[container] „Maður á alltaf að taka mark á hugmyndum sem koma til manns í heita pottinum, þá er maður í sínu náttúrlegasta ástandi og líklegastur til að hugsa á snjallan hátt” segir Ole Kristian Ardal einn stofnenda bókmenntatímaritsins Kamilla & sem hefur komið út í Noregi frá maí 2013. „Við vorum nokkur að læra ritlist og bókmenntafræði saman við Vesterdals listaháskólann í Osló sem höfðum rætt að fyrst við hefðum öll áhuga á að starfa við skrif og útgáfu þá væri gaman að búa til bókmenntatímarit. Það var síðan í vikulegum pottaferðum okkar sem við þróuðum hugmyndina frekar. Fyrst var hugmyndin hugsuð sem vettvangur til að gefa út eigið efni en í dag þarf maður að krossa fingur um að textarnir manns fái að vera með.“
Síðan hugmyndin að Kamilla & kviknaði í heitapottinum hefur ritstjórnin, skipuð þeim David Sviland, Thomas Espevik, Ole Kristian Ardal, Nora Kristina Eide, Camilla Guldbrandsen og Petter Suul staðið fyrir 7 útgáfum og er næsta útgáfa, Kamilla og byen væntanleg í byrjun desember. Hver útgáfa er byggð á ákveðnu þema en ritstjórnin segir hugmyndina vera að tímaritið sjálft, Kamilla, ferðist um samtímann og með hverri útgáfu kynnist hún nýrri hlið mannlífsins. Nafnið, Kamilla & býður því upp á að þema hvers tímarits sé skeytt við, en af þemum má nefna Kamilla & Psykologen, Kamilla & Musikken og Kamilla & Sirkuset sem dæmi. Í hverju tímariti má finna ný verk eftir allt að 15 höfunda. Verkin geta verið af ólíkum toga og leggur ritstjórn upp úr að vinna með breidd skáldskaparins. Höfundar verkanna eru flestir óþekktir en þó eru ávallt tveir til þrír þekktir höfundar í hverju tímariti. Af þeim má nefna Bjørn Sortland, Bård Torgersen og Marianne Clementine en þau hafa öll tekið þátt í fleiri en einni útgáfu tímaritsins.
„Stefnan okkar er sú að vera forlag óþekktra höfunda en við ákváðum þó fljótt í ferlinu að fá nokkra reynslubolta með okkur í lið. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar, fyrst og fremst hjálpar það okkur sem erum nýsest í ritstjórnarstólinn. Við leyfum þá textum reyndari höfunda að vera viðmið hvers tímarits, þau auðvelda okkur að ákvarða kröfurnar en einnig er það ánægjulegt fyrir nýja höfunda að fá efnið sitt gefið út í sama tímariti og til dæmis þjóðþekktir rithöfundar í Noregi.”
Nafn tímaritsins er sótt úr norskri barnamynd, Kamilla og tyven en hún segir sögu ungrar stúlku, Kamillu, sem er sérlega forvitin um samfélag sitt og eignast vini úr ýmsum áttum. Óvænt vinátta hennar við vafasaman þjóf leiðir hana síðan á forvitnilegar brautir.
„Mér fannst myndin vera góð táknmynd fyrir tímaritið okkar, hún er falleg og einlæg en umfram allt nær hún utan um viðhorf okkar til þessa verkefnis, það er barnsleg nálgun að skáldskapnum. Við vinnum með naive stíl, bæði vegna þess að okkur finnst hann spennandi en líka því við erum meðvituð um að við vitum ekkert hvað við erum að gera. Við erum hins vegar mjög forvitin um skáldskap fólks og hvað er hægt að gera með hann.”
Í síðustu útgáfu, Kamilla & barnet voru höfundar verkanna á aldrinum 9-51 árs. Sú útgáfa var gefin út í samstarfi við norska útgáfufélagið Cappelen Damm og hefur fengið mjög góða dóma í Noregi.
