Þema heftisins er Saga og sjálfsmyndir. Í heftinu eru níu greinar sem fjalla hver með sínum hætti um spurningar er varða notkun sögunnar til að móta sjálfsmyndir þjóða, hópa og einstaklinga. Þar að auki er að vanda að finna í heftinu myndaþátt sem einnig hverfist um meginefni þess.
Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir ríður á vaðið með grein um stórfellda hagnýtingu klisjunnar í framsetningu íslenskrar sögu með ríkisstyrktum sýningum víða um land. Gagnrýni Önnu beinist að því að yfirvöld séu í raun að breyta sögunni og sjálfsmyndinni í það sem kallað er á erlendum málum kitsch og á fremur heima í minjagripasjoppum en á sýningum sem styrktar eru af almannafé í nafni menningartengdrar ferðaþjónustu.
Sigríður Matthíasdóttir skoðar hvernig hugmyndir manna um „kvenleika“ og „eðli“ kvenna breyttust undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. og greinir hvernig kenningar um frelsi kvenna sem einstaklinga rákust á hversdagslegan veruleika karlmanna þannig að sumir þeirra sem áður studdu aukin mannréttindi kvenna sviku þann málstað þegar til átti að taka. Svanur Kristjánsson rekur þessa sögu andspænis hinum pólitíska bakgrunni og tengir sinnaskipti karlanna við óttann um að missa völdin.
Sverrir Jakobsson tekst á við þá spurningu hvort og hvernig sagnfræði sé mörkuð af fyrirframgefnu fræðilegu viðhorfi eða „kenningum“ og dregur m.a. fram athyglisverðar hliðstæður milli aðferðafræði sagnfræðinga og raunvísindamanna.
Guðmundur Jónsson skoðar einnig átökin milli hinnar hefðbundnu, (raun)vísindalegu nálgunar sagnfræðinnar og þeirra kenninga, gamalla og nýrra, sem dregið hafa þessa aðferðafræði í efa. Róbert H. Haraldsson fer síðan vendilega yfir sannleikshugtakið í sagnfræði frá heimspekilegu sjónarhorni.
Einnig er í heftinu tvær merkar greinar eftir þau Joan Scott og Joep Leerssen í íslenskri þýðingu Maríu Bjarkadóttur. Greinar þessar taka einmitt á þeim nýju sjónarhornum sem komið hafa fram í sagnfræði og þjóðernisrannsóknum á síðari árum og snerta þannig mörg viðfangsefni annarra greinarhöfunda í þessu hefti Ritsins.
Myndaþáttur heftisins hefur að geyma myndir eftir Helga Arason (1893-1972). Myndirnar bregða ljósi á líf fjölskyldu í Öræfasveit á fjórða áratug síðustu aldar, eins og fræðast má um í aðfararorðum Sigrúnar Sigurðardóttur að myndaþættinum.
Ritið 1/2008 er 215 bls.
ISBN: 978-9979-54-795-2
Hlýnun jarðar 2/2008
Í fyrstu greininni sem helguð er þema heftisins, „Viðhorf og vistkreppa“, veitir Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, greinargott sögulegt yfirlit yfir vísindalegar kenningar og fræðilega umræðu um umhverfismál. Halldór Björnsson og Tómas Jóhannesson, vísindamenn við Veðurstofu Íslands, skýra kenningar um gróðurhúsaáhrif og leggja fram á skýran og greinilegan hátt þau rök sem vísindamenn hafa fyrir því að líta svo á að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Jafnframt taka þeir til umræðu helstu mótbárur gegn þessu viðtekna viðhorfi vísindanna og svara þeim. Snorri Baldursson líffræðingur fjallar hins vegar um þau áhrif sem loftslagsbreytingar hafa haft, og munu hafa, á lífríkið á jörðinni almennt og hér á norðurhjara sérstaklega. Síðasta greinin í þemahluta heftisins er eftir Guðna Elíssonar bókmenntafræðing sem hefur verið fremstur í flokki þeirra sem látið hafa sig hlýnun jarðar varða á Íslandi, í það minnsta á meðal hugvísindamanna. Guðni beinir sjónum sérstaklega að efa manna um loftslagsbreytingar og varpar ljósi á það hvaða öfl má ætla að standi slíkri efahyggju að baki, leynt eða ljóst, meðvitað eða ómeðvitað.
Í heftinu birtist einnig, í íslenskri þýðingu, bókarkafli eftir breska aðgerðasinnann George Monbiot sem ber hið lýsandi heiti „Afneitunariðnaðurinn“. Hér er kominn kafli úr bók Monbiots Heat: How To Stop the Planet From Burning (2006) þar sem höfundurinn flettir skipulega ofan af rótum þeirrar efaherferðar um hlýnun jarðar sem sett hefur órækt mark á umræðuna um þessi mál á Vesturlöndum og jafnvel um allan heim. Niðurstöður Monbiots munu án efa koma mörgum lesendum á óvart, en ekki er þar með sagt að allir séu sammála þeim – satt að segja er ekki við því að búast ef marka má þá mynd sem Monbiot sjálfur dregur upp.
Myndaþáttur Ritsins að þessu sinni er úr smiðju Odds Sigurðssonar jarðfræðings. Þar er um að ræða þrjú myndapör sem sýna hvernig íslenskir jöklar hafa hopað eða skriðið fram á undanförnum áratugum. Eins og endranær segja myndirnar meira en mörg orð, en rétt er að benda á að í grein George Monbiot er að finna umræðu um þá staðreynd að einstaka jöklar geta skriðið fram enda þótt loftslag hlýni og hin almenna regla sé sú að jöklar hopi.
Auk þemagreinanna hefur heftið að geyma fimm aðrar greinar. Markus Meckl birtir hér ritgerð sem byggð er á fyrirlestri sem hann hélt við Háskólann á Akureyri í september síðastliðnum og vakti allmikla athygli fjölmiðla og bloggara. Greinin er þarft framlag til umræðunnar um Múhameðsteikningarnar svonefndu sem danska dagblaðið Jyllands-Posten birti haustið 2005 eins og frægt er orðið. Í greininni tekur Meckl hugmyndina um tjáningarfrelsi til sögulegrar greiningar og kemst að þeirri niðurstöðu að fráleitt sé að halda slíku frelsi á lofti í einangrun frá öllum öðrum gildum.
Í grein sinni beinir Henry Alexander Henrysson sjónum að heimspekingnum G.W. Leibniz, einum helsta hugsuði 17. aldar, sem hefur mátt sæta því að vera hvað kunnastur fyrir þá skopmynd sem Voltaire dró upp af honum í Birtíngi. Henry hefur haslað sér völl á vettvangi Leibniz-fræða og heldur í grein sinni fram nýstárlegri túlkun á því hvað Leibniz átti við með hugmynd sinni um það að heimurinn sem við byggjum sé sá besti sem völ er á.
Á þennan hátt má líta á grein Henrys sem gott dæmi um skapandi úrvinnslu á tilteknum bókmenntaarfi – að því gefnu að heimspekina megi telja undirgrein bókmennta, eins og stundum er gert. Gauti Kristmannsson tekur upp þennan þráð í grein sinni og varpar ljósi á framlag breska biskupsins og fræðimannsins Thomas Percy til að móta hugmyndir enskra málnotenda um norrænar, þ.e. íslenskar, fornbókmenntir. Greinin er þannig ágætt framlag til skilnings á því mikilvæga hlutverki sem þýðendur allra tíma leika í hugarheimi eigin samfélags og menningar.
Stefán Snævarr hefur verið ólatur við að birta greinar á síðustu árum um ýmis heimspekileg efni. Hér birtist eftir hann þar sem viðfangsefnið er franski heimspekingurinn Paul Ricœur og kenningar hans um sjálf, vitund og sjálfsvitund. Eins og endranær er sýn Stefáns á viðfangsefnið í senn fjörleg og gagnrýnin.
Að síðustu skal svo telja grein Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings, þar sem hún lýsir ýmsum niðurstöðum sínum af áralöngum rannsóknum og uppgreftri á Skriðuklaustri á einkar áhugaverðan hátt. Steinunn leggur megináherslu á að bregða upp lifandi mynd af heildstæðri upplifun þeirra sem lifðu og hrærðust í klaustrinu, eða áttu leið þar um. Þannig verður grein hennar framlag til nýrra strauma innan fornleifafræðinnar sem raunar má fræðast um í fyrri hluta greinarinnar sjálfrar.
Kápumynd Ritsins er eftir Halldór Baldursson.
Ritið 2/2008 er 207 blaðsíður.
ISSN: 1670-0139
Tilbrigði 3/2008
Hugtakið „tilbrigði“ (e. variation) hefur verið mjög á döfinni í hugvísindum síðustu áratugi í kjölfar efasemda um ótvírætt gildi hins „upprunalega“ og ráðandi stöðu hins staðlaða. Þess í stað hefur athyglinni í vaxandi mæli verið beint að ýmiss konar breytileika og frávikum, t.d. menningarfyrirbærum sem eru í andstöðu við opinbera stefnu eða meginstrauma. Þetta hefur haft í för með sér nýjar rannsóknaráherslur og aðferðir, sem aftur haldast í hendur við gagngerar breytingar á því hvernig fólk aflar sér upplýsinga nú á dögum. Með hliðsjón af þessum aukna áhuga þótti ástæða til að helga þetta þemahefti af Ritinu tilbrigðum á öllum sviðum hugvísinda þótt tilbrigði í máli og málnotkun séu í forgrunni.
