22 eða 23, þá eru flestir gestirnir búnir að drekka nokkra bjóra en samt standa þeir grafkyrrir, eins og leirherinn í Kína. Af hverju? Er það af því að það er svo kalt á Íslandi að allir eru orðnir frosnir þegar tónleikarnir byrja? Fóru þeir aðeins of oft í ísbíltúr? Eða er málið að Íslendingar eru sagðir feimnir?

Tónleikagestir. Mynd: Phil Uwe Widiger.

Manneskja sem hefur mikla reynslu af því að skipuleggja þungarokkstónleika hér á landi sagði mér að Íslendingar kynnu oft ekki að haga sér í „mosh-pit“ þegar að því kæmi. Það gæti jafnvel reynst hættulegt. Kannski er þetta bara eitthvað sem er of nýtt fyrir Íslendinga. Kannski þykir þeim það ónauðsynlegt. Þegar maður fer hins vegar á staði eins og Kiki eða Paloma á laugardagskvöldi, jafnvel Húrra þegar einhver plötusnúður er að spila, sér maður fólk að dansa, það hreyfir sig í takt við tónlistina. Af hverju gerist þetta ekki á þungarokkstónleikum? Þykir það kannski kurteisi að standa kyrr og hlusta? Að mínu mati er „dansinn“ leið til að sýna hljómsveitunum að þær séu að standa sig vel, að þær séu að ná tilfinningum fólks. Er tónlistin hér mögulega svo leiðinleg að hún nái því ekki? Ég held ekki.

Hver sem ástæðan er þá hvet ég ykkur, ykkur sem hafið gaman af því að hreyfa ykkur, að vera öðrum fyrirmynd. Sýnum böndunum að þau séu að standa sig vel. Að þau hafi andleg áhrif á okkur og að við viljum tjá þessi áhrif líkamlega. Slömmum saman. Njótum orkunnar saman. Upplifum saman.

Dönsum saman.

 

Aðalmynd með færslu: Hljómsveitin Great Grief á tónleikum. Mynd: Phil Uwe Widiger.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.

[fblike]

Deila