„Það var mjög spennandi verkefni að vinna með texta sem voru bæði eftir börn og fullorðna. Á meðan textar eftir fullorðna höfunda voru flestir í gamansömum tón mátti finna alvarlegri hjá þeim yngri. Til dæmis tóku börnin fyrir einelti og óréttlæti. Í þeirri útgáfu áttuðum við okkur líka á því hvað það er áhrifamikið að hafa myndskreytingar. Við sem komum úr bókmenntaheiminum getum stundum týnt okkur í textanum enda er það okkar heimavöllur en eftir að hafa unnið að Kamilla & barnet höfum við ákveðið að leggja meiri áherslu á sjónræna hlið lestursins.”
Kamilla & hefur vakið töluverða athygli fyrir fallegt útlit og umgjörð en forsíður tímaritsins hafa hingað til verið nærmyndir af konum á ýmsum aldri þar sem ekki er unnið með ljósmyndirnar á nokkurn hátt. Tónlistarmaðurinn Anne Grete Preus var á forsíðu Kamilla & Musikken en hún sagðist hafa fengið mikið af jákvæðum viðbrögðum og jafnvel hrósi fyrir að þoraað koma þar fram ómáluð og án nokkurra lagfæringa.
„Enn sem komið er hefur Kamillan á forsíðum okkar verið kona. Það kann mögulega að breytast en ég er mjög hrifinn af því hvernig við höfum unnið þær hingað til. Við settum okkur þá reglu strax í byrjun að við myndum ekki leyfa neina vinnslu eða lagfæringar á forsíðumyndunum. Við höfum einnig beðið þær sem sitja fyrir hjá okkur að mála sig ekki. Líkt og í tilviki Anne Grete þá þótti það merkilegt að hún samþykkti að láta birta sig svona sem er í sjálfu sér einkennilegt en kannski líka skiljanlegt þar sem hún kemur úr tónlistariðnaðinum með alla sína skrýtnu fagurfræði. Við viljum hins vegar að forsíðan sé í takt við hugmyndir okkar, einföld og einlæg.”
Næsta útgáfa ber titilinn Kamilla & Byen en þar munu höfundar vinna með borgarþemað. Nokkrir norskir höfundar hafa nú þegar birt opinberlega smásögur um fyrstu kynni sín við Osló en borgarstjóri Osló var á meðal þeirra sem skilaði inn verki fyrir útgáfuna. Ole segir þó ekki víst hvort hann fái það birt.
„Okkur fannst þetta spennandi allt þar til við komumst að því að textinn sem við vorum með í höndunum var ekki eftir borgarstjórann heldur aðstoðaramanninn hans. Það hefur reyndar skapast áhugaverð umræða innan hópsins um hversu trú við getum yfir höfuð verið höfundarhugtakinu. Til að mynda fara allir textar sem við birtum í gegnum einhvers konar ritstjórnarferli þannig að sumir vilja halda því fram að hann eigi að fá textann sinn birtan, lesendur geta beðið spenntir hvernig fer.”
Annars segir Ole hópinn mjög heppinn með þann áhuga sem höfundar sýna tímaritinu en fyrir síðustu útgáfu bárust þeim verk eftir 100 höfunda frá öllum Norðurlöndunum en einnig Bandaríkjunum og Kanada. Fram að þessu hefur Kamilla & birt texta á norsku, dönsku, sænsku og ensku og hvetur hann því íslenska höfunda að senda texta inn fyrir næstu útgáfu.
„Ég veit ekki alveg hvort við munum þora að birta textana á íslensku, en íslenskir höfundar geta þá annað hvort sent inn texta á ensku eða við leitum eftir þýðanda. En þetta þarf auðvitað að fara í nefnd, kannski er það góð hugmynd að leyfa norskum lesendum að spreyta sig á íslenskunni“ segir Ole en hægt er að skila inn verkum í gegnum netfangið tekst@littkamilla.no.
Sólveig Ásta Sigurðardóttir, meistaranemi í menningarfræðum.
[/container]
Leave a Reply