ikorni

Rannsóknaleyfi – prósaljóð

Um höfundinn
Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Sjá nánar

,,Sem betur fer á ég ekki i-pod. Hvað hugsar fólk sem notar i-pod? Ég sit einn og horfi út í bláinn og hugsa en stundum hugsa ég raunar ekki neitt. Horfi bara á vegg. Á laufblað. Á íkorna. Fólkið á næsta borði." Mynd:
,,Sem betur fer á ég ekki i-pod. Hvað hugsar fólk sem notar i-pod? Ég sit einn og horfi út í bláinn og hugsa en stundum hugsa ég raunar ekki neitt. Horfi bara á vegg. Á laufblað. Á íkorna. Fólkið á næsta borði.” Mynd:

Pistlar – eitthvað sem ég skrifaði einu sinni, áður en ég hafði kynnt allar skoðanir mínar svo rækilega að það var fátt eftir ósagt. Þess vegna er það sem fer á eftir ekki pistill og varla hægt að tala um skoðun nema í hinni merkingunni sem er óvirðulegt samheiti við rannsókn. Rannsóknir eru það sem þrautþjálfaðir vísindamenn stunda, eins og þeir sem starfa við Háskóla Íslands. Skoðað, það geta allir.

„Hvert ætlarðu að fara?“ er spurningin sem fylgir rannsóknamisserinu. Ég ætlaði að nota einmitt það orð en ekki rannsóknaleyfi, til þess að allir skildu að ég væri einmitt ekki að fara í frí heldur yrði unnið sem aldrei fyrr. En svo spyrja kollegarnir allir að þessu sama. Enginn spyr: „Hvað ætlarðu að gera?“ – kannski af ótta við að ég svari því. Nei, hvert ætlarðu að fara í rannsókna – fríinu! Ha, þarna er það sagt! Leyfi, frí. Það er þegar maður fer eitthvað. Rannsóknamisseri, það hlýtur að snúast um að gera.

Því að auðvitað þarf enginn að fara neitt til að gera það sem ég vildi gera – hugsa aðallega. Og skapa. Lesa eitthvað líka en nú vill svo til að þegar maður leggur stund á norræn fræði er aðallega til vandræða að fara eitthvað, við erum með frábært bókasafn þó að stundum sé talað um það sem bagga en ekki helsta trompið á hendinni. Þannig að ég þarf ekki heldur að fara neitt til að lesa. Og það er til lítils að lesa ef mér dettur ekkert í hug. Starf hugvísindamannsins snýst um að detta eitthvað í hug. Gagnasöfnun skiptir máli líka, hún er nauðsynleg en ekki nægjanleg forsenda eins og lærðu heimspekivinir mínir voru vanir að segja eftir fáeina tíma í rökfræði. Og þarf maður að fara eitthvert til að detta eitthvað í hug?

Þannig að tæknilega séð, í raun og veru, þurfti ég ekki að fara neitt. Það er búið að finna upp netið. En ekki vil ég grafa undan rannsóknarmisserunum – og ekki fæ ég styrk til að fara hvergi. Þannig að ég fór. Og ég segi við þá sem ég hitti með dimmri röddu: Gagnasöfnun. Ég er í gagnasöfnun. Hinum segi ég sannleikann: ég fór án þess að vita til hvers. Til staðar sem mig langaði að sjá. Og til að fá styrkinn því að ég er fégráðugur eins og fólk úr – hvað er það sem Tryggvi Þór Herbertsson kallar það, hærri millistétt? – er yfirleitt. Vissi ekkert fyrirfram hvort mér yrði neitt úr verki.

Og hvað hefur gerst? Ég kvefaðist. Þá daga var lítið unnið. Kvef breytir manni úr andlegri veru í líkamlega. Ekkert skiptir máli nema kvefið þegar það kallar. Eins er það með magapest. Hraust fólk lifir 5-10 daga á ári í ástandi sem er þannig að það hefur enga sál, er aðeins líkami. Líklega er það nauðsynlegt til að skilja hversu mikil gæfa er að vera um stundar sakir ekki með langvinnari, erfiðari og átakanlegri sjúkdóma, sem neita jafnvel að fara. Hvar væri samhjálpin ef allir fengju ekki kvef? Kvefið er áminning frá almættinu um að við erum líkami og stundum ekkert annað.