Í heftinu eru fjórar greinar um tilbrigði í máli, þrjár eftir íslenska fræðimenn og ein þýdd grein eftir bandarískan málvísindamann. Höskuldur Þráinsson skrifar grein þar sem er fjallað um tilbrigði frá sjónarhóli málkunnáttufræði (e. generative grammar). Höskuldur færir rök að því að málfræðibylting Chomskys hafi fyrst og fremst verið fólgin í endurskilgreiningu á viðfangsefni málfræðinga. Hann sýnir með dæmum hvaða áhrif þessi endurskilgreining hefur haft á ýmsar undirgreinar málfræðinnar. Í kjölfarið fjallar hann um ýmsar gerðir af tilbrigðum í máli í ljósi málkunnáttufræðinnar og gerir grein fyrir því hvernig þau samrýmast hugmyndum málkunnáttufræðinga. Höskuldur leggur áherslu á að viðfangsefni málkunnáttufræðinga sé að lýsa málkunnáttunni. Jafnframt minnir hann á að skoða megi mörg önnur málleg viðfangsefni með öðrum aðferðum og raunar sé í mörgum tilvikum ekki um annað að ræða.
Sigríður Sigurjónsdóttir fjallar í grein sinni um tilbrigði í máli íslenskra barna. Hún skoðar fyrst nokkur algeng frávik frá máli fullorðinna í barnamáli en beinir síðan sjónum að sjaldgæfu afbrigði í spurnarsetningum í máli þriggja ára íslenskrar stúlku. Sú setningagerð sem stúlkan alhæfir er sjaldgæf í tungumálum en er þó líklega tiltölulega algeng í málumhverfi ungra íslenskra barna. Það er þó ekki alltaf þannig að finna megi líklega fyrirmynd að ákveðnum frávikum í máli barna í málumhverfi þeirra. Eins og Sigríður rekur geta tilteknar reglur komið fram sem afbrigði í máli barns enda þótt þær eigi ekki við um móðurmál þess en gildi í öðrum tungumálum. Þessi staðreynd ber vott um sköpunarmátt máltökunnar og rennir stoðum undir kenningar málkunnáttufræðinnar um að málhæfni mannsins sé meðfæddur eiginleiki.
Í mannlegu máli er stöðug togstreita á milli stöðugleika og breytinga. Helgi Skúli Kjartansson sýnir hvernig íslenskt talmál hefur endurnýjast með nýjungum í sagnasamböndum. Helgi Skúli bendir á að þannig hafi tilbrigðin sitt nýjungagildi – þau séu á meðal þeirra aðferða sem nýjar kynslóðir hafa til að greina sig frá málnotkun hinna eldri. Um leið fylgja þeim tækifæri til alþýðlegrar eða óformlegrar málbeitingar því að stílgildi tilbrigðanna er áhrifamest meðan þau eru ný. Þegar nýnæmið sem gefur tilteknum tilbrigðum gildi dvínar fer ekki hjá því að sum þeirra hverfi út málinu. Höfundur telur loks að tilbrigði í sagnasamböndum gefi til kynna þróun í þá átt að nota sem mest hjálparsagnir og láta aðalsagnirnar vera óbeygðar.
Tilbrigði eru mikilvægt atriði í kenningum um útbreiðslu málbreytinga sem bandaríski málvísindamaðurinn Anthony Kroch hefur sett fram. Hann leggur höfuðáherslu á að rannsaka málbreytingar með hliðsjón af mismunandi afbrigðum sama málfræðilega fyrirbæris. Hann setur fram þá tilgátu að víxl á milli tilbrigða í setningagerð við sömu skilyrði stafi af „málfræðilegri samkeppni“ (e. grammar competition). Kroch, sem er mörgum íslenskum málfræðingum að góðu kunnur, á hér grein í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur en Þórhallur Eyþórsson fylgir greininni úr hlaði.
Til viðbótar við umfjöllun um tilbrigði í tungmálinu eru í þessu hefti greinar um annars konar tilbrigði. Yelena Sesselja Helgadóttir fjallar um tilbrigði í byggingu færeyskra skjaldra sem eru náfrændur íslenskra þulna síðari alda. Báðum kveðskaparformum má lýsa sem lausbyggðum þjóðkveðskap sem hefur varðveist í munnlegri geymd. Yelena greinir frá forkönnun á byggingu færeyskra skjaldra sem hún gerði í Færeyjum sumarið 2008. Meginniðurstaðan er að tilbrigði í skjaldrum virðast geta staðið ein og sér undir byggingu nútíma skjaldra og skýrt hana að fullu. Enn fremur leiðir höfundur líkum að því að tilbrigði geti einnig verið helsta burðarvirkið í byggingu eldri skjaldra.
