Borgarastéttin var líkast til höfuðóvinur marxista númer eitt. Henni hefur verið einna best lýst í frægu verki Max Webers um siðferði mótmælenda og anda kapítalismans, en hatur marxistanna á borgarastéttinni var samt tvíbent. Hatrið fól í sér miklu fremur óttablandna virðingu; bæði hafði borgarastéttin verið fyrri til að gera byltingu og svo hafði henni tekist að gæða samfélag sitt tilteknu siðferði sem vissulega minnti í sumu á yfirborðslegar dyggðir aðalsins um heiður, æru og áreiðanleika. Borgarastéttin gerði þessar og margar aðrar dyggðir að sínum og tókst að ljá þeim meiri trúverðugleika en aðlinum tókst nokkru sinni, kannski af því að þrýstingur hinnar opinberu umræðu óx með borgarastéttinni.
Frjálslyndi 19. aldar, með hugmyndum sínum um frelsi einstaklinga til athafna og ábyrgðar, átti sér þannig siðferðilega réttlætingu sem menn trúðu á. Vissulega kúgaði hin vestræna borgarastétt bæði verkalýð og nýlendur af gegndarlausri grimmd, en hún ímyndaði sér þó að hún byggi í samfélagi og hún lét ýmsar siðferðisreglur gilda innan þess og í umgengni við aðra af sama tagi.
Þessu var öðruvísi farið í fári nýfrjálshyggjunnar sem yfir heimsbyggðina reið á síðustu áratugum. Skýringin á því er einföld. Nýfrjálshyggjan henti borgaralegum gildum og dyggðum borgarastéttarinnar út um gluggann og gerði markaðinn að eina siðferðisvísi sínum. Þetta rof fékk sína frægustu birtingarmynd í orðum Margaretar Thatcher þegar hún sagði ekki væri til neitt sem héti samfélag, einungis einstaklingar, karlar og konur og fjölskyldur. „Og engin ríkisstjórn getur gert neitt nema í gegnum fólkið og fólkið þarf að líta fyrst til sjálfs sín.“ Þetta er kennisetning hinnar ábyrgðarlausu sjálfselsku sem lítur einungis til eigin hagsmuna og framhjá hagsmunum annarra.
Þessi kennisetning er ekki einungis orðagjálfur fyrrverandi stjórnmálamanns heldur hefur hún getið af sér hugsunarhátt meðal fjölda einstaklinga og þar með athafnir þar sem hlegið er að ábyrgð og svo einföldum hlutum eins og standa við orð sín; jafnvel eignarrétturinn sem borgarastéttin fyrri gerði að grundvallarreglu er háður hentistefnu og tæknilegri túlkun sjálfselskunnar.
Við sjáum afleiðingarnar í framgöngu allra þeirra ungu karla og kvenna sem á undanförnum árum trúðu ekki á neitt samfélag og hafa um leið valdið borgaralegum samfélögum meira fjárhagslegu tjóni en allir hryðjuverkamenn heimsins til samans.
Orsökin er siðleysið sem hin réttnefnda nýfrjálshyggja ber með sér, því hún er einmitt ný að þessu leyti, hún reynir ekki að ímynda sér að til sé neitt annað en einstaklingar og fjölskyldur sem þurfi að líta til sjálfs sín. Þetta er í raun draumastaða marxistanna, því með þessum hugsunarhætti gerir borgarastéttin út af við sig sjálfa með því að fórna samheldni sinni sem byggði á þeim siðferðilegu gildum sem gerðu hana eins valdamikla og raun ber vitni.
Við sjáum þetta í svo mörgu á undanförnum árum, en kannski er þetta augljósast í framferði Íslendinga í hinu guðsvolaða Icesave máli. Íslendingar tóku ekki ábyrgð á innstæðum íslenskra banka í Bretlandi og Hollandi, aðeins þeim sem hér eru. Þessi mismunun eftir þjóðerni er í anda kennisetningar Thatchers. Vissulega var þetta einkabanki og mikil neyð í öllu kerfinu íslenska. Þessi banki starfaði þó með leyfi íslenskra yfirvalda og á ábyrgð þeirra. Jafnvel þótt menn telji þá ábyrgð ekki vera tæknilega Íslendinga er þó staðreynd að Íslendingar hafa marglofað að „standa við allar skuldbindingar sínar“ eins og formenn flestra flokka á þingi héldu fram eftir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er líka ein af grunndyggðum borgarastéttarinnar; að standa við orð sín og undirskriftir, aðeins braskarar og illþýði svíkjast um að standa við orð sín og loforð með lagatæknilegum undanslætti. Eða þannig var það; nú er það orðin dyggð hjá ýmsum sem áður töldu sig til borgarastéttar eða marxista, en eiga nú sjálfselskuna sameiginlega með nýfrjálshyggjumönnunum sem í upphafi öttu heilu samfélögunum út á foraðið.
Leave a Reply