Hina dagana hef ég getað unnið. Hugsað líka. Sem betur fer á ég ekki i-pod. Hvað hugsar fólk sem notar i-pod? Ég sit einn og horfi út í bláinn og hugsa en stundum hugsa ég raunar ekki neitt. Horfi bara á vegg. Á laufblað. Á íkorna. Fólkið á næsta borði. Hegðun sem er óskiljanleg ungu fólki en þannig er líf gamla fólksins. Hvað getur 107 ára gömul manneskja gert annað en að horfa á vegg? Eða laufblað? Íkorna? Hún vaknar á hverjum morgni til þess. Einu sinni hefði ég álitið þetta vera dauðann sjálfan. Ég hefði viljað i-pod. Nú finnst mér þetta frekar vera lífið. Kannski er i-pod dauðinn í dulargervi.

Já, og stundum koma hugmyndir þegar maður situr hugsunarlaus og horfir á vegg. Ekki allar mjög gagnlegar eða nothæfar til að fá 20 stig á ERIH-skalanum. Kannski er ekki til einskis að fara til útlanda til að fjölga stundunum sem maður hefur engan að tala við og þarf að horfa á vegg eða laufblöð í staðinn.

Ein góð ástæða til að fara til útlanda er að hitta fólk. Annað fólk en heima. Núna hef ég ekki séð Íslending í tíu daga nema í spegli eða gegnum skæp. Held að fyrra metið sé slegið. Spurning samt hvort það sé verri sjón en að sjá fólk á götu. Sjón er þannig skynfæri, maður sér það sem er í sjónvarpinu alveg eins og það sem er hinum megin við götuna, það er ekkert minni sjón eða hvað?

Ég hef hitt tvær tegundir af fólki og það er misskemmtilegt en lærdómsríkt hvorttveggja. Annars vegar er fólk sem hefur áhuga á Íslandi og því sem ég er að gera, fólk sem væri kannski góðir vinir mínir ef ég byggi hér en ekki þar – þar verandi Ísland á þessari stundu. Svo er fólkið sem hefur engan áhuga eins og mennirnir sem ég sat hjá í kvöldmatnum um daginn. Þar voru miklar seremóníur framdar og um hríð sat ég ekki hjá vinum mínum heldur hjá þremur ókunnugum mönnum.

Maður númer eitt var um sextugt, hvíthærður, vel klæddur, aristókratískur. Hann er svo siðaður að það sést ekki á honum að hann hefur engan áhuga á mér þó að þannig sé það auðvitað. Við ræðum lítillega um Ísland. Hann hefur heyrt um kreppuna. Ég flyt honum tölulegar staðreyndir um landið. Hann hlustar á það því að allir háskólamenn elska staðreyndir, meiraðsegja póstmódernískar í laumi. Kurteist, fallegt, yfirborðskennt.

Næsti maður hefur engan áhuga og nennir ekki að hafa hann því að hann er stærðfræðingur og heitir nafni sem mætti þýða sem Prófessor Klikk á íslensku. Hann er sköllóttur með hrokkinn hárkraga. Hann ýtir að mér mat og víni. Hefur engan áhuga. Ísland er lítið og ómerkilegt land og þannig séð fjarlægt. En ég sé á honum að hann hefur ekkert sérstaklega lítinn áhuga á mér, hann er bara ekki í áhugabisnessinum.

Þriðji maðurinn er Ameríkani. Hann segist því miður aldrei hafa komið til Íslands. Ég segi honum að það sé alveg jafn gott að fara til Aberdeen, það sé nokkurn veginn eins. Það er í eina skiptið sem stærðfræðingurinn lifnar aðeins við. En sá ameríski er vinsamlegur og það sést á honum að hann gæti fengið áhuga ef ég virkilega reyndi að vekja hann. En ég reyni ekki því að ég þarfnast áhuga hans ekki nógu mikið í einn hálftíma.

Þannig að ég fór til útlanda án þess að slá í gegn. Á að vísu eftir að flytja erindi sem mér skilst að sé ekki einu sinni skylda í rannsóknarmisserinu. Hver veit nema það slái í gegn? Samt verður Ísland áfram lítið og ómerkilegt fyrir þessum þremur mönnum í miðju heimsins. Þeir munu ekki muna þetta samtal okkar. Eins gott að ég er ekki sendiherra.

Pistill hefði niðurstöðu. Einnig vísindagrein. Þetta er hvorugt, miklu frekar játning sem hefur þó ekkert gildi fyrir dómstólum vegna óvissunnar um hvað var játað,

PS: Tekið skal fram að skrifin hér að ofan eru ekki eini árangur rannsóknarmisserisins sem ég fékk vorið 2011. Skattgreiðendur geta andað léttara.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *