Frá dögum Kólumbusar hafa Evrópubúar sótt gull í greipar Rómönsku Ameríku; þar voru dýrir málmar í jörðu og nægt vinnuafl en þaðan komu líka kartaflan, tómaturinn, maísinn, kakóbaunin – og kókaplantan. Grimmd og græðgi nýlenduherranna settu svip á sögu svæðisins, og má sjá þess glögg merki enn í dag. En Rómanska Ameríka er líka ríkulegt menningarsvæði, og hvað stjórnmál snertir hafa síðustu ár einkennst af vaxandi andstöðu við nýfrjálshyggju og einkavæðingu.
Þessar ólíku hliðar Rómönsku Ameríku endurspeglast í þessu hefti Ritsins. Hólmfríður Garðarsdóttir fjallar um kvikmyndagerð í Rómönsku Ameríku, Jón Thoroddsen skrifar um mexíkóska rithöfundinn Carlos Fuentes og Kristín Guðrún Jónsdóttir beinir sjónum að landamærum Mexíkós og Bandaríkjanna og þeirri menningu sem þar þrífst. Kristín I. Pálsdóttir segir frá lífi og verkum nunnunnar Sor Juana, sem var uppi á 17. öld og er stundum talin fyrsti femínistinn í Rómönsku Ameríku, Stefán Ásgeir Guðmundsson fjallar um hinn umdeilda Hugo Chávez og Peter Hallward rekur sögu Haítí frá því að Frakkar staðfestu völd sín þar árið 1697.
Þrjár greinar utan þema birtast í Ritinu í þetta sinn. Annette Lassen færir rök fyrir tengslum milli kvikmyndar Lars von Trier Breaking the Waves annars vegar og heilagra kvenna sagna og ævintýra H.C. Andersens hins vegar, Auður Ingvarsdóttir segir frá margkunnum konum á miðöldum og ræðir merkingu orðsins „óborið“ þegar ófætt barn á í hlut, og Róbert H. Haraldsson skrifar um dönsku skopmyndirnar af Múhameð spámanni og baráttuna fyrir prentfrelsi.
Í heftinu birtast tveir stuttir bókmenntatextar frá Mexíkó í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur: „Undir brúnni“ eftir Rosariu Sanmiguel og „Röðin“ eftir Luis Humberto Crosthwaite. Báðir þessir textar bregða ljósi á landamærin sem skilja íbúa Rómönsku Ameríku frá nágrönnunum í norðri.
Ritið er 201 blaðsíða.