[container] Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu þann 25. september. Á efnisskránni voru konsert fyrir fiðlu og hljómsveit í g-moll eftir Max Bruch og sinfónía nr. 5 eftir Gustav Mahler. Einleikari var Eva Þórarinsdóttir og stjórnandi Lionel Bringuier.
Konsert fyrir fiðlu og hljómsveit eftir Max Bruch er, ásamt konsertum Brahms og Mendelssohns, einn dáðasti fiðlukonsert rómantíska tímabilsins. Þeir fiðluleikarar sem fara í gegnum nám sitt án þess að læra konsertinn eftir Bruch heyra til undantekninga og segja má að ákveðin eldskírn sé fólgin í því fyrir nemendur að ná tökum á honum. Konsertinn er að mörgu leyti krefjandi og þarf flytjandinn að búa yfir hæfni til þess að gera mikilfengleika fyrsta kaflans, blíðleika annars kaflans og fingrabrjótunum í þriðja kaflanum góð skil. Eva Þórarinsdóttir sýndi með leik sínum á fimmtudagskvöldið að hún býr sannarlega yfir slíkri hæfni. Spilamennska hennar var nákvæm, tónninn undursamlega tær og fagur og tæknin áreynslulaus. Undirrituð var þó allra hrifnust af leik Evu í öðrum þætti konsertsins; fegurðin sem einleikarinn töfraði fram var innileg og yfirlætislaus og andrúmsloftið dásamlega kyrrlátt. Hins vegar hefði Eva jafnvel getað tileinkað sér meira mótvægi við rólegan annan kaflann í hinum þáttunum tveimur og leyft sér örlítið meiri ákafa og tilþrif þar.
Fimmta sinfónía Mahlers er stórbrotið og víðfeðmt verk. Hún er samin á árunum 1901 og 1902 og er í fimm þáttum. Hún er jafnframt fyrsta sinfónía Mahlers þar sem söngur kemur ekki við sögu. Þegar Mahler vann að fimmtu sinfóníu sinni hafði hann nýlega legið við dauðans dyr af völdum innvortis blæðinga. Þessi reynsla hafði áhrif á tónsmíðar hans og heyra má hvernig andstæðurnar, líf og dauði, takast í sífellu á í fimmtu sinfóníu hans. Auk þess var Mahler undir talsverðum áhrifum frá Bach á þessum tíma og því er kontrapunktur áberandi í sinfóníunni, sér í lagi í fimmta þættinum.
Upphaf sinfóníunnar, hið margfræga byrjunarstef jarðarfararmarsins, er leikið á einleikstrompet. Slík byrjun krefst stáltauga en fyrsti trompetleikari hljómsveitarinnar, Einar Jónsson, opnaði sinfóníuna með miklum bravúr og dýnamískum leik. Hann gaf tóninn fyrir hljómsveitina sem tók undir með miklum glæsibrag og tónlistin fór að flæða mjög vel um miðbik kaflans. Ljóst er að Lionel Bringuier er agaður hljómsveitarstjóri, hann gerði öllum áherslum og andstæðum feiknagóð skil án þess þó að það kæmi niður á flæðinu í tónlistinni. Hann laðaði jafnframt fram í hljómsveitinni spilagleði sem hélst til enda; í þessari sjötíu mínútna sinfóníu var hvergi dauður punktur.
Blásarar gegna miklu burðarhlutverki í fyrstu þremur þáttum sinfóníunnar og málmblásarar sveitarinnar eiga lof skilið fyrir frammistöðu sína. Tréblásarar sýndu hvað í þeim bjó í öðrum þættinum og unun var að hlýða á sólistana njóta sín í espressífum línum. Þriðji kaflinn stóð þó upp úr hvað flutning varðar. Í þeim þætti kallast á vínarvalsar og sveitadansar – andstæður sem hljómsveitin hafði óaðfinnanleg tök á. Bringuier sýndi einstakt vald á tempóbreytingum og dýnamík, stefnan var skýr og tímasetningar hárnákvæmar. Fyrir vikið urðu áhrifin mögnuð og áheyrandinn skynjaði Mahler í allri sinni dýrð; náttúruna, fegurðina, dauðann og lífið sjálft.
Fjórði þáttur sinfóníunnar, Adagietto, er eflaust sá frægasti. Strengirnir fengu loks að njóta sín til fulls, en þessi þáttur er aðeins leikinn af strengjasveit hljómsveitarinnar. Adagietto-kaflinn er undurfallegur en að sama skapi brothættur og krefst hann alúðar í flutningi. Strengjasveitin gerði honum góð skil og var flutningurinn einlægur og tilfinninganæmur. Leikar tóku síðan að æsast í fimmta og síðasta þættinum en hann er fjörugur dúr-kafli og nokkuð laus við átök. Spilagleðin var allsráðandi í þessum þætti og nákvæmni í samspili var aðdáunarverð.
Niðurstaða: Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands var hreint afbragð og Lionel Bringuier gerði fimmtu sinfóníu Mahlers frábær skil. Eva Þórarinsdóttir er jafnframt glæsilegur einleikari sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.
Nína Þorkelsdóttir
[/container]
Leave a Reply