Í heftinu eru tvær greinar um myndasögur og tilbrigði innan þeirra. Úlfhildur Dagsdóttir fæst við tilbrigði í myndmáli eins og þau birtast í myndasögum og fléttar spurningar um stöðu ævintýrsins og ævintýrapersóna inn í grundvöll frásagnarinnar. Úlfhildur teflir fram því sjónarmiði að ævintýraheimarnir eigi sér sinn eigin veruleika og tilvist þeirra sé knúin áfram af öllum þeim sögum sem sagðar hafa verið frá ómunatíð. Þannig snúist myndasagan að nokkru leyti um sjálfa sig, ekki aðeins sem tilbrigði við ævintýrið heldur einnig sem mikilvægur þáttur í því að halda ævintýrinu á lífi. Grein Bergljótar S. Kristjánsdóttur fjallar um myndasöguna um Stebba stælgæ sem birtist í Tímanum á árunum 1966–67, einkenni sögunnar og tengsl hennar við sögu(r) og samfélag. Bergljót lítur á söguna sem tímamótaverk sem marki ákveðið kynslóðabil í íslenskri menningarsögu líkt og Tómas Jónsson. Metsölubók sem kom út sama ár og Stebbi stælgæ birtist fyrst. Í sögunni fléttast saman nútíð og fortíð, samtími og menningararfur og skopstæling sögunnar felst ekki síst í árekstrum þar á milli sem m.a. kemur fram í tungutaki sögupersónanna eins og Bergljót rekur í greininn. Hún veltir einnig fyrir sér eðli myndasögunnar og stöðu hennar innan bókmenntanna.
Óskiljanlegur breytileiki tilverunnar er viðfangsefni Svavars Hrafns Svavarssonar í grein um forngríska heimspekinginn Pyrrhon frá Elís (365/60-275/70 f. Kr.), upphafsmann róttækrar efahyggju sem síðan er við hann kennd. Hugmyndir þessa mikla efasemdarmanns hafa varðveist í ritum eftir heimspekinginn Sextos Empeirikos (um 200 e. Kr.) og áttu eftir að hafa umtalsverð áhrif á heimspekinga nýaldar sem reyndu að yfirvinna efahyggju og finna öruggan grundvöll þekkingar.
Myndlistarþáttur Ritsins er helgaður Birgi Andréssyni (1955–2007). Mörg verk hans fjalla um sjálfsskilning Íslendinga, táknmyndir þjóðarinnar og þjóðararfsins. Í verkum sem Birgir kallaði Nýbúa ræktaði hann „innflytjendur“ í Ora-niðursuðudósum, því íslenskasta af öllu íslensku. Það er nærtækt að álykta að hér velti Birgir fyrir sér spurningum um stefnu Íslendinga í innflytjendamálum og hvort við reynum að steypa fólk frá öðrum löndum í rammíslenskt mót og ræktum tilbrigði við okkur sjálf í innlendum jarðvegi. Eins og Arnaldur Freyr Birgisson segir í inngangsorðum um verk föður síns lýsti Birgir þessum verkum sjálfur þannig að „ávextirnir sem við njótum svo mjög koma að utan og við þurfum að elska og annast um það fólk sem flyst hingað uppá hjarann, leyfa nýgræðingnum að vaxa í íslenskri mold“. Kápumynd Ritsins er einnig eftir Birgi.
Að venju eru einnig birtar greinar í heftinu sem falla utan hins eiginlega þema. Henry Alexander Henrysson á hér grein sem hann nefnir “Góður, betri, mestur? Leibniz um hinn besta mögulega heim.” Greinin er eins konar varnarræða fyrir þýska heimspekinginn Leibniz, sem er líklega best þekktur fyrir bjartsýni sína. Hann staðhæfði að heimur okkar væri sá besti sem Guði hefði nokkurn tíma hafa getað dottið í hug að skapa og mátti sæta því að vera dreginn sundur og saman í háði fyrir bragðið, m.a. af Voltaire. Loks kannar Gauti Kristmannsson tilteknar breytingar á því sem telst vera klassískt í bókmenntasögunni með því að skoða hverning íslenskar, eða norrænar, miðaldabókmenntir urðu “klassískar”, einkum á Bretlandseyjum á seinni hluta 18. aldar, en upp úr því víðar um heim.